Leikjarýni

Birt þann 2. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: inFAMOUS: Second Son

Nintendo er með Mario og Zelda og Xbox One er með Titanfall, þetta eru leikirnir sem selja vélarnar. Nú fyrir stuttu kom út leikurinn sem jók sölu PS4 véla í Bretlandi verulega; inFAMOUS: Second Son.

inFAMOUS: Second Son er þriðji leikurinn í inFAMOUS seríunni og fylgir söguhetjunni Delsin Rowe. Leikurinn gerist sjö árum eftir dauða Cole MacGrath og Seattle borg í Bandaríkjunum er staðsetning leiksins eins og í fyrri leikjum.

Delsin er bandarískur frumbyggi af indíána ættum sem fær krafta sem svipa til fyrri hetju inFAMOUS leikjanna. Eini munurinn er að Delsin er svokallaður „conduit“ eða leiðari og getur því dregið í sig krafta frá öðrum. Þessi eiginleiki hans gerir leikinn mjög fjölbreyttan því það eru margar leiðir fyrir mann til að kljást við óvini.

>> SKEMMTILEGUR Í SPILUN

Það er ótrúlega gaman að spila Second Son. Hann er fallegur, hraður og lítið er um að einhverjir tæknikvillar spilli fyrir manni gamaninu. Spilun leiksins gengur aðallega út á það að nýta sér krafta sína til að hrekja í burt D.U.P. liða sem hafa hertekið Seattle í leit sinni að leiðurum. Delsin sem er núna orðinn að einum slíkum þarf að berjast við þá með því að taka yfir yfirráðasvæði þeirra annað hvort sem illmenni eða sem hetja.

Til að ná stjórn á borginni aftur og til að geta haldið áfram með söguna þarf Delsin að sprengja myndavélar, finna spæjara, graffa á veggi og drepa/fanga D.U.P. hermenn. Þegar einhverjar af þessum aðgerðum eru framkvæmdar notast spilarinn við PS4 fjarstýringuna þ.e.a.s. innbyggða míkrófóninn og „,move“ fítusinn sem er nú hluti af fjarstýringunni. Þegar Delsin graffar á veggi þarf maður að snúa fjarstýringunni og hrista eins og maður haldi á málningarbrúsa. Mér fannst þetta mjög skemmtileg viðbót, hún bætti engu stórkostlegu við en hún var góð viðbót sem lét manni líða eins og maður væri að gera meira.

infamous_second_son_01

Eins og í fyrri inFAMOUS leikjum getur maður ákveðið hvort maður vill vera góður eða vondur. Leikurinn byggist á svokölluðu „morality“ system þar sem leikmaðurinn fær kost á því að gera góða hluti eða vonda, t.d. þegar maður er að berjast við D.U.P. menn getur maður annaðhvort drepið þá eða fest þá niðri þannig að þeir verði ekki til vandræða lengur. Ég spilaði í gegnum leikinn einu sinni og var eins góður og hægt var og kláraði leikinn sem hetja. Ég ákvað svo að prufa að spila leikinn aftur til þess að sjá hversu miklu það breytti að vera vondur og ég varð fyrir vonbrigðum. Sagan er að mestu leiti eins hvort sem maður er góður eða vondur og það eina sem breytist er að maður getur uppfært mismunandi krafta og þeir líta ekki eins út.

Leikurinn notast við ágætt uppfærslukerfi sem gerir manni kleift að velja hvaða krafta maður uppfærir. Það er einnig fullkomlega undir manni komið hversu mikið maður vill uppfæra því hægt er að finna hluti í umhverfinu sem eru notaðir til að gera krafta manns betri.

Í leiknum eru fjórir kraftar, reykur sem maður byrjar með, neon, video og einn í viðbót sem ég vil ekki spilla. Þeir eru allir mismunandi en það er eitt af því skemmtilegasta við leikinn. Þegar maður notar reyk kraftinn getur maður skotist fram og aftur og kæft óvini en neon gerir manni kleyft að skjóta bleikum neon sprengjum úr höndum sér og hlaupa upp veggi.

infamous_second_son_03

>> GULLFALLEGUR LEIKUR

Þessi leikur er gullfallegur. Eins og ég sagði í Killzone rýni minni þá er alveg klárt að PS4 er mikil uppfærsla frá PS3 og sérstaklega þegar talað er um grafík. Karakterar í leiknum líta nokkuð vel út og umhverfið sem leikurinn gerist í er mjög fallegt. Það sem stendur uppúr hinsvegar eru kraftarnir. Þeir eru fáránlega flottir. Allir kraftarnir eru einstakir og eru því einstakir í útliti. Það er eiginlega erfitt að lýsa þeim þeir eru svo mikil breyting frá því sem ég hef séð áður.

infamous_second_son_04

>> GALLAR

Það var ekki mikið um galla í inFAMOUS: Second Son. Það sem pirraði mig mest var að valið um að vera hetja eða óþokki skipti litlu sem engu máli þegar litið er á leikinn sem heild. Í fyrri spilun minni á leiknum ákvað ég að bjarga einstaklingi og lenda í vandræðum sjálfur, en í seinni spilun ákvað ég að fórna honum. Maður myndi halda að þegar ég fórnaði þessum einstaklingi myndi hann deyja og sagan myndi breytast en nei, sagan breyttist lítið sem ekkert fyrir utan smá mun á samræðum karaktera.

Af og til poppa upp gallar sem maður sér í næstum öllum leikjum. Einstaka sinnum birtist áferð hluta ekki alveg rétt (texture pop-in) og smá hik hér og þar, en það er ekkert miðað við það sem var í leikjum á borð við GTA V á PS3. Í heildina spilar leikurinn vel og eina ástæðan fyrir því að ég tók eftir þessum göllum var að ég var að reyna að finna eitthvað til að gagnrýna.

infamous_second_son_02

>> SAMANTEKT

Allt í allt er inFAMOUS: Second Son frábær leikur sem allir sem eiga PS4 eiga að fá sér. Fallegur og vel skipulagður heimur inFAMOUS er vel skapaður og mjög gaman að hlaupa um eins og risastórt bleikt neonskilti. Sagan er ekki endilega besta saga okkar samtíma og ákvarðanir skipta litlu sem engu máli en það ætti ekki að vera nóg til að hrekja burtu fólk sem vill skemmta sér vel við spilun leiksins.

 

Höfundur er Skúli Þór Árnason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