Bækur og blöð

Birt þann 5. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Kall Cthulhu í íslenskri þýðingu

Kall Cthulhu

H.P. Lovecraft

Þýðing: Þorsteinn Mar

 

 

 

HRYLLILEGA LEIRMYNDIN

Ég held að mesta miskunn sem mannkyninu hafi verið sýnd er vangeta þess að setja alla vitneskju sína í samhengi. Við erum stödd á friðsælli eyju þekkingarleysis, í miðju svartahafi eilífðarinnar og okkur var ekki ætlað að ferðast langt þaðan. Vísindagreinar halda kappsamar hver í sína átt og hafa hingað til ekki verið okkur til mikilla ama, en dag einn munum við púsla saman brotakenndri þekkingu okkar og uppgötva hve veruleikinn er hræðilegur. Þá fyrst munum við sjá hve staða okkar er ógnvekjandi og við það missum við annað hvort vitið eða flýjum ljós opinberunarinnar aftur í öryggi og frið nýrrar myrkar aldar.

Guðfræðingar hafa reynt að geta sér til um mikilfengleika himinhvolfanna, þar sem heimur okkar og mannkynið sjálft eru aðeins hverfular tilviljanir. Þeir hafa gefið í skyn að eitthvað undarlegt kunni að hafa lifað í árþúsund og ef ekki væri fyrir einlæga bjartsýni þeirra, þá rynni okkur kalt vatn milli skinns og hörunds. Það er þó ekki fyrir þeirra sakir sem ég öðlaðist andartakssýn í gegnum forboðin árþúsund, sýn sem skelfir mig og ærir er ég hugsa um hana. Henni, rétt eins og öllum hryllilegum sýnum sannleikans, brá fyrir augu mín er ég raðaði saman mjög ólíkum brotum – í þessu tilfelli gamalli blaðagrein og glósum látins prófessors. Ég vona, að engum öðrum takist það sama, því á meðan ég lifi vil ég alls ekki vera hlekkur í svo hræðilegri keðju. Mig grunar, að prófessorinn hafi einnig ætlað sér að halda þessari þekkingu út af fyrir sig og ef dauða hans hefði ekki borið að með svo bráðum hætti, hefði hann eyðilagt glósur sínar.

Ég komst í kynni umrætt mál veturinn 1926-1927, er frændi minn; George Gammel Angell, prófessor emerítus í semískum tungumálum við Brown háskóla, Providence, Rhode Island; féll frá, 92 ára að aldri. Angell prófessor hafði getið sér gott orð sem sérfræðingur á sviði fornra ritmála og höfðu forstöðumenn stórra safna oft leitað til hans og því má vel vera að einhverjir kunni að muna eftir andláti hans. Áhugi á kringumstæðum þess atburðar var mikill þar sem hann bjó enda þóttu þær um margt sérkennilegar. Hann virðist hafa orðið fyrir einhvers konar áfalli er hann sneri aftur með bátnum frá Newport. Vitni sögðu hann hafa fallið skyndilega í götuna eftir að negri, sem virðist hafa verið sjómaður af klæðaburði hans að dæma, stjakaði við honum. Negrinn hafði komið frá einhverjum af dökku, undarlegu húsunum sem standa þar í brattri hlíðinni, en Angell prófessor hafði ákveðið að stytta sér leið heim til sín í Williams-stræti. Læknar stóðu ráðþrota frammi fyrir dánarorsökinni, en eftir langar og ítarlegar rannsóknir komust þeir að þeirri niðurstöðu að eitthvað hlyti að hafa valdið hjartabilun hjá prófessornum og töldu líklegustu skýringuna þá að gönguförin hafi reynst honum, öldnum manninum, of erfið. Á þeim tíma sá ég enga ástæðu til að draga niðurstöður þeirra í efa, en upp á síðkastið hefur illur grunur læðst að mér – afar illur grunur.

Frændi minn, sem var ekkill, lést barnlaus og sem erfingja og skiptastjóra var mér ætlað að fara ítarlega í gegnum pappíra hans. Því flutti ég öll skjöl hans og kassa til Boston í íbúð mína. Margt af því sem ég safnaði saman verður síðar gefið út af Ameríska Fornleifafélaginu. Einn af kössum hans var mér þó mikil ráðgáta og var ég mjög andsnúinn því að láta hann bera fyrir sjónir annara. Kassinn var læstur og lengi vel fann ég ekki lykil að lásnum, fyrr en mér hugkvæmdist að skoða kippu frænda míns, sem hann hafði jafnan á sér. Þá tókst mér loks að opna kassann, en ofan í honum var jafnvel enn dularfyllri leyndardómur. Hvers vegna hafði frændi minn lagt undarlega leirmynd, ósamstæðar blaðaúrklippur og furðulegar dagbókarfærslur í kassann? Hafði hann í elli sinni fallið fyrir augljósum prettum? Ég ákvað að leita uppi myndhöggvarann sem virtist hafa átt sök á því að raska ró gamla mannsins.

Leirmyndin var ferhyrnd og innan við tommu á þykkt, hún var fimm sinnum sex tommur og hafði greinilega verið gerð frekar nýlega. Myndin var þó sjálf langt frá því nútímaleg í efni og anda. Þrátt fyrir að tilburðir kúbisma og fútúrisma séu margir og tryllingslegir, þá er sjaldgæft að listamönnum takist að endurskapa dularfullt regluverk fornra ritmála. Einhvers konar skrift virtist nefnilega vera ríkjandi í myndinni, þó mér tækist hvorki að ráða fram úr hvaða tungumál átti í hlut né hvaða ritmáli þessi skrift gæti verið skyld, samt hafði ég öll skjöl og allar rannsóknir frænda míns undir höndum.

Fyrir ofan híróglífurnar var mynd af veru, en impressjónísk framsetning hennar kom í veg fyrir ég gæti með góðu móti gert mér í hugarlund um hvers kyns veru væri að ræða. Hún virtist vera einhvers konar skrímsli og var form hennar þannig, að aðeins þeir allra sjúkustu á geði gátu séð þess háttar fyrir sér. Ef ég segði að óhóflega ímyndunarafl mitt hafi kallað fram samtímis mynd af kolkrabba, dreka og afbökun á manni, væri ég ekki fjarri lagi. Feitlagið höfuð með gripörmum var efst á viðbjóðslegum líkama, húðin lögð flögum, eins og á snákum, ásamt frumstæðum vængjum. Það var þó heildarmyndin sem var hve hræðilegust. Í bakgrunni mátti grilla í risavaxnar byggingar.

Að undanskildum bunka af blaðaúrklippum voru skjölin sem fylgdu leirmyndinni rituð nýlega af Angell prófessor og var hvergi í þeim nokkra skáldlega tilburði að finna. Það sem virtist vera meginskjalið var merkt „Söfnuður Cthulhu“, skrifað með skýrum prentstöfum sem eflaust var ætlað að koma í veg fyrir rangan upplestur á svo framandi orði. Skjali þessu var skipt upp í tvo kafla, var sá fyrri titlaður „1925 – Draumar og draumverk H. A. Wilcox, Thomas stræti 7, Providence, R. I.“ en sá seinni nefndist „Frásögn Johns R. Legrasse rannsóknarlögreglumanns, Bienville stræti 121, New Orleans, LA, árið 1908 A. S. A. Mtg – Glósur og samantekt Angells prófessors.“ Hin skjölin voru styttri, sum þeirra frásagnir af undarlegum draumum ólíkra einstaklinga, önnur innihéldu tilvitnanir í guðfræðilegar bækur og tímarit (einkum úr Atlantis og týnda Lemúría eftir W. Scott-Elliot) og þau síðustu athugasemdir um langlíf leynifélög og –söfnuði, með tilvísunum í mismunandi kafla í goð- og mannfræðibókum á borð við The Golden Bough eftir Frazer og Nornasveimir í Vestur-Evrópu eftir frk. Murray. Úrklippurnar virtust benda til sérkennilegrar hugsýki og manískrar hegðunar hjá stórum hópi einstaklinga vorið 1925.

Fyrri kafli meginskýrslunnar innihélt mjög undarlega sögu. Svo virtist vera að þann 1. mars 1925 hafi grannur, ungur maður dökkur yfirlitum, bankað upp á hjá Angell prófessor með leirmyndina einstöku, sem var þá enn rök og fersk. Hann kynnti sig sem Henry Anthony Wilcox og kannaðist frændi minn örlítið við hann, þar sem hann var yngsti sonur vel stæðrar fjölskyldu sem var prófessornum ekki ókunn. Wilcox hafði verið í myndhöggvaranámi í Listaskóla Rhode Island og bjó einn í Fleur-de-Lys byggingunni nærri skólanum. Hann hafði verið bráðger sem barn, þótti afburða gáfaður en sérlundaður og hafði allt frá barnæsku vakið athygli fyrir frásagnir af kynlegum draumum og furðulegum sögum. Sjálfur sagðist hann vera „yfirskilvitlega ofurnæmur“, en almennt var talað um í gömlu verslunarborginni að hann væri hreinlega undarlegur. Hann var aldrei mikið fyrir að umgangast fólk af sínum toga, hinn almenna borgara, og hélt sig fjarri félagslífi borgarinnar. Átti hann aðallega vini meðal hóps ungra og róttækra listamanna úr öðrum borgum. Jafnvel hinum íhaldssama Listaklúbbi Providence þótti hann vonlaus.

Í skýrslu prófessorsins segir, að tilefni heimsóknar Wilcoxs hafi verið að leita eftir þekkingu og hjálp frænda míns við að ráða táknin á leirmyndinni. Þegar hann talaði var rödd hans fjarlæg og mál hans tilgerðarlegt, sem var bæði ruglandi og framandi. Angell svaraði af ákveðni, að auðséð væri að myndin væri hvorki gömul né átti nokkuð sameiginlegt með leirmyndum fornalda. Frænda mínum þótti svar Wilcox svo áhugavert, að hann skrifaði það orðrétt niður. Það var í senn ljóðrænt, en það einkenndi jafnan mál hans og, eins og ég hef síðar komist að, var það mjög í hans anda. Hann sagði: „Vissulega er myndin ný, því hana gerði ég síðastliðna nótt, er mig dreymdi framandi borgir; og draumar eru eldri en hin þungt hugsi Týrós, hinn íhugli sfinx eða görðum prýdda Babýlón.“

Þá hóf hann sundurlausa frásögn sína, sagði frá minningum úr draumum sínum og tókst með því að vekja ákafan áhuga hjá frænda mínum. Nóttina áður hafði verið jarðskjálfti, einn sá sterkasti um áraraðir í New England, hafði það haft umtalsverð áhrif á Wilcox og ímyndunarafl hans. Þegar hann hafði lagst til hvílu dreymdi hann nokkuð sem átti sér ekkert fordæmi. Borg þar sem voru risavaxin hús byggð úr ógnarstórum björgum, himinháar steinsúlur teygðu sig upp í svartan næturhimin, útataðar í grænu og viðbjóðslegu slími. Á alla veggi og súlur höfðu verið ristar híróglífur og einhvers staðar djúpt neðan úr jörðinni barst rödd sem var þó ekki rödd, heldur ruglingsleg kennd sem aðeins ímyndun ein gat umbreytt í hljóð. Er hann skrifaði niður það sem hann hafði heyrt, var það óframberanlegt stafarugl: „Cthulhu fhtagn.“

