Birt þann 21. mars, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Þúsund mílna ferðin hefst með sýn til framtíðar
Helgi Freyr Hafþórsson skrifar:
Hraðar tæknibreytingar og aukið aðgengi almennings að tækni er að umbreyta hugtakinu sem margir kalla fjórða valdið. Formlega er ríkisvaldinu skipt upp í löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald. Þegar talað erum um fjórða valdið er verið að tala um fjölmiðla og þeirra áhrif á samfélagið. Þetta vald er hægt og bítandi að færast til fjöldans í stað þess að vera í höndum fárra aðila sem eiga fjölmiðlana.
Fjölmiðill er sífellt að þróast eftir því sem tæknin verður betri og aðgengilegri. Því aðgengilegri sem fjölmiðill verður fyrir fólk þá verða samfélög sífellt háðari honum. Margir byrja daginn á að kveikja á útvarpi, lesa blöðin eða fara á Veraldarvefinn til að lesa nýjustu fréttirnar. Alveg sama á hvaða hátt málefnið er litið þá snerta fjölmiðlar líf okkar upp á hvern einasta dag. Fjölmiðlar fylgja þeim tíðaranda sem endurspeglar samfélagið hverju sinni. Fjölmiðlanefnd hefur útskýrt hugtakið fjölmiðill er sem skilgreind sem stofnun, fyrirtæki, lögaðila, sem safnar, metur og setur reglulega fram upplýsingar í því skyni að dreifa þeim til umtalsverðs fjölda fólks á tilteknu svæði.
Það fréttist fljótast, sem í frásögn er ljótast
Fjölmiðlar eru margbreytilegt fyrirbæri sem er frekar erfitt að afmarka sem eitt og skýrt hugtak. Margir fullyrða að eitt mikilvægasta vopn almennings í nútíma lýðræðissamfélögum séu einmitt fjölmiðlar. Almenningur gerir miklar kröfur um að allir fjölmiðlar sýni heiðarleika í sinni vinnu með að segja satt og rétt frá atburðum sem gerast í samfélaginu. Sumir fjölmiðlar hafa gerst sekir um að segja ekki alltaf satt og rétt frá. Þar sem sannleiksgildið bak við fréttina er ekki mikið og lítil sem engin rannsóknarvinna lögð í þær heimildir sem eiga að styðja málstað fréttarinnar. Stundum er aðeins ein hlið í atburði skoðuð í máli sem fjallað er í fréttum en það eru alltaf fleiri en ein hlið á hverju máli. Því þarf að varpa ljósi á sem flestar hliðar til að lýsa upp réttri mynd af atburði. Þess vegna er mikilvægt að túlkun fjölmiðla á efni sé unnin á heiðarlegan og vitrænan hátt.
‘‘[…] Hann [blaðamaðurinn] má aldrei tala þvert um huga sjer, og eigi láta hræða sig frá sannfæringu sinni, því að hennar má hann aldrei ganga á bak, þótt það gildi líf hans og mannorð, fé og fjör. Hann má því eigi láta það aftra sér, þótt alþýðuhylli hans liggi við, því sannleikurinn er meira verður; hann má eigi óttast það, þótt hann sjái, að sannleiksást hans gjöri vini hans að óvinum hans, og eigi óttast óvild manna, því að sannleikurinn er meira verður; hann má eigi þegja yfir sannleikanum, eða gjöra móti betri vitund til að geðjast öðrum, hvort sem þeir eru háir eða lágir, því sannleikurinn er meira verður.‘‘
– Jón Ólafsson – Skrifað í Baldur 3. árgang árið 1870.
Það verður alltaf að sýna ábyrgð, heiðarleika og segja satt og rétt frá. Þrátt fyrir að miðlarnir séu að opnast meira fyrir almenningi þá verður fólk að taka ábyrgð á skrifum sínum. Hver og einn fjölmiðill er ábyrgur fyrir því efni sem hann birtir. Það á einnig við um fólk sem skrifar skoðanir sínar á Veraldarvefnum. Margir byggja upp persónuleg tengsl við sinn miðil og treystir honum. Fjölmiðlar geta átt stórann þátt í að mynda okkar skoðun og hvernig við sjáum samfélagið í kringum okkur. gefa annað sjónarhorn á raunveruleikanum sem kannski er ekki alltaf sýnilegt. Þetta verkfæri þarf að meðhöndla með mikilli virðingu og nákvæmni. Þetta verkfæri getur bæði skapað og eyðilagt mannleg gildi.
Betur sjá augu en auga
Í okkar samfélagi þá eru fjölmiðlar endalaust að stækka, möguleikarnir til að nálgast upplýsingar eru alltaf að verða fleiri. Allt gerist á nokkrum sekúndum og er þessi þróun að opna fyrir mikla möguleika á aukinni hnattvæðingu. Eftir því sem samskiptanetið verður öflugra og stærra þá virðist eins og heimurinn minnki fyrir vikið. Aukin tækniþróun og samskiptaleiðir eru ekki bara að gera fjölmiðla valdameiri, heldur er almenningur að öðlast meira vald. Valdið er ekki lengur í höndum þeirra sem stjórna fjölmiðlunum, nú getur almenningur notfært sér þetta vald líka.
