Fable seinkað til 2026
Hlutverkaleiknum Fable hefur verið seinkað til ársins 2026. Þetta eru klárlega ekki góðar fréttir fyrir þá sem voru að vonast eftir að geta spilað leikinn síðar á árinu. En vonandi verður þessi seinkun til að við fáum enn betri leik á næsta ári.
Þessi frétt kom fram í viðtali við Craig Duncan yfirmann Xbox Game Studios við Official Xbox Podcast.
„Svo, ég vil bara byrja á því að segja að ég er mjög spenntur, mjög spenntur fyrir framvindunni, mjög spenntur fyrir því hvar Playground eru,“ segir Duncan um nýja Fable-leikinn. „Við tilkynntum áður að Fable myndi koma út árið 2025, en við ætlum í raun að gefa Fable meiri tíma og hann mun nú koma út árið 2026. Þó að ég viti að þetta eru kannski ekki fréttirnar sem fólk vill heyra, vil ég fullvissa alla um að þetta verður algjörlega þess virði að bíða eftir. Og ég hef einfaldlega óbifanlega trú á Playground-teyminu.
„Ef þú hugsar um sögu þeirra og arfleifð í Forza Horizon, síðustu tveir leikirnir voru lofsamaðir af gagnrýnendum… Verðlaunaðir, fallegir, geggjuð spilun. Og það sem þeir eru að færa Fable sem leikjaþáttaröð – hugsaðu bara um sjónræna upplifunina sem þú býst við frá Playground Games, plús ótrúlega spilun, breskan húmor, útgáfu Playground af Albion, innblásna af því sem hefur komið áður í seríunni, en með þeirra nálgun,“ heldur Duncan áfram.
„Og hreint út sagt, þetta verður fegursta útgáfan af Albion sem þú hefur nokkurn tímann séð. Ég er því virkilega spenntur fyrir áætlununum og framtíðinni og ég vil að samfélagið skilji að við tökum þessar ákvarðanir með hagsmuni leikjanna, teyma okkar og að lokum leikjasamfélagsins í huga. Það leiðir alltaf til betri leikja – eða besta leiksins fyrir samfélagið.“
Hægt er að sjá hérna viðtalið við hann í myndbandinu fyrir neðan.
Þetta verður fyrsti aðal Fable leikurinn sem verður ekki gerður af Lionhead Studios sem bjuggu til Fable 1-3 leikina, önnur stúdió komu að öðrum smærri leikjum í seríunni.
Breska fyrirtækið Playground Games sem hafa hingað til verið þekktastir fyrir Forza Horizon kappaksturs leikina sem hafa notið talsverða vinsælda á Xbox leikjavélunum og PC. Nýi Fable leikurinn keyrir enimmit á ForzaTech grafíkvél þeirra, sem verður spennandi að sjá hvernig það skilar sér í vonandi stærri heim Albion að kanna og spila í.
Þetta eru svekkjandi fréttir fyrir þá sem hafa haft gaman af Fable leikjunum, en á jákvæðu nótunum þá fáum við að sjá nýlegt myndefni úr leiknum, og vonandi verður meira sýnt á næstu mánuðum og fram að útgáfu leiksins á næsta ári.
Heimild: Official Xbox Podcast