Angell prófessor varð furðu lostinn við að sjá þetta hljóðabrengl en um leið afar spenntur. Hann yfirheyrði myndhöggvarann unga af vísindalegri nákvæmni og rannsakaði af miklum móð leirmyndina, sem Wilcox; kaldur og aðeins í náttfötum; hafði  í forundran vaknað að vinna við. Wilcox sagði mér síðar, að frændi minn hafi kennt elli sinni um hve langan tíma það tók hann að bera kennsl á híróglífurnar og myndina. Margar af spurningum hans virtust Wilcox í fyrstu málinu algjörlega óviðkomandi, sérstaklega þær sem sneru að því að tengja hann við einkennilega sértrúarsöfnuði eða trúfélög. Enn síður skyldi hann hvers vegna prófessorinn hét honum trúnaði ef hann veitti honum aðgang að téðum söfnuðum. Þegar Angell lét að lokum sannfærast um, að myndhöggvarinn væri með öllu fávís um slíka hluti og hefði ekkert vit á fornum leyndardómum, fór hann þess á leit við gest sinn að hann hefði samband aftur ef hann dreymdi eitthvað svipað draumnum sem hann hafði treyst Angell prófessor fyrir. Það gerði Wilcox, því samkvæmt skýrslunni þá heimsótti hann prófessorinn daglega eftir þetta og sagði honum frá hryllilegum nætursýnum sínum, en þær fólu alltaf í sér hræðilegt, tröllaukið landslag þar sem yfir gnæfðu dökkir, slímugir steinar og rödd eða vitund einhvers konar, djúpt úr iðrum jarðar, öskraði eintóna, dularfull hljóð sem verður ekki lýst sem öðru en óskiljanlegum. Tvö orð komu oft fyrir: „Cthulhu“ og „R‘lyeh.“

Í skýrslunni kom fram að Wilcox hafi ekki skilað sér ekki til prófessorsins þann 23. mars og fyrirspurnir heima hjá honum leiddu í ljós, að undarlegur sjúkdómur virtist hrjá hann og hafði hann verið færður heim til fjölskyldu sinnar í Waterman Stræti. Um nóttina hafði hann vakið hina listamennina er bjuggu í húsinu þar sem hann öskraði upp úr svefni en síðan þá hafði hann annað hvort verið með óráði eða meðvitundarlaus. Frændi minn hringdi tafarlaust til fjölskyldu listamannsins og fylgdist náið með framvindu málsins upp frá því. Hann komst að því að Tobey læknir hafði umsjón með sjúklingnum og hafði títt samband við skrifstofu hans að Thayer Stræti. Undarlegir draumar og sýnir sóttu á huga Wilcox þar sem hann lá fárveikur, hrollur fór um lækninn er hann hafði eftir það sem Wilcox talaði um í óráði sínu. Hann sagði ekki eingöngu frá þeim stöðum sem hann hafði dreymt, heldur innihéldu frásagnir hans stuttar lýsingar á risavaxinni veru, mílum á hæð, sem gekk eða staulaðist þunglamalega áfram.

Í örvæntingu sinni lýsti hann þessari veru og miðað við endursögn læknisins var Angell prófessor sannfærður um að hún hlyti að vera eins og nafnlausa skrímslið, sem Wilcox hafði reynt að myndgera í draumverki sínu. Er ungi maðurinn vísaði til þessarar veru, bætti læknirinn við, varð það ávallt til þess að sótthitinn hjaðnaði og Wilcox féll í svefndá. Eins undarlega og það kann að hljóma, þá var líkamshiti Wilcoxs aldrei mikið hærri en gengur og gerist, en að öðru leyti var ástand hans eins og um sótthita væri að ræða frekar en geðbilun.

Þann 2. apríl um kl. 15 snöggbatnaði Wilcox. Hann settist upp í rúmi sínu, gáttaður á að uppgötva að hann væri heima hjá fjölskyldu sinni og algjörlega grunlaus um það sem hafði gerst, hvort sem í raunveruleika eða draumi, síðan aðfararnótt 22. mars. Læknisskoðun leiddi í ljós að Wilcox var fullfrískur og sneri hann því aftur í íbúð sína þremur dögum síðar. Hann varð Angell prófessor ekki að frekara gagni. Undarlegar draumfarir hans urðu ekki fleiri eftir honum batnaði og hélt frændi minn ekki skýrslu um nætursýnir Wilcox lengur en viku eftir þetta, enda tilgangslaust því draumar hans voru þá orðnir hefðbundnir og óáhugaverðir.

Þar með lauk fyrri hluta skýrslunnar, en tilvísanir í ákveðinn hluta af glósunum ósamstæðu voru mér mjög hugleiknar – svo mjög, að í rauninni var það aðeins fyrir meðfædda tortryggni mína, sem hafði þar til þá mótað aðkomu mína að málinu, að ég vantreysti áfram listamanninum. Glósurnar sem um ræddi voru draumlýsingar ólíkra aðila frá sama tíma og Wilcox hafði fengið sýnir sínar. Frændi minn virtist hafa stofnað til gífurlega víðtækrar rannsóknar meðal nærri allra bestu vina sinna, þá sem hann vissi að hann gæti krafið um slíkar upplýsingar, án þess að vera dónalegur eða með hnýsni. Hann bað þá um að halda daglega skýrslu um drauma sína og eins ef viðkomandi hlyti áhugaverða sýn af einhverju tagi að punkta niður hvaða dag það hafi verið. Misvel var tekið í þessa bón hans, en hann fékk að minnsta kosti fleiri svör en nokkur annar maður hefði getað ráðið við án hjálpar aðstoðarmanns. Upprunalegu skýrslurnar virðast ekki hafa verið varðveittar en glósur hans voru nákvæmar og var lagt gagnlegt mat á það sem kom fram í skýrslunum. Svör hins almenna borgara í New England voru nær öll neikvæð, þó inn á milli mætti finna stöku tilfelli um órólegar en formlausar nætursýnir dagana 22. mars – 2. apríl, á meðan óráði Wilcox unga stóð. Svör fræðimanna hjuggu í sama knérunn, þó voru fjórar óljósar frásagnir sem virtust benda til skammvinnrar sýnar af furðulegu landslagi og í einu tilfellanna var talað um ótta vegna einhvers sem var ekki eins og það ætti að vera.

Þau svör sem virkilega voru áhugaverð komu frá listamönnum og skáldum. Ef þeim hefði gefist færi á að bera saman svör sín efast ég ekki um að skelfing hefði gripið um sig í samfélaginu. Þar sem ég hafði ekki upprunalega skjölin undir höndum, grunaði mig hálfpartinn að rannsakandinn hafi spurt leiðandi spurninga eða átt við svörin til að ná fram ákveðinni niðurstöðu. Einnig hafði ég á tilfinningunni að Wilcox hafi með einhverjum hætti vitað af gögnunum sem frændi minn hafði safnað að sér og hafi því verið að blekkja gamla vísindamanninn. Svör listamannanna voru mjög ógnvekjandi. Frá 28. febrúar og fram til 2. apríl dreymdi stóran hluta þeirra afar sérstaka drauma, sem höfðu mun sterkari og ákafari áhrif á sama tíma og myndhöggvarinn var með óráði. Fjórðungur þeirra sem svöruðu mundu eftir senum og hljóðum ekki ósvipuðum þeim sem Wilcox hafði lýst og sumir þeirra viðurkenndu að í draumum sínum hafi þeir óttast mjög nafnlausu veruna sem var sýnileg undir það síðasta. Einn viðmælandi; vel þekktur arktitekt með áhuga á goðafræði og dulvísindum; missti gjörsamlega vitið daginn sem Henrý tók sótthitann, en viðmælandinn lést nokkrum mánuðum síðar, eftir að hafa öskrað linnulaust á hjálp undan því sem hann nefndi djöfla sem hefðu sloppið úr Helvíti. Hefði frændi minn aðeins vísað til þessara tilfella með nöfnum viðmælenda í stað þess að gefa þeim númer, hefði ég reynt að fá staðfestingu á því sem fram kom í glósum hans og framkvæmt mína eigin rannsókn, en mér tókst aðeins að komast að örfáum nöfnum. Allir staðfestu þeir það sem kom fram í glósunum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort allir viðmælendur frænda míns hafi verið jafn undrandi á spurningum hans og þeir fáu sem ég ræddi við. Það er þó fyrir bestu að skýringin á rannsókn Angells prófessors berist þeim aldrei til eyrna.

 

SAGA LEGRASSE RANNSÓKNARLÖGREGLUMANNS

Ástæðu þess að frændi minn tók frásögn Wilcox af draumum sínum og leirmyndina alvarlega var að finna í seinni hluta skýrslunnar. Angell prófessor hafði, af því er virtist, áður séð djöfullegar útlínur nafnlausu óvættarinnar, brotið heilann um híróglífurnar og jafnvel einnig heyrt hin skelfilegu hljóð, sem aðeins er hægt að skrifa sem „Cthulhu.“ Því er engin furða að hann hafi látið spurningar dynja á Wilcox unga og krafið hann um nákvæmar upplýsingar, enda þau tengsl sem hann sá í senn umhugsunarverð og ógnvekjandi.

Sautján árum fyrr, árið 1908, á árlegri ráðstefnu Ameríska Fornleifafélagsins í St. Louis, heyrði Angell prófessor af svipuðu máli. Eins og sæmdi jafn virtum og viðurkenndum fræðimanni og honum, lék hann stórt hlutverk þar og var einn þeirra fyrstu sem gestir ráðstefnunnar nálguðust með vandamál sín og leituðu til vegna sérfræðiaðstoðar í von um skýr svör og góðar úrlausnir.

Einn af þessum gestum var venjulegur miðaldra maður sem hafði ferðast alla leið frá New Orleans í leit að sértækum upplýsingum sem hvergi var að finna þar í borg og ekki leið á löngu þar til hann hafði náð að fanga athygli allra nærstaddra. Nafn mannsins var John Raymond Legrasse og starfaði sem rannsóknarlögreglumaður. Hann hafði meðferðis ástæðu þessa ferðalags síns, gróft, viðbjóðslegt og, af því er virtist, afar fornt smálíkneski, hvers uppruni var á huldu. Taka verður þó skýrt fram að Legrasse hafði ekki minnsta áhuga á fornleifafræði og var fróðleiksfýsn hans í þessum efnum algjörlega af faglegum toga. Á litlu styttuna, skurðgoðið, líkneskið eða hvað svo sem þetta var, hafði verið lagt hald nokkrum mánuðum fyrr í lögregluaðgerð í skógi vöxnu feni suður af New Orleans, þar sem lögregluna grunaði að fram færi voodoo samkoma. Svo sérstæðir og hræðilegir voru helgisiðir þessa trúarhóps að lögreglan gat ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að þar hefði uppgötvast illur og algjörlega óþekktur sértrúarsöfnuður og mun grimmilegri en nokkur af allra verstu afrísku voodoo söfnuðunum. Að undanskildum afbrigðilegum og ótrúverðugum frásögnum, sem þvingaðar voru fram hjá þeim sem handteknir voru í aðgerðinni, stóð lögreglan á gati hvað uppruna hópsins snerti. Leit hennar að heimildum eða vísbendingum sem varpað gætu ljósi á málið var því örvæntingarfull – upplýsingum sem gætu hjálpað henni að komast að því hvaðan styttan kom sem og hverjir leiðtogar safnaðarins væru.

