Leikjarýni

Birt þann 10. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: FIFA 13

FIFA fótboltaleikjaserían er löngu bún að næla sér í þann gæðastimpil sem flesta leikjaútgefendur dreymir um, auk þess sem FIFA leikjasamfélagið er orðið ótrúlega öflugt. Líkt og margir aðrir íþróttaleikir reynir FIFA að bjóða upp á eins raunverulega íþróttaupplifun og hægt er. Við hjá Nörd Norðursins gáfum fyrri leiknum, FIFA 12, 8,8 í lokaeinkunn, og þá er það spurningin hvort nýi leikurinn nær að toppa þann eldri eða ekki.


Raunverulegri spilun

Það er áberandi munur hvernig leikmenn hreyfa sig og meðhöndla boltann í FIFA 13. Boltinn er mun sjálfstæðari en í FIFA 12, þar sem hann átti það til að fylgja leikmanninum einum of vel, en í FIFA 13 þarf spilarinn að fylgja boltanum betur eftir til að halda honum. Hegðun fótboltans í FIFA 13 er mun raunverulegri og skemmtilegri en í FIFA 12 og blæs nýju lífi í leikinn.

Einnig er búið að bæta hreyfingu og hegðun liðsmanna verulega. Hreyfingarnar eru mun mýkri og eðlilegri en áður og hegðun þeirra mun raunverulegri.

Einnig er búið að bæta hreyfingu og hegðun liðsmanna verulega. Hreyfingarnar eru mun mýkri og eðlilegri en áður og hegðun þeirra mun raunverulegri. Það koma þó af og til upp kjánleg atvik sem minnir á að enn vantar töluvert upp á raunveruleikann; t.d. framkvæma tveir eða fleiri leikmenn stundum nákvæmlega sömu hreyfingu þegar boltinn fer útaf vellinum eða þegar þeir fagna marki. Einnig hefur markmaðurinn stundum hlaupið á eftir boltanum eins og brjálæðingur þó boltinn sé löngu farinn út af vellinum. Síðast en ekki síst koma af og til upp klaufalegar fellingar, eða tæklingar, sem minna helst á trúða í sirkus þar sem leikmenn falla ofan á hvorn annan. En þar sem leikurinn heldur sig vel á mottunni og er yfir höfuð raunverulegur, fá þessi fáu atvik mann bara til að hlægja og gera leikjaupplifunina aðeins skrautlegri. Þetta eru samt sem áður þættir sem komandi FIFA leikir þurfa að lagfæra.

Þar sem að FIFA flokkast sem fótbolta hermir, og spilarar leiksins vilja spila raunverulegan fótbolta, að þá skiptir raunverulegri spilun miklu máli. FIFA 12 spilarar munu finna fyrir breytingum sem eru lang flestar til hins betra.

Byggður á þekktri formúlu

FIFA 13 býður upp á svipaða hluti og áður; uppfærð lið, sömu stjórntakka, sömu taktík og mjög svipaða valmöguleika. Það er augljóst að FIFA 13 byggir á eldri FIFA formúlu sem FIFA spilarar geta hoppað beint í án mikillar fyrirhafnar. FIFA 13 spilarar eiga ekki eftir að finna fyrir gífurlega miklum breytingum og fátt nýtt sem kemur á óvart.

FIFA 13 býður einnig upp á FIFA Ultimate Team, þar sem spilarinn getur byggt upp fótboltalið með því að skipta, selja og kaupa leikmenn. Career Mode er einnig á sínum stað þar sem spilarinn getur stjórnað sínu uppáhalds fótboltaliði eða spilað sem leikmaður í því.

Spilað á netinu

Ég hef mjög gaman að því að spila við andstæðinga á netinu, sama hvort það er vina- eða keppnisleikur. Netspilun leiksins er hreint út sagt frábær í flesta staði og fellur í takt við aðrar breytingar frá FIFA 12. Það eru ekki margar breytingar, en þær breytingar sem eru gerðar eru í flestum tilfellum til hins betra.

Netspilun leiksins er hreint út sagt frábær í flesta staði og fellur í takt við aðrar breytingar frá FIFA 12.

Helsti ókosturinn við netspilun FIFA 13, og FIFA 13 í heild sinni, er að aukin áhersla hefur verið lögð á nettengingu. Til dæmis hef ég lent þrisvar í því að geta ekki spilað FIFA Ultimate Team þar sem netsamband við EA netþjónana hefur rofnað, þó spilað sé á móti tölvunni og í raun óþarfi að vera tengdur netinu. Á fyrstu dögunum lenti ég einnig tvisvar eða þrisvar í því að leikurinn eða Xbox 360 tölvan mín fraus, en sem betur fer hef ég ekki lent oftar í því.

Þegar spilarinn ætlar að skella sér í einn stuttan leik á netinu er ótrúlega þægilegt að fá sjálfkrafa upp valmynd þar sem hægt er að stilla hvernig andstæðingi hann er að leitast eftir. T.d. er hægt að velja hversu veik eða sterk lið viðkomandi vill keppa við og hvort það eigi sjálkrafa að loka á alla þá sem eru duglegir að hætta í miðjum leikjum (DNF).

Það er eitt að lesa um breytingarnar milli leikja og annað að sjá þær. Ég ákvað því að taka upp einn vinnáttuleik í FIFA 13 svo þið getið séð breytingarnar með ykkar eigin augum, en í leiknum spila ég sem Holland á móti Barcelona.

 

Holland mætir Barcelona (sýningarleikur)

 

Á heildina litið

Á heildina litið er FIFA 13 skildueign fyrir FIFA spilara. Fyrir utan að fá allar nýjustu uppfærslurnar á fótboltaliðum og spilurum, þá býður FIFA 13 upp á ótrúlega góða og skemmtilega spilun sem er mun nákvæmari og raunverulegri en áður. Breytingin milli FIFA leikja virðist sífellt verða minni, en af hverju að breyta því sem virka vel? Ég mæli sérstaklega með netspiluninni í FIFA sem getur verið ótrúlega krefjandi og skemmtileg. FIFA 13 á eftir að halda manni vel uppteknum næstu mánuði – eða þar til FIFA 14 kemur út!

Helstu ókostir leiksins eru nauðsynlegar nettengingar við EA vefþjónana. Einnig getur verið frekar svekkjandi að borga 10.000 kr. eða meira fyrir leik sem breytist lítið milli ára, og virðist oft um uppfærslur að ræða frekar en nýjan leikjatitil. En fyrir FIFA spilara og aðra fótboltaleikjaunnendur er FIFA 13 klárlega málið! FIFA 13 hlýtur svipaða lokaeinkunn og FIFA 12 hjá okkur þar sem við vonuðumst eftir enn fleiri breytingum og uppfærslum, en samt sem áður er um frábæran leik að ræða og er FIFA 13 næsta náttúrulega skref og þróun leikjaseríunnar.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
FJÖLSPILUN
ENDING
9,0
8,5
9,0
8,5
8,5

SAMTALS

8,7

 

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