Gang of Frogs er þriðju persónu samvinnu-skotleikur (co-op) með taktísku spilatvisti. Allt að fjórir geta spilað leikinn saman þar sem hver spilari stjórnar frosk sem er málaliði og hlýðir skipunum kapteins Hanks í einu og öllu. Leikurinn blandar saman ólíkum leikjaflokkum með áhugaverðum hætti þar sem má finna samblöndum sem einkennist af roguelite, stokkabyggingarspili (deckbuilding) og þriðju persónu skotleik sem gerist í sæberpönk heimi á 18. öld. Þar þurfa froskarnir að eyða skrímslum, uppfæra sig og setja saman nýtt spilakombó í hverri leikjalotu.



Íslenska leikjafyrirtækið ASKA Studios þróar Gang of Frogs sem er jafnframt fyrsti leikur fyrirtæksins. Fyrsta kynningarmyndband leiksins birtist á YouTube-síðu fyrirtæksins þann 31. október 2024 og nokkrum mánuðum síðar, eða þann 23. maí 2025, birtist sýnishorn úr alfa-útgáfu leiksins. Hægt var að prófa Gang of Frogs á EVE Fanfest 2025. Á TikTok-síðu Gang of Frogs hefur leiknum verið líkt við Helldivers – nema með froskum 🐸
Ekki er búið að gefa út útgáfudag en leikurinn er væntanlegur í snemmbúnum aðgangi (early access) samkvæmt leikjasíðu Gang of Frogs á Steam, sem þýðir að leikurinn verður ekki alveg fullkláraður við útgáfu.