Legrasse rannsóknarlögreglumaður var harla búinn undir þau viðbrögð sem framlag hans á ráðstefnunni fékk. Þegar hann dró upp örsmátt líkneskið vakti það umsvifalaust mikinn áhuga vísindamannanna og umkringdu þeir hann fljótlega til að fá að sjá það betur. Bæði var það framandi og bersýnilega óheyrilega gamalt. Einnig ýtti styttan undir vangaveltur um áður óuppgötvaðan og fornfálegan menningarheim, enda var þessi kynlegi hlutur ekki unninn eftir neinum þekktum stíl fyrri tíma, en þó virtust bæði aldir og árþúsund hafa sett svip sinn á dökkan, grænleitan steininn, sem var af áður óþekktri bergtegund.

Líkneskið gekk á milli vísindamannanna og hver um sig skoðaði það gaumgæfilega. Styttan var á milli sjö og átta tommur á hæð og afar vel unnin. Hún sýndi skrímsli, sem var af því ert virtist tvífætlingur, en með höfuð eins og kolkrabbi. Andlit þess var því sett gripörmum en húðin sjálf var hreisturkennd og hafði áþekka áferð og gúmmí. Skrímslið var með miklar klær á bæði fram- og afturfótum og langa, mjóa vængi á baki. Af þrútinni og feitri verunni stafaði ógnvænleg og ónáttúruleg grimmd, þar sem hún sat illúðleg á ferhyrndum steinstalli, en á hann höfðu verið ristir stafir og var merking þeirra á huldu. Vængirnir náðu niður að stallinum að aftan, sæti verunnar var fyrir miðju en langar klærnar voru sigðlaga, greip hún með afturfótum um framenda stallsins og náðu klærnar hálfa leið niður fyrir hann. Kolkrabbalagað höfuðið horfði niður, svo endar griparmanna snertu stórar krumlurnar sem héldu um hné sitjandi verunnar. Á heildina litið var styttan með afbrigðum raunveruleg og jafnvel skelfileg, þar sem uppruni hennar var ekki þekktur. Mikilfengleiki og óútreiknanlegur aldur hennar fór þó ekki framhjá neinum, en samt virtist hún ekki vera í neinum tengslum við þekkt samfélög fyrri tíma – eða nokkurs annars tíma, ef því var að skipta. Steinninn sem líkneskið var mótað úr var algjörlega einstakur og líktist engu sem jarð- eða steindafræði hafa nokkurn tíma um fjallað. Hann var sápukenndur að áferð, með gylltum eða lithverfum flekkum og rákum. Skriftin á steinstallinum var álíka framandi og þrátt fyrir að eflaust helmingur af helstu fræðimönnum landsins á því sviði hafi verið viðstaddur, gat enginn þeirra bent á nokkur tengsl við annað þekkt tungumál. Ritmálið virtist, líkt og líkneskið sjálft og steinninn sem það var unnið úr, tilheyra einhverju hrikalega afskektu og fjarlægu mannkyninu, eins og við þekkjum það. Eitthvað við það, eitthvað hræðilegt, virtist benda til fornra og óhelgra tíma sem heimur okkar og hugmyndir hafa á engan hátt komið nærri.

Þó nokkrir meðlimir fornleifafélagsins hristu höfuð og játuðu sig sigraða, var einn maður þar í hópnum sem fannst hann kannast við óvættina og ritmálið. Hann sagði hikandi frá því litla en undarlega sem hann vissi. Þar var kominn William Channing Webb heitinn, prófessor í mannfræði við Princeton háskóla en hann hafði einnig getið sér gott orð sem landkönnuður. Webb hafði farið 40 árum áður í rannsóknarleiðangur til Grænlands og Íslands í árangurslausa leit að rúnaáletrunum. Á meðan hann dvaldi norðanverðri vesturströnd Grænlands komst hann í kynni við sérstæðan ættbálk eða sértrúarsöfnuð úrkynjaðra eskimóa. Hann hryllti við trú þeirra, sem var forvitnileg djöfladýrkun og einkenndist af blóðþorsta og viðurstyggilegum athöfnum. Aðrir eskimóar vissu lítið um trúarbrögð þessi og forðuðust að ræða þau, sögðu aðeins að þau ættu rætur sínar að rekja til myrkra tíma löngu áður en heimurinn varð til. Fyrir utan nafnlausa helgisiði og mannfórnir voru nokkrir seiðir, sem gengið höfðu mann af manni í munnlegri geymd, tileinkaðir æðsta djöfli eða tornasuk. Hafði Webb prófessor gætt þess að hljóðrita af nákvæmni það sem angekok eða galdrapresturinn hafði sagt í seiðinum. Táknaði hann hvert hljóð með rómversku letri af vísindalegri samvisku. Þó var mikilvægara átrúnaðargoðið, sem þessi söfnuður dýrkaði og dansaði í kringum er norðurljósin flöktu yfir jökulbergunum hátt á himni. Samkvæmt frásögn prófessorsins var það mjög grófgerð steinmynd, sem sýndi bæði hryllilega veru og einhvers konar óræða skrift og honum sýndist vera mikil líkindi með henni og dýrslegu myndinni sem hann fékk að sjá þar í ráðstefnusalnum.

Þessar upplýsingar voru í senn áhugaverðar og spennandi í huga vísindamannanna sem hlýddu á prófessorinn en höfðu jafnvel enn meiri þýðingu í huga Legrasse rannsóknarlögreglumanns. Hann lét spurningar dynja á Webb prófessor. Legrasse hafði punktað hjá sér og skrifað niður seið er söfnuðurinn í feninu og mennirnir sem hann hafði handtekið kyrjuðu. Hann sárbændi því prófessorinn að rifja upp eins vel og hann gat það sem hann hafði hljóðritað af söng illu eskimóanna. Í kjólfarið fór fram nákvæmur samanburður og er bæði rannsóknarlögreglumaðurinn og vísindamaðurinn höfðu sannreynt, þó heilmiklar vegalengdir skildu að söfnuðina tvö, að um sama texta væri að ræða sló magnþrungna þögn á mannskapinn. Að inntaki var seiðurinn sem bæði galdraprestur eskimóanna og prestar safnaðarins í feninu nokkurn veginn með eftirfarandi hætti, en orðaskil voru sett niður eftir framburði og hrynjandi seiðsins:

„Ph’nglui mglw’nafh Cthulhu R’lyeh wgah’nagl fhtagn.“

Legrasse var þó kominn einu skrefi lengra í rannsókn sinni en Webb prófessor, þar sem nokkrir af kynblendingjunum sem hann hafði handtekið, höfðu haft eftir fyrir hann það sem eldri meðlimir safnaðarins sögðu að vísan þýddi. Merking hennar var nokkurn veginn á þessa leið:

„Í húsi sínu í R‘lyeh, dauður bíður Cthulhu og dreymir.“

Fyrst þá, eftir ítrekaðar bónir og óskir fundarmanna, sagði Legrasse rannsóknarlögreglumaður eins vel og honum var unnt frá reynslu sinni í feninu, ég get ímyndað mér að frændi minn hafi fundið sterk tengsl á milli drauma Wilcox og frásagnar Legrasse. Hún gældi við villtustu drauma goðsagna- og guðfræðinga og sýndi fram á ótrúlegt ímyndunarafl meðal blendingja og úrhraka, sem annars síst skyldi ætla að hefðu slíkt til hjá sér.

Þann 1. nóvember 1907 hafði felmtri sleginn sendiboði komið til lögreglunnar í New Orleans frá fenjasvæðum þar suður af borginni. Fólkið sem hafði gert sér bústað þar var flest frumstæðir en góðhjartaðir afkomendur Lafitte og var viti sínu fjær af hræðslu vegna óþekktrar veru sem hafði ráðist að þeim nóttina áður. Einhvers konar voodoo galdur virtist vera þar á ferð en af mun dekkri tegund en fólkið hafði áður kynnst. Eftir að hræðilegur og ótaktviss trumbusláttur hófst djúpt inni í myrkum fenjaskóginum, þangað sem enginn hætti sér að fara, höfðu börn og nokkrar konur horfið. Einnig heyrðust þaðan tryllt hróp og skelfileg öskur, hrollvekjandi kórsöngur, flöktandi djöflaeldar og sagði sendiboðinn að íbúarnir þoldu ekki meir.

Því var hópur tuttugu lögreglumanna, sem fyllti bæði tvo hestvagna og bifreið, sendur á staðinn seinna sama dag til að rannsaka málið. Dauðhræddur sendiboðinn var með í för og skyldi vera hópnum til leiðsagnar. Er þeir komu að enda vegslóða sem lá inn í fenið stigu þeir af farartækjunum og gengu með tilheyrandi skvampi og skellum þegjandi í gegnum þéttan kýprusviðarskóginn, þar sem dagsbirta nær aldrei í gegnum laufþykknið. Ljótar rætur og grimmúðlegar snörur spænsks mosa vörðuðu leið þeirra og öðru hvoru risu hlaðningar rakra steina eða rotin veggbrot sem minntu óþægilega á niðurdrepandi ábúð fensins, stemning sem hvert vanskapað tré og hver sveppavaxin eyja tóku þátt í að skapa. Loks kom lítilfjörleg þyrping smákofa í ljós og var þar þorp landtökufólksins, hlupu móðursjúkir íbúarnir út á móti hópnum sem hafði kveikt á lömpum og kyndlum. Dýpra innan úr feninu mátti greina áslátt tromma og fjarræn öskur með óreglulegu millibili, eftir að vindáttin breyttist. Rauð skíma virtist einnig ná að smjúga í gegnum fölan gróður handan við endalaus öngstræti skógarnæturinnar. Enginn af íbúunum, sem helst vildu að hópurinn yfirgæfi þá ekki, var fáanlegur til að fylgja lögreglunni nær staðnum þar sem hin óhelga trúardýrkun fór fram, svo Legrasse og félagar neyddust til að halda áfram án nokkurrar leiðsagnar.Trén voru sem ógnvekjandi hvolfgöng sem enginn hafði farið um áður.

Af svæðinu sem hópurinn var á fór illt orð, enda lítið þekkt og algjörlega ókannað af hvítum mönnum. Sögur voru sagðar af huldu vatni, sem enginn lifandi maður hafði augum borið, en þar átti stór, formlaus vera með sjálflýsandi augu að búa. Hvíslaði landtökufólkið sín á milli lýsingar af djöflum með leðurblökuvængi sem flugu úr djúpum hellum  til að tilbiðja sepaveru um miðjar nætur. Sagt var, að hún hefði komið á undan d‘Iberville, á undan La Salle, á undan indjánunum og jafnvel áður en dýr og fuglar gerðu skóginn að lendum sínum. Hún var martröðin sjálf og við að sjá hana dó maður. Hún sendi hins vegar mönnum drauma og þannig vissu þeir nægilega mikið til svo þeir héldu sig fjarri þessum hluta fensins. Að sjálfsögðu var voodoo samkoman á mörkum þess viðurstyggilega svæðis, en sú staðsetning var þó nógu slæm og kannski hafði hún ein frekar skotið landtökufólkinu skelk í bringu en hryllileg hljóðin og mannshvörfin.

