Leikjarýni

Birt þann 2. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Crysis 3 (2013)

Eins og nafnið gefur til kynna þá er þetta þriðji leikurinn í Crysis leikjaseríunni. Crysis 3 er framleiddur af Crytek og nýtir Cryengine leikjavélina. Crysis hefur verið þekkt nafn í tölvuleikjaheiminum og þá sérstaklega fyrir að vera með gríðarlega flotta grafík. Þegar fyrsti leikurinn var gefinn út voru sárafáir sem gátu keyrt leikinn með öllum grafík möguleikum í botni og varð leikurinn þvi fljótt alræmdur fyrir að krefjast of mikils af vélbúnaðinum, en sá leikur kom eingöngu út á PC-tölvur. Crysis 2 var hinsvegar mótaður fyrir leikjatölvurnar (XBOX 360 og PS3) en kom einnig út fyrir PC-tölvur. Þrátt fyrir að Crysis 2 hafi boðið upp á betri grafík í PC-tölvum þá var það ekkert í líkingu við fyrsta Crysis. Fékk Crysis 2 því blandaða dóma hvað það varðar.

Í Crysis 3 snéru þeir aftur í rætur sínar og þrátt fyrir að hafa gefið leikinn út á leikjatölvurnar, þá voru möguleikarnir fyrir PC-tölvurnar orðnir öflugri. Cevat Yerli (forstjóri Crytek) sagði að PC-útgáfan af leiknum myndi fræðilega „bræða niður tölvuna“ miðað við hvað grafíkvélin þarf öflugan vélbúnað.

Crysis 3

 

Sagan

Crysis 3 byrjar 24 árum eftir atburðina í Crysis 2, eða árið 2047. Aðalpersónan, Prophet, er bjargað af gömlum félaga sínum úr klóm ofurfyrirtækisins CELL sem hefur nánast tekið yfir jörðina. CELL nýtir sér ákveðna tækni frá geimverunum CEPH (þær sem gerðu innrás í fyrri leiknum) til að framleiða orku sér að kostnaðarlausu. Með því að geta framleitt orku ókeypis, gátu þeir undirboðið alla aðra orkusala og því tekið yfir markaðnum, og þegar það var komið var orkuverðið hækkað upp úr öllu valdi. Núna eru flestir í vinnubúðum CELL til að borga upp orkuskuldir. Margar uppreisnir hafa verið gerðar gegn CELL en málaliðar fyrirtækisins eru vel þjálfaðir og skipulagðir. Spilarinn tekur þátt í uppreisn gegn CELL og fær því að upplifa söguna mjög vel. Hægt er að finna dagbækur og upptökur í gegnum borðin í leiknum til að fá dýpri skilning á sögu leiksins ef spilarinn hefur áhuga.

 

Spilun

Crysis 3

Leikurinn er fyrstu persónu skotleikur og stjórntækin eru æðisleg. Prophet hefur svokallaða „Nanó-brynju“ (e. Nanosuit) sem gefur honum ómennska hæfileika og krafta. Nanó-brynjan gerir honum kleift að þola meiri skaða með því að virkja aflsvið (e. forcefield), hoppa hærra, hlaupa hraðar og gera sig ósýnilegan. Ekki er hægt að nota marga hæfileika í einu eða til lengri tíma, því kraftur Nanó-brynjunnar er ekki óendanlegur og þarf því að stoppa við og við og endurhlaða kraftinn. Stjórntæki leiksins eru þægileg og fær spilarinn á tilfinninguna að það sem á að framkvæma er framkvæmt. Að hoppa yfir gjána, lenda á annari hæð í húsinu hinu megin, hlaupa og síðan renna sér eftir gólfinu inn í næsta herbergi meðan maður skýtur úr byssunni á þann sem er að fela sig þar? Ekki málið, allt þetta er hægt og svo margt meira til.

 

Vopnabúrið

Magn vopna í leiknum er gríðarlegt og það sem er enn betra er að hægt er að breyta hverju einasta vopni. Hvort sem það er skammbyssa, vélbyssa, hríðskotariffill eða haglabyssa er hægt að breyta vopninu. Ertu með hríðskotariffil en óvinurinn er í mikilli fjarlægð? Smelltu þá öflugum kíki á riffilinn, settu handfang á hann til að hann verði stöðugri og prófaðu að setja hljóðdeyfi á. Allar þessar breytingar er hægt að gera á auðveldan máta í leiknum með þvi að ýta á einn takka, þá birtist mjög vel útsett valmynd þar sem spilarinn getur valið aukahluti á vopnið sitt eftir aðstæðum. Margar mismunandi tegundir eru af aukahlutum og gerir þetta bardaga mjög skemmtilega, því sama vopnið getur verið notað í mörgum aðstæðum. Ber að nefna eitt uppáhalds vopn þess sem þetta ritar, en það er boginn. Skrýtið að bogi skuli koma inn í leik sem gerist í framtíðinni með geimverum og kraftabúningum, en þetta er enginn venjulegur bogi. Hann notast við kraft Nanó-brynjunnar og skilar það sér í mjög öflugum örvum. Nokkrar mismunandi örvar eru til staðar og hver hefur sitt hlutverk.

Crysis 3

 

Grafík

Leikurinn býður upp á gríðarlega flotta grafík og stundum var erfitt að ímynda sér að verið væri að teikna rammana í rauntíma. Leikurinn sýndi bæði að hann gæti verið grimmur og drungalegur, og litríkur og spennandi. Borðin fóru með spilarann í gegnum söguna á meistaralegan hátt og alls ekki mikið um endurtekningar, eins og stundum verður vart við í tölvuleikjum. Persónur sem spilarinn sér oft á skjánum, eins og t.d. vinurinn Psycho, eru mjög raunverulegar. Hver einasta hrukka, skegghár og ör sést á andlitinu þegar verið er að tala við spilarann. Örsjaldan sáust gallar og var það þá þegar tveir hlutir sköruðust saman og fóru inn í hvorn annan.

 

Fjölspilun

Crysis 3 bíður upp á hraða og keppnisharða fjölspilun. 16 spilarar (12 á leikjatölvunum) geta spilað í einu og þvi óhætt að segja að mikið sé í gangi í hverjum leik. Með því að spila leiki (og ganga vel) fær spilarinn reynslustig og því fleiri reynslustig sem hann fær þá fær hann aðgang að fleiri vopnum og hæfileikum. Til að nálgast aukahluti á vopn þarf að drepa ákveðinn fjölda af óvinum með því vopni, en þegar búið er að fá aukahlutinn er hægt að breyta vopninu í bardaga hvenær sem er.

 

Gagnrýnin

Góður leikur með þétta og mikla sögu í einspilun, ágæt talsetning og sagan er áhugaverð. Það tók um 10 tíma að klára einspilunina. Grafíkin fékk mann stundum til að gapa af undrun, enda ótrúlega flott. Óvinir vel gerðir og nokkuð klárir. Endingartími er góður ef fjölspilun er spiluð, annars er sagan þannig að maður er ekkert að fara að spila leikinn aftur. Fjölspilunin er svakalega hröð og er voðalega misjafnt hvernig gengur í henni. Mæli með að kíkja á Crysis 3 ef þú hefur spilað og líkað við fyrri leiki.

 

Höfundur er  Daníel Páll Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