Fréttastofur eru því ekki lengur einu aðilarnir sem dreifir upplýsingum til fjöldans. Í dag eru margir einstaklingar með sínar eigin heimasíður, þar sem þeir miðla sínum skoðunum eða upplýsingum til lesenda sinna. Áhrif þeirra getur haft töluverð áhrif á hópa og einstaklinga í samfélaginu. Fjölmiðlar hafa áhrif á samfélagið og samfélagið hefur áhrif á fjölmiðla.
Því er mikilvægt að hafa í huga hvernig hver og einn fjölmiðill fjallar um málefni. Fjölmiðlar hafa það vald að geta dæmt einstakling án dóms og laga með umfjöllun sinni, skapað glæpamann án þess að glæpur hafi í raun verið framinn. Talibanar hafa meðal annars bannað sjónvörp, ljósmyndir og tölvur og kalla þessi tæki verkfæri djöfulsins. Þrátt fyrir það nota þeir fjölmiðla til þess að beina athygli heimsins að Afganistan og miðla sínum málstað til fjöldans.
Fjölmiðill tekur þátt í að skapa og mynda félagslegar skoðanir, sem hefur áhrif á hugsanir, skoðanir og lífsvenjur.
Að lifa er að hugsa
Í grófasta skilningi þá flokkast leikjatölvur og tölvuleikir sem fjölmiðill, sem safnar, metur og setur reglulega fram upplýsingar til umtalsverðs fjölda fólks á Veraldarvefnum. Tölvuleikir fullnægja afþreyingarhvötinni, tengja saman milljónir manna og mynda sterk tengsl milli notenda og framleiðenda. Tölvur og tölvuleikir er svo sannarlega með afþreyinguna á hreinu, líkt og sjónvarps-og útvarpsþættir. Mesta þróunin er að helstu leikjavélar í dag eru tengdar við Veraldarvefinn, þannig eru spilarar eru tengdir í gegnum leikinn og leikjavélina. Mjög svipað fyrirkomulag er hjá leikjaframleiðendum og notendum og fyrir útvarp og hlustendur. Þegar útvarpsþáttur hleypir hlustanda að myndast tengsl milli þess sem miðlar efninu og neytandans. Samskiptin hjá þeim sem spilar leik og þess sem býr til leikinn getur stunum orðið að svo miklu meiru. Tölvuleikjaframleiðendur hafa með þessum hætti hlustað á neytendur og þannig breytt eða bætt næsta leik eða leikjavél.
Tölvuleikir og hefðbundin borðspil eiga margt sameiginlegt. Bæði búa til vissan vettvang með skilyrðum sem þátttakandi þarf að fara eftir. Allur skilningur og upplifun kemur frá þeim sem tekur þátt í spilinu. Stundum er talað um að útvarp ýti undir ímyndunarafl og sköpunargáfur. Tölvuleikir gera slíkt hið sama og svo mun meira. Allt það sem gerist í leiknum eða spilinu kemur frá þeim sem er að taka þátt. Tölvuleikir skapa aðstæður fyrir þátttakendann sem krefst þess að framkvæma verkefni og leysa þrautir. Í upphafi var þessi upplifun frekar lokuð, þar sem flestir tölvuleikir voru hannaðir fyrir einn spilara. En í dag þá eru til dæmis 500,000 einstaklingar með aðgang á íslenska leiknum Eve Online. Þetta er enginn smá fjöldi af fólki sem á í daglegum samskiptum við hvort annað í gegnum tölvuleik. Oft eru það eitthvað í kringum 50.000 manns sem eru að spila leikinn á sama tíma.
Skjáskot úr EVE Online
Upphaf þekkingar er að uppgötva eitthvað sem við skiljum ekki
Tölvuleikir og leikjavélar eru mjög sérstakur miðill, þar sem miðpunkturinn er að spila tölvuleikinn. Það er frekar erfitt að setja tölvuleiki í sama flokk og aðra miðla, því þeir takmarka þann eiginleika að miðla efni frá sér. Þess vegna er mikilvægt að skoða breytileikann í staðinn fyrir að beina athyglinni að takmörkuninni. Af hverju ættu tölvuleikir að koma efni sínu frá sér á sama hátt og aðrir miðlar? Það er einmitt spurningin sem þarf að spyrja. Þótt tölvuleikir fylgja ekki sömu formúlu og flestir miðlar þá þarf það ekkert að vera slæmur hlutur. Líkt og sjónvarp og útvarp þá er það í eðli tölvuleikja að skemmta fólki. Eftir því sem tæknin fór að verða betri þá urðu tölvuleikir betri, söguþræðir fóru að skipta meira máli og leikirnir fóru að tengja saman milljónir manna. Þátttakendur skella sér í hlutverk hermanns, pípara, seiðkonu eða álfs og framkvæma hlut sem vanalega eru bundnir við ímyndunaraflið eitt. Tölvuleikir eru afþreying, sköpunarverk ímyndunaraflsins sem losar huga okkar úr hlekkjum raunveruleikans. Eins og bækur hafa gert í fjöldamörg ár nema í stað þess að vera með bók í hönd er fjarstýring. Tölvuleikir og leikjavélar sem miðill er partur af framtíðinni sem á mjög auðvelt með að aðlagast tækniframförum.
Forsíðumynd: Wikimedia Commons (A girl playing Pac Man).
Höfundur er Helgi Freyr Hafþórsson,
nemi í fjölmiðlafræði.