Aðeins í gegnum ljóðlist eða hreina sinnisbrenglun er hægt að lýsa þeim hljóðum sem Legrasse og menn hans heyrðu er þeir óðu í svörtu feninu í áttina að rauða bjarmanum og kæfða trumbuslættinum. Menn og dýr hafa hvort um sig ákveðin einkenni í raddsviði sínu. Það er því ógnvekjandi að heyra annað þegar búist er við hinu. Dýrsleg bræði og öfgakennd orgía samtvinnuðust og náðu djöfullegum hæðum með öskrum og ýlfrum, alsæluhrópum sem skáru í gegnum myrkrið og bergmáluðu í náttklæddum skóginum, eins og rotinn stormur neðan úr versta veðravíti. Öðru hvoru dró úr óskipulögðum gólunum og það sem virtist vera æfður kór rámra radda syngi hryllilegu vísuna eða seiðinn:

„Ph’nglui mglw’nafh Cthulhu R’lyeh wgah’nagl fhtagn.“

Er hópurinn nálgaðist staðinn varð smátt og smátt lengra á milli trjánna og sáu þeir loks athöfnina sjálfa. Fjórir þeirra flúðu í ofboði, leið yfir einn og tveir hrópuðu upp fyrir sig í geðshræringu en sem betur fer drukknuðu óp þeirra í hávaðanum frá söfnuðinum. Legrasse skvetti fenjavatni framan í andlit þess er liðið hafði yfir en allir lögreglumennirnir voru skelkaðir og nærri dáleiddir af hryllingssýninni sem mætti þeim.

Í náttúrulegu rjóðri í skógarfeninu var grasi vaxin eyja, um ekra að stærð, án trjáa og þolanlega þurr. Þar dönsuðu og stukku um ólýsanlegur fjöldi af afbrigðilegum manneskjum. Hvorki Sime né Angarola gætu túlkað senuna í málverkum sínum. Klæðalausir kynblendingar voru í villtum dansi með dýrslegum geltum, ýlfrum og óhljóðum í kringum stóran, hringlaga bálköst, en í gegnum eldhafið mátti grilla í háa granít steinsúlu um átta fet að hæð. Á toppi hennar var litla, viðbjóðslega steingoðið og virtist enn smærra sökum hve hátt uppi það var. Utar var hringur tíu fórnarpalla en á þeim voru illa leikin lík þess landtökufólks er horfið hafði úr þorpinu. Inn á milli eldsins og fórnarpallanna dönsuðu tilbeiðendurnir, að mestu frá vinstri til hægri í endalausri jörfagleði.

Einn manna Legrasse, Spánverji og næmur á hið hulda, fannst hann heyra mótsöng frá einhverjum fjarlægum og óupplýstum stað dýpra innan í skóginum, sem svo fornar og hræðilegar sögur fóru af, en það má vel hafa verið aðeins ímyndun hans eða bergmál. Mann þennan, Joseph D. Galvez, hitti ég síðar og ræddi við hann en hann hafði óþægilega fjörugt ímyndunarafl. Hann gekk jafnvel svo langt að segjast hafa heyrt í þungum vængjaslætti og séð bregða fyrir skínandi augum og risastórri hvítri veru handan við trén hinum megin í rjóðrinu. Mig grunar að hann hafi heyrt of margar af þjóðsögum landtökufólksins.

Hik lögreglumannanna var reyndar nokkuð skammvinnt. Skyldan kallaði og þó kynblendingarnir væru án efa hátt í hundrað talsins treysti hópurinn á skotvopn sín og réðst ákveðinn gegn skelmislegum söfnuðinum. Í rúmar fimm mínútur ríkti alger ringulreið og hávaði. Menn voru barðir niður, skotum hleypt af og meðlimir safnaðarins reyndu að komast undan en að lokum hafði Legrasse handtekið 47 niðurlúta menn. Skipaði hann þeim að klæða sig í snatri og koma sér í tvær einfaldar raðir milli raða lögreglumanna. Fimm tilbeiðendur lágu í valnum og tveir aðrir voru alvarlega særðir, en þeir voru lagðir á börur sem búnar voru til á staðnum og bornir af félögum sínum. Legrasse fjarlægði að sjálfsögðu styttuna ofan af steinsúlunni og flutti hana sjálfur þaðan.

Eftir langa og stranga ferð úr feninu var styttan rannsökuð í aðalstöðvum lögreglunnar, en fangarnir reyndust allir vera af lágt settu, blönduðu og andlega brengluðu kyni. Flestir voru sjómenn. Hópurinn samanstóð af negrum og múlötum, að stærstum hluta frá eyjum í Karabíahafinu eða Brava-Portúgalar frá Cape Verde eyjum, sem óneitanlega setti ákveðinn voodoo-blæ á þennan einkynja söfnuð karlmanna. Ekki þurfti að spyrja margra spurninga til að komast að því, að eitthvað mun eldra og myrkara en hefðbundin negratrú ætti í hlut. Á óvart kom hve staðfastir þeir voru og héldu dauðataki í hugmyndafræði hinnar fyrirlitlegu trúar sinnar, enda fáfróðir og siðspilltir.

Þeir sögðust dýrka hina Ævafornu, sem voru uppi öldum áður en nokkur maður steig fæti á jörðu og höfðu þeir komið hingað utan úr geimnum er pláneta okkar var enn ung. Hinir Ævafornu voru horfnir nú, annað hvort farnir neðanjarðar eða ofan í hafdjúpin, en dauðir líkamar þeirra höfðu hvíslað leyndarmál sín að fyrstu mönnunum í gegnum drauma þeirra. Höfðu þessir menn myndað söfnuð sem aldrei hafði dáið út. Fangarnir tilheyrðu þessum söfnuði og þeir sögðu, að hann hefði alltaf verið til og myndi alltaf verða til, hulin sjónum annarra langt úti í eyðimörkum eða á öðrum dökkum, fáförnum stöðum þar til sá tími kæmi að æðsti presturinn, Cthulhu, myndi yfirgefa myrkt hús sitt í risavöxnu borginni R‘lyeh sem væri nú neðansjávar, rísa og ná völdum á þessari plánetu á ný. Einn dag myndi hann kalla, þegar stjörnurnar væru í réttri stöðu og leynilegur söfnuðurinn væri ávallt tilbúinn að frelsa hann.

Að meiru var ekki hægt að komast. Jafnvel pyntingar virtust ekki ná að draga fram allra helgustu leyndarmál þeirra. Maðurinn var því ekki eina skyni gædda veran á þessari plánetu, því í skjóli myrkurs heimsóttu hulduverur þá fáu sem trúðu. Þær voru reyndar ekki hinir Ævafornu. Enginn maður hafði nokkurn tíma borið þá augum. Útskorna átrúnaðargoðið sýndi þó ímynd Cthulhu, en ekki var hægt að fullyrða hvort fleiri væru til eins og hann. Enginn gat lesið áletrunina nú til dags en hvað þar stóð hafði gengið í munnmælum á milli manna. Seiðurinn var ekki helgur eða leyndur, helgustu leyndarmálin þorði enginn að mæla upphátt, þeim var aðeins hvíslað í eyra. Vísan þýddi hins vegar: „Í húsi sínu í R‘lyeh, dauður bíður Cthulhu og dreymir

Aðeins tveir fanganna voru metnir nægilega heilir á geði svo hægt væri að rétta yfir þeim og hlutu þeir báðir dauðadóm, hinir voru vistaðir á hinum mismunandi geðsjúkrahúsum. Allir neituðu þeir staðfastlega að hafa komið nálægt fórnarmorðunum og sögðu, að þau hefðu verið framin af svartvængjuðum verum, sem höfðu komið til athafnarinnar frá fornum fundarstað sínum djúpt í draugalegum fenjaskóginum. Af hinum dularfullu samverkamönnum safnaðarins fengust þó ekki nákvæmari lýsingar. Það eina sem lögreglan komst að lærði hún að mestu af gömlum mestisa að nafni Castro. Hann sagðist hafa siglt til marga framandi hafna og rætt við leiðtoga safnaðarins í fjöllum Kína, en þeir voru dauðir og lifðu þó áfram sem upprisnir náir.

Castro gamli mundi brot af hryllilegri þjóðsögu, sem var í hróplegri mótsögn við hugmyndir guðfræðinga. Samkvæmt henni virtist mannkynið og Jörðin vissulega nýleg og skammvinn. Í árþúsundir höfðu aðrar verur ríkt á plánetu okkar og byggt sér miklar borgir. Risastórir steinar á eyjum í Kyrrahafinu eru það eina sem enn stendur til minja um þær, sögðu kínversku náirnir. Verurnar dóu löngu fyrir tíma mannsins en hægt var að vekja þær aftur til lífsins, þegar stjörnurnar væru í réttri stöðu í hringrás eilífðarinnar. Þær höfðu nefnilega sjálfar komið frá stjörnunum og borið með sér ímyndir sínar.

Hinir Ævafornu voru ekki bara af holdi og blóði, sagði Castro, heldur áttu sér einnig annað form – sannaði þessi framandlega stytta ekki einmitt það? – en það var ekki efnislegt. Er stjörnurnar voru í réttri stöðu gátu verurnar ferðast á milli heima, en þegar þær væru í rangri stöðu, gátu verurnar ekki lifað. Þó þær væru ekki á lífi, þá dóu þær hins vegar ekki. Þær lágu hver í sínu steinhúsi í stórborg þeirra, R‘lyeh, verndaðar af göldrum hins mikla Cthulhu og tilbúnar að holdgerast á ný þegar sá tími kæmi. Þó þurfti utanaðkomandi kraftur að frelsa líkama þeirra. Galdrarnir sem vernduðu þær komu líka í veg fyrir að þær gátu átt frumkvæðið og því það eina sem þær gátu gert var að liggja andvaka í myrkrinu og hugsa á meðan óteljandi fjöldi ára leið hjá. Þó vissu verurnar hvað fram fór í alheiminum, því þeirra leið til tjáskipta var í gegnum hugsanaflutning. Jafnvel nú töluðu þær í grafhýsum sínum. Er mannkynið kom fram á sjónarsviðið, eftir eilífðar óreiðutíma, töluðu hinir Ævafornu til þeirra sem næmir voru meðal manna og mótuðu drauma þeirra, því aðeins þannig gat tungumál hinna Ævafornu náð til spendýra á borð við manninn.

Þá höfðu þessir fyrstu menn myndað sértrúarsöfnuðinn, hvíslaði Castro, utan um stór átrúnaðargoð sem hinir Ævafornu sýndu þeim, goð sem komið hafði verið með frá dimmum tímum á myrkum plánetum. Söfnuðurinn myndi vera starfandi þar til stjörnurnar væru aftur í réttri stöðu og þá myndu prestar leynilega safnaðarins færa hinn mikla Cthulhu úr grafhýsi sínu, svo hann gæti vakið upp þegna sína og náð aftur völdum á Jörðinni. Auðvelt yrði að vita hvenær sá tími væri runnin upp, því þá yrði mannkynið eins og hinir Ævafornu, frjálst, villt og hafið upp fyrir gott og illt. Lög og siðferði yrðu lögð til hliðar og allir myndu öskra, myrða og njóta sín í æstri jörfagleði. Hinir Ævafornu, þá nýfrelsaðir, myndu kenna mannkyninu nýjar leiðir til að öskra, myrða, njóta og gleðjast og þannig myndi heimurinn brenna í eldavíti alsælu og algers frelsis. Þar til sú stund kæmi yrði söfnuðurinn, eftir tilheyrandi leiðum, að halda minningunni á lofti um fornu aðferðirnar sem þurfti til þess og tryggja að forspáin um endurkomu hinna Ævafornu myndi rætast.

Áður fyrr höfðu útvaldir menn getað rætt við hina Ævafornu, þar sem þeir lágu í grafhýsum sínum, í gegnum drauma sína en síðan hafði eitthvað gerst. Stórborgin R‘lyeh, með steinsúlur sínar og grafhýsi, hafði sokkið í hafdjúpin sem voru svo full af frumstæðum leyndardómum að jafnvel hugsun gat ekki smogið í gegnum þau og hafði því hið draugslega samband rofnað.

Minning deyr þó aldrei og æðstu prestarnir sögðu að borgin myndi rísa á ný þegar stjörnurnar væru í réttri stöðu. Þá komu upp úr neðanjarðarhellum svartir andar jarðarinnar, skítugir og klæddir skuggum, en þeir báru með sér sögusagnir sem þeir höfðu heyrt langt undir löngu gleymdum sjávarbotnum. Castro gamli þorði ekki að tala mikið um þá. Hann hætti skyndilega frásögn sinni og sama hve þrýst var á hann fékkst hann ekki til að ræða þetta mál frekar. Um stærð hinna Ævafornu vildi hann heldur ekki tala. Castro sagði, að hann teldi að aðalsvæði safnaðarins væri fyrir miðju Arabíu eyðimerkurinnar, en um hana liggja engir þekktir slóðar eða vegir. Aðalsvæðið væri þar sem Irem, borg stólpanna, dreymir ósnert og hulin sýnum. Söfnuðurinn er ekki í neinum tengslum við evrópska nornasveiminn og er gott sem óþekktur utan meðlima sinna. Hvergi er minnst á hann í nokkurri bók, en kínversku náirnir sögðu reyndar að ákveðnar tilvísanir kæmu fram í Necronomicon sem hinn geðsjúki Arabi Abdul Alhazred skrifaði. Þeir innvígðu gætu lesið í þær, sérstaklega í þessu margumrædda vísubroti:

Ekki er dáið það sem að eilífu getur legið,
og er undarleg árþúsund líða
getur jafnvel dauðinn dauða þegið.

Legrasse var ekki lítið undrandi og uppveðraður af frásögn Castros og hafði hann árangurslaust reynt að finna sagnfræðilegar heimildir eða upplýsingar um sértrúarsöfnuðinn. Castro hafði, af því er virtist, sagt sannleikann þegar hann sagði að söfnuðurinn færi mjög leynt. Vísindamenn Tulane háskólans gátu hvorki upplýst Legrasse um söfnuðinn né styttuna og því hafði hann komið á fund helstu fræðimanna landsins á þessu sviði og heyrt þar frásögn Webb prófessors af ferð hans til Grænlands.

Þó aðeins sé lítillega minnst á þetta atvik í útgáfu félagsins á niðurstöðum samkomunnar var áhugi viðstaddra á sögu Legrasse var mikill, jafnvel enn meiri fyrir sakir tilvistar styttunnar, eins og kom skýrt fram á þeim viðbrögðum sem hann fékk í framhaldinu. Þeir sem eru vanir að fást við svindlara og falsanir hvers konar læra fljótt að hafa allan vara á sér. Legrasse lánaði Webb prófessor styttuna í skamman tíma en við fráfall hans var henni skilað aftur til rannsóknarlögreglumannsins og er hún enn í vörslu hans, en ég fékk að sjá hana þar fyrir ekki svo löngu síðan. Hún er vissulega hryllileg að sjá og ekki leikur nokkur vafi á að henni svipar mjög til leirmyndar Wilcox unga.

Ég furðaði mig ekki á því að frændi minn skyldi verða uppnuminn af frásögn myndhöggvarans. Hver veit hvaða hugsanir hafi flogið í gegnum höfuð hans er hann hlýddi á frásögn ungs, næms manns eftir að hafa heyrt sögu Legrasse og því sem hann hafði komist að um söfnuðinn. Frásögn manns sem hafði ekki bara dreymt styttuna og nákvæmar híróglífur, eins og voru á átrúnaðargoðinu sem fannst í feninu og þeim sem voru á djöflatöflunni á Grænlandi, heldur hafði einnig í draumum sínum heyrt að minnsta kosti þrjú þeirra orða sem voru í seiðnum sem bæði illu eskimóarnir og kynblendingarnir í Louisiana höfðu kyrjað. Tafarlaus rannsókn Angells prófessors var því rökrétt ákvörðun, þó ég hafi lúmskan grun um að Wilcox hafi heyrt af söfnuðinum með óbeinum hætti og skáldað því drauma sína og þannig leikið sér með þessa ráðgátu á kostnað frænda míns. Frásagnir Wilcox af draumum sínum og blaðaúrklippurnar sem frændi minn hafði safnað voru vissulega sterk sönnunargögn, en í rökföstum huga mínum og fyrir sakir hve málið var allt furðum vaxið gat ég bara komist að þeirri niðurstöðu og taldi ég hana langlíklegasta. Eftir að ég hafði rannsakað skýrsluna vandlega aftur og borið saman guðfræði- og mannfræði glósurnar sem fylgdu frásögn Legrasse af söfnuðinum, ferðaðist ég til Providence til að hitta myndhöggvarann. Var ætlun mín að láta hann heyra það fyrir að hafa farið fram með svo fólskulegum hætti gegn aldraða fræðimanninum.

Wilcox bjó enn einn í Fleur-de-Lys byggingunni við Thomas Stræti, skammarlegri eftirlíkingu af viktoríönsku 17. aldar húsi sem var byggt í Breton stíl. Að framanverðu voru gifsklæddir skrautveggir og stóð húsið mitt innan um falleg nýlenduhús á fornri hæð, en skuggar fínustu georgísku turnspíra Ameríku féllu yfir það. Ég fann hann þar sem hann sat í vinnuherbergi sínu og ályktaði samstundis að hæfileikar hans voru í raun djúpstæðir og sannir. Hann mun, að ég tel, verða einhvern tíma þekktur sem einn af hinum miklu úrkynjunarsinnum, því handbragð hans er gott og einn daginn mun hann geta endurspeglað þær martraðir og hugsýnir sem Arthur Machen vekur í prósa sínum og Clark Ashton Smith gerir sýnilegar í ljóðum og myndum sínum.

Wilcox var dökkur yfirlitum, mjósleginn og hirti lítt um útlit sitt. Hann sýndi heimsókn minni í fyrstu lítinn áhuga og spurði mig erinda án þess að standa upp úr stól sínum. Ég sagði honum hver ég væri, sem virtist fanga athygli hans, því frænda mínum hafði tekist að vekja með honum forvitni er hann lét spurningar um drauma hans dynja á honum. Þó hafði Angell prófessor aldrei útskýrt fyrir Wilcox hvers vegna hann þurfti svo ítarlegar skýringar. Ég lét honum ekki frekari lýsingar á málinu í té, en reyndi lúmskt að koma upp um Wilcox. Eftir skamma stund varð ég sannfærður um hreinskilni hans, því hann talaði um drauma sína með þeim hætti að ekki fór á milli mála að hann hafði í raun og veru dreymt þá. Bæði þeir og leifar þeirra í undirmeðvitund Wilcoxs höfðu gríðarleg áhrif á listsköpun hans og hann sýndi mér grimmilega styttu en útlínur hennar minntu mig óþægilega mikið á það sem ég vissi þá. Hann mundi ekki eftir að hafa séð þessa veru annars staðar en í leirmyndinni sem hann hafði gert í draumi, en útlínurnar höfðu formast sjálfkrafa í höndum hans. Enginn vafi lék á að þetta var risastóra veran sem hann hafði sagt frá á meðan hann var með óráði. Fljótlega kom í ljós að hann vissi ekki meira um sértrúarsöfnuðinn annað en það sem honum hafði tekist að ráða af spurningum frænda míns og ég reyndi því að leiða í ljós hvort hann gæti hafa komist að einhverri af þeirri vitneskju eftir öðrum leiðum.

Þegar hann talaði um drauma sína var mál hans undarlega ljóðrænt, sem varð til þess að ég sá berlega fyrir mér röku, tröllauknu borgina með slímugu, grænu steinunum, hverrar stærðarhlutföll, sagði hann, voru öll röng. Eins fannst mér ég heyra með ógnvekjandi eftirvæntingu hið síendurtekna hálfsálræna kall sem neðan úr jörðinni: „Cthulhu fhtagn“, „Chulhu fhtagn.“

Þessi orð voru hluti af skelfilega seiðnum sem sagði frá því hvernig Cthulhu lægi dauður í draumvöku sinni í steingrafhýsi í borginni R‘lyeh og hafði þetta mikil áhrif á mig, þrátt fyrir rökfestu mína. Ég var viss um að Wilcox hlyti að hafa heyrt af sértrúarsöfnuðinum eftir ómerkilegum leiðum en hafi fljótlega gleymt því enda las hann mikið af furðubókmenntum og þess háttar skáldskap. Síðar hefur það, einfaldlega fyrir sakir mikilfengleika síns, með einhverjum hætti brotist fram í gegnum undirmeðvitund hans í draumum, leirmyndinni og þeirri hryllilegu styttu sem var þarna fyrir framan mig. Þannig hafi hann ómeðvitað blekkt frænda minn. Ungi maðurinn var af þeirri sort sem mér gæti aldrei líkað við, í senn illviljaður og örlítið dónalegur en mér er ljúft að viðurkenna bæði hreinskilni hans og snilligáfu. Við kvöddumst í mestu vinsemd og óska ég honum alls hins besta er hæfileikar hans kunna upp á að bjóða.

Sértrúarsöfnuðurinn vakti hins vegar enn áhuga minn og um tíma lét ég mig dreyma um frægð og frama fyrir sakir rannsókna mínar og uppgötvana á uppruna hans og tengslum. Ég heimsótti New Orleans, ræddi við Legrasse og aðra meðlimi lögregluhópsins. Einnig fékk ég að skoða litlu, hræðilegu styttuna og yfirheyrði jafnvel þá kynblendinga sem enn voru á lífi. Því miður hafði Castro gamli fallið frá nokkrum árum áður. Ég fékk því að heyra frá fyrstu hendi það sem frændi minn hafði skrifað í skýrsluna af nákvæmni og var hún staðfest í einu og öllu. Varð ég enn áhugasamari fyrir vikið, því mér fannst ég vera á slóð mjög raunverulegra, leynilegra og fornra trúarbragða og ef ég myndi uppgötva þau tryggði það mér sess sem virts mannfræðings. Ég nálgaðist þó málið áfram af hreinni rökhyggju og ég vildi óska þess ég gerði það enn. Ég afskrifaði af ólýsanlegri þvermóðsku tilviljuna sem tengdi saman draumlýsingarnar og hinar mismunandi blaðaúrklippur Angells prófessors.

Mig tók þó að gruna, og tel mig vita nú með vissu, að dauða frænda míns hafi ekki borið að með náttúrulegum hætti. Hann hné niður á þröngu stræti í brattri brekku á leið sinni frá fornri höfninni, þar sem kynblendingar frá öðrum löndum eru margmennir, eftir að hafa rekist utan í sjómannsnegra. Ég hafði ekki gleymt af hve blönduðu kyni meðlimir safnaðarins í Louisiana voru og tengslum þeirra við hafið, ég hefði sannarlega ekki orðið hissa að heyra af fleiri leynilegum athöfnum, reglum og siðum þeirra. Reyndar höfðu Legrasse og menn hans verið látnir í friði. Gætu rannsóknir frænda míns eftir hann kynntist myndhöggvaranum og draumum hans hafa náð eyrum illviljaðra manna? Ég held að Angell prófessor hafi dáið vegna þess hann vissi of mikið. Kannski var líklegt að hann myndi komast að meiru og of miklu. Hvort ég muni hljóta sömu örlög verður tíminn að leiða í ljós, því ég hef komist að of miklu nú þegar.

 

MARTRÖÐ Á HAFI ÚTI

Ef himnafaðirinn myndi veita mér eina bón, þá væri hún að þær upplýsingar sem ég hef af tilviljun komist yfir væru þurrkaðar úr minni mínu – upplýsingar sem ég fann í blaðagrein sem lá sakleysislega í hillu einni. Að öllu jöfnu hefði ég aldrei í mínu daglega lífi rekist á umrædda grein, því hana var að finna í gömlu tölublaði af áströlskum miðli, Sidney Bulletin, frá því 18. apríl 1925. Greinin hafði jafnvel farið framhjá fyrirtækinu sem frændi minn hafði fengið til að leita uppi blaðagreinar er hugsanlega tengdust rannsókn hans.

Á þeim tíma hafði ég að mestu gefið upp á bátinn að rannsaka frekar það sem Angell prófessor kallaði: „Söfnuður Cthulhu.“ Ég var í heimsókn hjá vini mínum, fræðimanni í Paterson, New Jersey og starfaði hann sem safnvörður þar í borg og hafði á sér gott orð sem steindafræðingur. Dag einn var ég að skoða bergtegundir sem ekki voru til sýnis í safninu sjálfu, heldur voru sýnishornin geymd í bakherbergi. Þá sá ég glitta í annarlega mynd í einu dagblaðanna sem lögð voru undir steinbrotin í hillunum. Það var Sidney Bulletin, eins og ég hef áður nefnt, en félagi minn hafði sambönd í fjarlægustu heimshlutum. Myndin, sem var brotin upp í umbroti blaðsins, sýndi ófrýnilega styttu, næstum nákvæma eftirmynd þeirrar er Legrasse hafði fundið í feninu.

Ég færði sýnishornin af blaðinu í flýti, las greinina frá orði til orðs en því miður var hún ekki löng. Umfjöllunarefni hennar hafði hins vegar geigvænlega þýðingu fyrir rannsókn mína, en ég hafði gott sem hætt henni á þessum tímapunkti. Varlega reif ég greinina úr blaðinu, enda vildi ég bregðast strax við þessum fundi. Greinin var svohljóðandi:

Bátur fannst á reki – Ráðgáta um borð

VIGILANT kemur til hafnar með vélarvana, vel vopnum búna snekkju frá Nýja-Sjálandi. Einn komst lífs af. Maður fannst látinn um borð. Áköf orrusta og dauðsfall á hafi úti. Sjómaðurinn sem komst af neitar að ræða þessa undarlegu lífsreynslu í þaula. Furðulegt steingoð fannst í fórum hans. Rannsókn hafin.

Flutningaskip Morrison fyrirtækisins, Vigilant, á leið frá Valparaiso, lagðist nú í morgun að bryggju í Darling höfn, með illa farna og vélarvana en vel vopnum búna snekkju, Alert frá Dunedin, Nýja-Sjálandi. Síðast sást til snekkjunnar þann 12. apríl á S. 34°21‘, W. 152°17‘. Um borð var sá eini sem komst lífs af ásamt líki af öðrum manni.

Vigilant fór frá Valparaiso þann 25. mars en sökum veðurofsa og erfiðs sjólags bar skipið langt af leið og var því mun sunnar en áætlun gerði ráð fyrir. Þann 12. apríl komu skipsverjar auga á bát á reki. Í fyrstu virtist hann yfirgefinn en er þeir fóru um borð uppgötvuðu þeir að einn hafði komist af en fundu annan mann látinn. Talið er að hann látist um viku áður. Sá sem lifði af var vart með réttu ráði og hélt dauðataki um hryllilegt steingoð hvers uppruni er ókunnur. Goðið er um fet á hæð og gátu hvorki forsvarsmenn náttúrufræðideildar Sidney háskóla, náttúrufræðafélagsins né safnsins við College-stræti borið kennsl á það. Maðurinn segist hafa fundið steingoðið í káetu snekkjunnar á útskornu smáaltari sömu gerðar og goðið sjálft.

Er maðurinn hafði náð að jafna sig sagði hann frá því sem hafði gerst, sérkennilegu sjóráni og manndrápum. Nafn hans er Gustaf Johansen, Norðmaður og vel gefinn, en hann hafði verið 2. stýrimaður á tvímastra skútunni Emmu frá Auckland. Hún hafði lagt frá Callao þann 20. febrúar með tólf manna áhöfn. Skútuna hafði borið langt suður af leið vegna óveðursins mikla 20. mars síðastliðinn og seinkað af þeim sökum. Er skipið var statt á S. 49°51‘, W.128°34, varð snekkjan Alert á leið þeirra, sem þá var mönnuð einkennilegri og grimmúðlegri áhöfn Suðurhafseyjabúa og kynblendinga. Skipuðu þeir skútunni að snúa aftur, en Collins, skipstjóri á Emmu, neitaði. Hóf þá áhöfnin skothríð, algjörlega viðvörunarlaust, með undarlegri látúnsfallbyssu en hún var hluti af útbúnaði snekkjunnar. Johansen segir áhöfn Emmu hafa streist á móti og eftir að skútan hafði verið hæfð undir yfirborði sjávar, tókst þeim samt að stýra henni upp að hlið snekkjunnar. Þar stökk áhöfn Emmu um borð í Alert og hófst þá mikil orrusta á milli áhafnanna. Neyddust þeir til að drepa alla ruddalegu mennina í áhöfn Alert, en mennirnir á Emmu voru fleiri en andstæðingar þeirra sem voru sérstaklega andstyggilegir og ákafir, þó lítið færi fyrir bardagahæfni þeirra.

Þrír úr áhöfn Emmu féllu í bardaganum, þeirra á meðal Collins skipstjóri og Green stýrimaður. Því voru þeir sem eftir lifðu undir stjórn Johansens, 2. stýrimanns, en hann tók að sér að stýra snekkjunni sem þeir höfði komið höndum yfir. Þeir héldu áfram þangað sem þeim hafði verið bannað að sigla, til að kanna hvaða ástæða lægi þar að baki. Svo virðist sem þeir hafi náð landi næsta dag á smárri eyju, en ekki er vitað til þess að nokkur slík sé á þessu hafsvæði. Af einhverjum orsökum létust sex þeirra þar en Johansen hefur haft uppi einkennilega fá orð um þennan hluta sögunnar og segir aðeins að mennirnir hafi fallið ofan í djúpt gljúfur. Nokkru síðar virtust þeir félagi hans snúa aftur um borð í snekkjuna og hafa reynt að sigla á brott, en óveðrið 2. apríl lék þá illa. Frá og með þeim degi og fram til þess 12., man hann lítið og segist ekki reka minni til þess hvenær félagi hans, William Briden, lést. Ekki hefur tekist að skera úr um hvað dró manninn til dauða en líklegt er talið að taugaspenna eða vosbúð hafi orsakað andlát hans. Í fréttaskeytum frá Dunedin kemur fram, að Alert hafi verið þekkt verslunarskip á milli eynna þar en haft slæmt orð á sér meðal sjómanna. Undarlegur hópur kynblendinga átti snekkjuna og vöktu tíðar samkomur þeirra og næturheimsóknir í skóg þar skammt frá ekki litla athygli. Alert hafði lagt frá bryggju í snarhasti skömmu eftir óveðrið og jarðskjálftana 1. mars síðastliðinn. Fréttaritari okkar í Auckland segir að áhöfn Emmu hafi verið vel liðin og er Johansen lýst sem traustum og skynsömum manni. Rannsóknarnefnd sjóslysa mun yfirheyra hann vegna málsins og hefst rannsókn á morgun, en þar verður með öllum ráðum reynt að krefja Johansen frekari skýringa en hann hefur hingað til viljað gefa.

 

Með greininni fylgdi mynd af ógnvænlega steingoðinu en að öðru leyti var þetta allt og sumt. Um huga minn fóru þúsund hugsanir á sama augnabliki. Þarna var að finna nýjan fjársjóð gagna um Cthulhu söfnuðinn og sönnun þess að hann hafi átt hagsmuna að gæta jafnt á landi sem legi. Hvaða ástæður lágu að baki því að skipa áhöfn Emmu að snúa þaðan sem kynblendingarnir sigldu með steingoð sitt? Hver var þessi óþekkta eyja þar sem sex úr áhöfn Emmu höfðu látið lífið en Johansen forðaðist svo að ræða? Hvað höfðu yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar leitt í ljós og hvað var vitað um fyrirlitlega söfnuðinn í Dunedin? En umfram allt, hvaða djúpstæðu og yfirnáttúrulegu tengsl voru á milli dagsetninganna og gáfu hinum ólíku atburðum, sem frændi minn hafði skráð vandlega niður, illt og nú óvéfengjanlegt gildi?

Þann 1. mars – sem samkvæmt daglínunni væri 28. febrúar – hafði bæði geysað óveður og orðið jarðskjálfti. Alert hafði lagt frá höfn í Dunedin í flýti, eins og verið væri að hlýða kalli drambsfulls yfirmanns. Hinum megin á hnettinum sóttu undarlegir draumar á skáld og listamenn, þar sem þeir sáu framandi og tröllaukna borg. Hafði þá ungur myndhöggvari mótað í svefni hinn hræðilega Cthulhu. Áhöfn Emmu lagði að landi á óþekktri eyju 23. mars þar sem sex þeirra létu lífið. Einmitt þá urðu draumar mannanna skýrari og martraðarkenndari, þegar óttinn við eftirför risavaxins skrímslis fyllti brjóst þeirra. Arkitekt einn missti vitið og myndhöggvarinn var skyndilega með óráði. Hvað með óveðrið þann 2. apríl? Daginn þegar öllum hætti að dreyma borgina myrku og Wilcox komst aftur til sjálfs sín, heill heilsu úr heljargreipum undarlegs sótthita? Hvað með allt þetta – og það sem Castro gamli hafði ýjað að um þá sokknu Ævafornu, sem komið höfðu frá öðrum plánetum og tilvonandi stjórnartíð þeirra, trúfasta söfnuðinn og stjórn hinna Ævafornu á draumum? Var ég á slóð utanaðkomandi ógnvætta sem var mönnum um of að bera augum? Ef svo var, þá hlutu þeir fyrst og fremst að vera hryllilegur hugarburður, því eitthvað hafði gerst 2. apríl sem hafði komið í veg fyrir og stöðvað þá skelfilegu ægikrafta er hafið höfðu umsátur sitt um sálir manna.

Ég pakkaði niður í flýti og skipulagði ferðalag mitt strax það kvöld. Ég kvaddi gestgjafa minn og tók lest til San Francisco og innan við mánuði síðar var ég staddur í Dunedin. Þar fann ég hins vegar lítið af upplýsingum um ankannalega meðlimi safnaðarins er dvalið höfðu á gömlum sjóarakrám. Ofgnótt var af ólánsmönnum þarna við sjávarsíðuna og tekur vart að nefna, en þó var stuttlega minnst á eina ferð þessa hóps kynblendinga. Þá hafði heyrst til trumbusláttar í fjarska og rauð glæra sést í fjarlægum hlíðum. Í Auckland komst ég að því að Johansen hafði snúið frá yfirheyrslum rannsóknarnefndarinnar í Sidney en þá hafði ljóst hár hans brugðið litum og orðið hvítt. Yfirheyrslurnar voru víst aðeins til málamynda og án niðurstöðu. Hann hafði selt hús sitt við West Stræti og siglt ásamt eiginkonu sinni til síns heima í Osló. Hann sagði vinum sínum ekki meira um þessa erfiðu reynslu annað en það sem komið hafði fram í yfirheyrslunum og það eina sem ég hafði upp úr viðtölum við þá var heimilisfang hans í Noregi.

Eftir það fór ég til Sidney og ræddi við sjómenn og starfsfólk rannsóknarnefndarinnar, en á því var lítið að græða. Ég skoðaði Alert, en snekkjan hafði verið seld og var nú í opinberri notkun við Circular Quay í Sidney Cove, en það hafði lítið upp á sig. Sitjandi steingoðið, með kolkrabbahöfuð sitt, vængi úr snákaskinni og híróglífurflúraða steinstallinn, var varðveitt á safninu við Hyde Park og ég rannsakaði hana vel og lengi. Hún bar vitni um meinlegt, einstakt handbragð en var um leið algjör ráðgáta, afskaplega forn og úr ójarðnesku, furðulegu efni, þess sama og litla styttan sem Legrasse hafði fundið. Safnvörðurinn sagði mér að steindafræðingar væru gáttaðir á þessu og fullyrtu að hvergi á jörðu væri þessa bergtegund að finna. Mér varð þá hugsað til þess sem Castro gamli hafði sagt Legrasse um hina Ævafornu og um mig fór hrollur: „Þeir komu frá stjörnunum og höfðu ímyndir sínar með sér.“

Þetta gjörbylti hugmyndum mínum og hafði meiri áhrif á mig en nokkurn tíma fyrr. Ég ákvað því heimsækja Johansen stýrimann í Osló. Ég sigldi til Lundúna, skipti þar um skip og hélt sem leið lá til norsku höfuðborgarinnar. Þar var lagt að bryggju haustdag einn í skugga Egefjalls. Ég komst að raun um, að Johansen átti heima í gamla bænum, þess er Haraldur harðráði hafði nefnt Osló og hafði haldið því nafni í gegnum aldirnar þrátt fyrir að borgin sjálf bæri á sínum tíma nafnið Kristjanía. Ég tók leigubíl þessa stuttu leið og er ég knúði dyra á nettri, gamalli byggingu með gifsklæddri framhlið sló hjartað ört í brjósti mér. Til dyra kom kona, raunamædd á svip og svartklædd. Mér til mikilla vonbrigða tjáði hún mér, á fremur lélegri ensku, að Gustaf Johansen væri látinn.

Skömmu eftir heimkomuna hafði hann fallið frá, sagði eiginkona hans. Atburðirnir er gerðust á hafi úti árið 1925 höfðu leikið hann grátt. Hann hafði aldrei sagt henni meira en það sem hann hafði upplýst aðra um. Þó skildi hann eftir sig langt handrit, sem hann sagði eiginkonu sinni að væri um tæknileg mál. Það var skrifað á ensku, af því er virtist til að koma í veg fyrir að hún gæti lesið það. Johansen hafði á göngu sinni um þröngt stræti fengið blaðabunka í höfuðið, er fallið hafði út um glugga á efstu hæð. Tveir sjómenn af asískum uppruna aðstoðuðu hann á fætur en hann var látinn áður en sjúkrabíll kom á staðinn. Læknar fundu enga sérstaka ástæðu fyrir andláti hans og töldu að veiku hjarta og sífellt versnandi líkamsástandi væri um að kenna. Ég fann þá hvernig myrk skelfing greip um hjarta mitt og ég veit, að hún mun aldrei losa tak sitt á því fyrr en ég hef fundið mér stað á kistubotni, fyrir sakir slyss eða annarra orsaka. Ég sannfærði ekkjuna um að samband mitt við hinn látna væri með þeim hætti, að hún ætti að leyfa mér að líta á handrit hans. Ég fékk það í hendur og hóf lestur þess um borð í skipinu á leið aftur til Lundúna.

Frásögnin var einföld, vaðið var úr einu í annað – tilraun einfalds sjómanns að skrifa upp dagbók nokkru eftir að þeir atburðir sem fjallað var um voru liðnir – og hann reyndi eftir fremsta megni að segja frá hverjum degi fyrir sig í þessari ægilegu sjóferð. Ég mun ekki gera tilraun til að skrifa upp orðrétt óskýra og ofhlaðna frásögnina, en get þó sagt að inntak hennar var meira en nóg, svo ég setti bómul í eyrun því ég vildi ekki heyra rjátl sjávarins við kinnunga skipsins.

Johansen vissi ekki allt, Guði sé lof, þó hann hafi bæði séð veruna og borgina. Ég mun hins vegar aldrei sofna vært á ný er ég hugsa til alls þess hryllilega er bíður óþreytandi handan tíma og rúms, til allra þeirra óhelgu óvætta frá fornum plánetum og dreyma í djúpum hafsins, kenndir og dýrkaðir af viðbjóðslegum sértrúarsöfnuðum sem eru áfjáðir í að sleppa þeim lausum í heiminum hvenær sem jarðskjálftar kunna að lyfta risavaxinni steinborg þeirra úr djúpunum.

Ferð Johansens hófst eins og fram hafði komið við yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar. Emma, þá fullfermd, fór frá Auckland þann 20. febrúar og hafði fengið storminn, sem jarðskjálftinn er lyft hafði óvættunum sem stjórnað gátu draumum manna, hafði kallað fram, af fullu afli í fangið. Þegar áhöfnin hafði aftur náð fullri stjórn á skipinu komust þeir loks eitthvað áleiðis en þann 22. mars réðist Alert að þeim með þeim afleiðingum að Emma sökk og má greina eftirsjá í skrifum stýrimannsins er hann segir frá þeim atburðum. Um dökkleita og djöfullega áhöfn Alert fjallar hann af merkjanlegum viðbjóði. Svo virðist vera sem meðlimir hennar hafi verið af einstaklega viðurstyggilegri sort og hafi drápin á þeim hreinlega virst sem heilög skylda. Koma þó einnig fram vel ígrundaðar hugleiðingar Johansens vegna ásakana um hrottaskap áhafnar Emmu sem komið höfðu fram í yfirheyrslum rannsóknarnefndarinnar. Þá, knúnir áfram af forvitni og á snekkjunni sem áhafnarmeðlimir höfðu lagt hald á í kjölfar bardagans undir stjórn Johansens, komu þeir auga á stóra steinsúlu sem reis upp úr hafinu og sigldu þangað, að S. 57°9‘, W.123°43‘, en þar var af því er virtist eyja. Ströndin var hlaðin leðju, slími og þangivöxnum, tröllauknum steinhleðslum, sem geta ekki hafa verið annað en áþreifanlegar efnisleifar mestu ógnar jarðar – náborgin hræðilega R‘lyeh, sem var byggð fyrir óteljandi árþúsundum, utan sögusviðs okkar, af stóru, fyrirlitlegu verunum sem hingað komu frá myrkum plánetum. Þar sem Cthulhu lá ásamt her sínum, falinn í grænum, slímugum grafhýsum og sendi út, eftir öll þessi ár, hugsanir sem sáðu óttafræjum í draumum hinna næmu og skipaði þeim trúuðu að fara í pílagrímsför til að frelsa hann og endurfæða. Johansen grunaði ekkert af þessu, en eins og Guð veit, þá átti hann eftir að kynnast því.

Ég reikna með að aðeins einn fjallstindur súlum prýddu borgarinnar, þar sem Cthulhu hafði verið grafinn, hafi risið upp úr djúpinu. Er ég leiði hugann að öllu því er kann að dvelja í myrkum hafdjúpunum og hyggur á illt, langar mig einna helst til að svipta mig lífi. Johansen og menn hans voru dolfallnir yfir ægifegurð þessarar blautu Babýlónborgar fornra hálfguða og hljóta að hafa getið sér til um, að hún væri ekki af þessum heimi eða af nokkrum eðlilegum heimi. Átakanlega sýnilegt er í hverri línu frásagnar skelfingu lostins stýrimannsins að þeir dáðust að ótrúlegri stærð grænu steinblokkanna, svimandi hæð tröllvöxnu, útskornu steinsúlanna, störðu furðu lostnir á himinháar stytturnar og leirmyndirnar, sem höfðu sömu undarlegu mynd og þeir höfðu fundið á smáaltarinu í káetunni um borð í Alert.

Án þess að þekkja til kenninga fútúrisma, komst Johansen engu að síður býsna nærri því að lýsa borginni með slíkum hætti. Í stað þess að segja frá hverju húsi eða hverri byggingu fyrir sig, þá fjallaði hann frekar um almennt yfirbragð hennar, sérstæða ósamhverfu hennar og yfirborð steina – yfirborð sem voru of víðfem til að tilheyra nokkru sem stað sinn ætti hér á jörðu, og voru þeir vanhelgaðir með hryllilegum myndum og híróglífum. Ég dreg sérstaklega fram umfjöllun hans um ósamhverfu borgarinnar, því hún vísar til þess sem Wilcox hafði sagt mér um skelfilega drauma sína. Hann sagði að rúmfræðin á staðnum sem hann heimsótti í draumum væri öll röng, óevíklíðsk og eymdi hrikalega af hvelum og víddum sem væru okkur mannfólkinu ókunn. Nú hafði ómenntaður einstaklingur fundið fyrir sömu tilfinningu þegar hann starði í raun og veru á hinn hræðilega stað.

Johansen og menn hans tóku land í brattri leðjufjöru á þessari risavöxnu Akrópolis og máttu hafa sig alla við að klifra upp á stórar, slímugar steinblokkir. Hugsanlega var það stigi ætlaður öðrum en mönnum. Jafnvel himnanna sól virtist þeim framandleg er þeir litu upp í gegnum óskýra eiturgufu, sem steig upp frá þessari sjóblautu brenglun. Illúðgi og spenna sat fyrir þeim við hvert horn tilhöggvins steins, sem við fyrstu sýn virtust ávöl en nánari athugun leiddi í ljós að væri íhvefld.

Eitthvað í líkingu við ótta náði smátt og smátt tökum á áhöfninni, jafnvel áður en nokkuð annað en steinar, slím og þang hafði komið í ljós. Hver einn og einasti hefði líklega flúið staðinn ef ekki hefði verið fyrir þær sakir að slíkt hefði verið ávísun á að viðkomandi hefði orðið sér til skammar innan hópsins. Það var því aðeins með hálfum hug sem þeir leituðu, að minnsta kosti að nafninu til, að dýrgripum til að hafa á brott með sér.

Hinn portúgalski Rodriquez klifraði alla leið upp að steinsúlunni og kallaði til hinna hvað fyrir augu hans bar. Hinir fylgdu í humátt á eftir honum og litu forvitnir á risavaxnar dyr með upphleyptri mynd af kolkrabbahöfði, form sem ég þekki fullvel nú. Johansen líkti þeim við stórar hlöðudyr, en allir voru þeir sammála að dyr hlytu þetta vera sökum skreytta dyratrésins, þröskuldsins og dyrastafsins sem umlukti þær. Þeir voru hins vegar ekki á eitt ásáttir um hvort þær lægju flatar, eins og hleri, eða hölluðu, líkt og kjallaradyr.Wilcox hafði einmitt komist að orði, að rúmfræði staðarins væri öll röng. Ekki var hægt að vera viss um að hafið og jörðin væru lárétt, eins virtust hlutföll milli alls sem þarna var ótrúlega mismunandi.

Briden ýtti á steininn á nokkrum stöðum án þess að nokkuð gerðist. Þá þreifaði Donovan varlega í kringum dyrnar og ýtti á hvern punkt. Hann klifraði hægt meðfram ljótu steinskrautlistunum, ef hægt var að kalla það klifur þar sem dyrnar voru ekki alveg láréttar. Á meðan veltu hinir vöngum yfir hvernig nokkrar dyr í heiminum gátu verið svo miklar. Þá tók dyratréð efst að síga, hægt og rólega, þeir sáu að það hvíldi á einhvers konar fjaðurvog.

Donovan renndi sér, ýtti sér niður eða meðfram dyrastafnum til félaga sinna og allir fylgdust þeir með þegar risastórar, útskornar dyrnar sigu með sérkennilegum hætti. Í þessari afskræmdu fantasíuborg færðust dyrnar eftir afbrigðilegri braut, sem brutu allar reglur efnis og hlutfalla.

Rifan sem myndaðist var full af myrkri, sem var gott sem áþreifanlegt. Sá drungi var vissulega jákvæður eiginleiki, því það byrgði mönnum sýn á innveggi, sem annars hefðu komið í ljós. Myrkrið braust reyndar út, eins og reykur úr árþúsundalangri innilokun. Sýnilega dró úr birtu, þegar það læddist upp á visinn og þrútinn himininn, sló títt himnukenndum vængjum sínum. Lyktin sem steig úr nýlega opnuðu djúpinu var óbærileg og skyndilega fannst hinum árvaka Hawkins hann heyra meinlegt, vellandi hljóð að neðan. Allir lögðu við hlustir og voru enn árvökulir þegar Það birtist þunglamalegt í dyrunum. Fálmandi tróð það hlaupkenndum, risavöxnum líkama sínum í gegnum gættina, út í mengað andrúmsloft þessarar eitruðu borgar hugsýkinnar.

Hendur vesaling Johansen skulfu er hann ritaði um þessa atburði. Af þeim sex sem aldrei náðu aftur til skipsins telur hann að tveir þeirra hafi hreinlega dáið úr hræðslu á þessu bölvaða augnabliki. Verunni verður ekki lýst – engin orð fá náð utan um þau djúpstæðu hræðsluöskur og tímalausu geðveiki, þá kyngimögnuðu mótsögn alls efnis, orku og alheimsreglu. Fjall hrærði sig og færðist áfram. Guð minn! Er það furða að hinum megin á hnettinum hafi arkitekt misst vitið og aumingja Wilcox talað í óráði á því augnabliki, er veran flutti hugsanir sínar til þeirra? Veran á styttunum; græna, slímuga afkvæmi stjarnanna; hafði vaknað til lífsins til að endurheimta það sem var eitt sinn hennar. Stjörnurnar voru í réttri stöðu. Það sem aldagamla sértrúarsöfnuðinum hafði mistekist hafði hópi saklausra sjómanna tekist af algerri slysni. Eftir tuttugu milljón ár var hinn mikli Cthulhu loks laus úr prísund sinni og réðst fram af áfergju.

Veran tók þrjá af mönnunum í krumlur sínar áður en nokkur náði að bregðast við. Megi sálir þeirra hvíla í friði, ef nokkurn er að finna í alheiminum. Þetta voru þeir Donovan, Guerrea og Angstrom. Parker hljóp um leið og hinir þrír börðust yfir grænleitan steininn í átt að bátnum. Johansen sver að hann hafi horfið inn á milli bygginga og ómögulegrar hornastöðu þeirra, horn sem voru samhverf en litu úr fyrir að vera gleið. Aðeins Briden og Johansen náðu til bátsins og ýttu í flýti úr vör, til að komast sem fyrst um borð í Alert. Óvætturin þrammaði á eftir þeim yfir slímuga steinanna, klöngraðist niður að sjónum þar sem hún hikaði um stund.

Þrátt fyrir að öll áhöfnin hafi farið frá borði, hafði eldur ekki verið kæfður í vélum skipsins. Þeir fóru því ófáar ferðir á milli vélarýmis og stýrishússins og ekki tók langan tíma að koma snekkjunni af stað. Mitt í martraðarlandslagi ólýsanlegs hryllings skar Alert hægt lífshættulegar öldurnar. Í steinhlaðinni fjörunni, sem líktist engri strönd þessa heims, stóð risavaxin veran sem komið hafði frá annarri plánetu, slefandi og þvaðrandi, líkt og Pólýfemus er hann bölvaði Ódyseifi fyrir að flýja á skipi sínu. Þá steig Cthulhu, hugrakkari en kýklópinn, út í sjóinn og hóf að elta skipið. Um leið mynduðust fjallháar öldur. Briden leit aftur til óvættarinnar og missti við það vitið. Með reglulegu millibili hló hann skrækum hlátri í káetunni þar til dauðinn aflétti hugarvíli hans. Á meðan því fór fram var Johansen með óráði.

Johansen hafði þó ekki gefist upp. Hann sá fljótlega að óvættin myndi ná Alert áður en snekkjan kæmist á fullan skrið. Hann ákvað því að taka mikla áhættu. Johansen setti vélina í hæsta gangstig, hljóp upp í stýrishús og sneri skipinu við. Í skrokk Alert söng og hvein. Er gufan knúði skipið sífellt hraðar ók hugrakki Norðmaðurinn snekkjunni til móts við óvættina, sem reis yfir öldutoppana eins og stefni á djöfullegri galleiðu. Hræðilegt kolkrabbahöfuðið með iðandi griparma var nærri bugspjóti sterkbyggðar snekkjunnar og sigldi Johansen engu að síður áfram. Þá var sem blaðra springi, slímugur viðbjóður, eins og er borri er ristur upp, féll á skipið, nálykt úr þúsund opnum gröfum og hljóð sem handritshöfundur gat með engu móti komið í orð. Eitt augnablik var Alert umvafin viðurstyggilegu, röku, grænu skýi sem síðan safnaðist saman í eitraða þoku fyrir aftan skipið. Guð á himnum, þar virtist nafnlausa óvættin með einhverjum hætti vera endurbyggja aftur sitt hryllilega, upprunalega form. Með hverri sekúndi sem leið og Alert komst á meira skrið dró í sundur með verunni og skipinu.

Þetta var allt og sumt. Johansen velti fyrir sér styttunni í káetunni og reyndi að útbúa mat fyrir sig og hugsjúkan vin sinn. Hann gerði engar tilraunir til að stýra gangi skipsins eftir ævintýralegan flóttann, því það var sem eitthvað hafi verið fjarlægt úr sálu hans. Þá gerði óveður 2. apríl og um leið lagðist þykkt ský á meðvitund hans. Johansen fannst hann snúast um úthöf óendanleikans, vera í svimandi ferð um alheiminn fastur aftan í halastjörnu, falla úr djúpinu til tunglsins og aftur ofan í djúpið. Ferðin öll innblásin lífi af hlátrasköllum óskýru, fáranlegu eldri guðanna og grænna, illkvitnislegra smádjöfla með leðurblökuvængi frá Tartarus.

Í þeim draumi barst björgun, Vigilante, svo rannsóknarnefnd sjóslysa, stræti Dunedin og langt ferðalag aftur heim í gamla húsið við Egefjall. Hann gat engum sagt frá þessari upplifun sinni, því hann vissi að hann yrði álitinn geðveikur. Hann skrifaði því sögu sína áður en hann lést, en eiginkonu hans hafði ekki runnið í grun um hvers kyns var. Dauðinn var honum frelsun, því aðeins þannig tókst honum að losna undan oki minninganna.

Svo hljóðaði handritið sem ég las en nú hef ég komið því fyrir í kassanum við hlið leirmyndarinnar og skýrslu Angells prófessors. Með öllu því mun ég leggja mína eigin skýrslu – til sönnunar á geðheilbrigði mínu, þar sem mér hefur tekist að raða saman brotum sem ég vona að engum öðrum takist að púsla saman. Ég hef séð allt það hryllilega er alheimurinn kann að geyma. Jafnvel heiður vorsins himinn eða sætur blómaangan sumarsins munu hér eftirleiðis vera sem eitur í beinum mínum. Ég á ekki von á því að lifa lengi. Rétt eins og fór fyrir frænda mínum, rétt eins og fór fyrir vesalings Johansen, svo mun einnig fara fyrir mér. Ég veit of mikið og söfnuðurinn er enn að störfum.

Cthulhu lifir einnig enn, reikna ég með. Hann er ennþá í steingjánni sem skýlt hefur honum síðan sólin var ung. Bölvaða borgin hans er sokkin aftur í djúpin, því Vigilant sigldi yfir þann stað er hún átti að hafa verið eftir óveðrið í apríl. Sendiherrar hans hér á jörðu syngja enn og dansa honum til heiðurs í kringum steinsúlur krýndar skurðgoðum á fáförnum stöðum. Hann hlýtur að hafa orðið fastur í kolsvörtu hyldýpi sínu er borgin sökk, því annars væri heimurinn á vonarvöl, mannkynið orðið sturlað af nærveru hans. Hver veit hvernig þetta mun allt enda? Það sem hefur risið getur sokkið og það sem hefur sokkið getur risið. Andstyggðin bíður og dreymir í djúpinu á meðan borgir manna rotna. Sá tími mun koma – en ég ætla ekki og get ekki hugsað til þess. Bæn mín er sú, ef ég lifi ekki þessi skýrsluskrif, að skiptastjórar mínir hafi varfærni að leiðarljósi og tryggi að skýrsluna beri aldrei fyrir augu nokkurs manns.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to Kall Cthulhu í íslenskri þýðingu

Skildu eftir svar

Efst upp ↑