Greinar

Birt þann 7. janúar, 2025 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bestu tölvuleikir ársins 2024

Tölvuleikjasérfræðingar Nörd Norðursins fóru saman yfir tölvuleikjaárið 2024 til að ræða þá leiki sem stóðu upp úr og hvaða leikur verðskuldar titilinn besti leikur ársins 2024 að mati Nörd Norðursins. Titilinn hlýtur sá leikur sem þykir hafa skarað fram úr á árinu sem er nýliðið. Yfir tuttugu tölvuleikjatitlar komu til greina að mati dómnefndar en einhugur ríkti meðal hópsins um leik ársins og var valið frekar augljóst þegar upp var staðið.

Leikur ársins 2024 að mati Nörd Norðursins er platform-leikurinn Astro Bot eftir Team Asobi.

Leikur ársins 2024 að mati Nörd Norðursins er platform-leikurinn Astro Bot eftir Team Asobi. Astro Bot uppskar fullt hús stiga, eða fimm stjörnur af fimm mögulegum í leikjarýni Nörd Norðursins. Leikurinn er litríkur og fjölbreyttur og býður upp á stórskemmtilega upplifun og spilun. Í leiknum er lögð áhersla á einfalda skemmtun sem flestir ættu að hafa gaman af og útfærslan er hreint út sagt frábær. Allt smellur mjög vel saman í Astro Bot – spilun, stjórnun, borðahönnun, tónlist og upplifunin í heild sinni.

Þó Astro Bot hafi átt hug okkar og hjörtu voru fleiri framúrskarandi leikir sem voru gefnir út á árinu og viljum við hjá Nörd Norðursins vekja sérstaka athygli á nokkrum þeirra.


Metaphor: ReFantazio

Unnur Sól

Metaphor: ReFantazio er nýr og frumlegur hlutverkaleikur frá Atlus, sem þekktir eru fyrir Persona- og Shin Megami Tensei-seríurnar. Leikurinn blandar saman ævintýralegu fantasíu umhverfi og áherslu á sögudrifna persónusköpun með heillandi nýju kerfi. Spilarar stíga inn í stóran og dularfullan heim þar sem hver ákvörðun hefur áhrif á framgang sögunnar og tengsl við aðrar persónur.

Spilarar stíga inn í stóran og dularfullan heim þar sem hver ákvörðun hefur áhrif á framgang sögunnar og tengsl við aðrar persónur.

Leikurinn býður upp á djúpt og marglaga bardagakerfi þar sem samspil taktískra ákvarðana og hæfileika persóna skapar spennandi áskoranir. Sjónræna hönnunin er litrík og stílhrein, með sérstökum áherslum á smáatriði sem skilar leikjaheiminum lifandi til spilarans. Tónlistin, samin af hinum virta Shoji Meguro, setur stemninguna og dregur enn frekar fram dramatíkina og epísku þættina í sögunni.

Metaphor: ReFantazio er einstakt verk sem höfðar sérstaklega til aðdáenda hlutverkaleikja með áherslu á persónusköpun, fallegan leikjaheim og spennandi bardaga. Þetta er leikur sem skilur eftir sig varanleg áhrif á þá sem spila hann og markar nýjan kafla í hlutverkaleikjum frá Atlus.


Like a Dragon: Infinite Wealth

Steinar Logi

Einlægni, lífsgleði og óbilandi bjartsýni Ichiban gerir hann að góðri aðalsöguhetju þó hann geti verið nokkuð auðtrúa af og til.

Yakuza: Like a Dragon sem kom út árið 2020 hleypti nýju blóði í Yakuza-leikina og í staðinn fyrir sams konar sögur þar sem hinn alvarlegi Kiryu lenti alltaf í miðjunni á Yakuza deilum þá höfum við Ichiban Kasuga sem er eins nálægt andstæðu Kiryu og hægt er. Einlægni, lífsgleði og óbilandi bjartsýni Ichiban gerir hann að góðri aðalsöguhetju þó hann geti verið nokkuð auðtrúa af og til. Infinite Wealth byggir á grunni upprunalega leiksins og það er mun betra flæði í honum bæði sögulega séð og leikjalega því að maður finnur ekki eins mikið fyrir „grindinu“ þrátt fyrir stærð leiksins. Það eru margir smáleikir innan leiksins eins og vanalega í þessum leikjum en þeir eru allir mjög vel hannaðir og slípaðir til.


Warhammer 40.000: Space Marine 2

Daníel Páll

Grafík, umhverfi og saga leiksins er stórbrotin og fangar myrka og dystópíska framtíðarsýn Warhammer 40k heimsins.

Hraður og spennandi skotleikur sem nær að fanga anda Warhammer 40k. Space Marine 2, framleiddur af Saber Interactive, er beint framhald hins vinsæla skotleiks Space Marine frá 2011. Í leiknum fer spilari með hlutverk Demetrian Titus, sem eftir 200 ára útlegð snýr aftur til sinnar fyrri herdeildar til að berjast á móti öflum sem ógna stöðugleika keisaraveldisins. Hinir miskunarlausu Tyranids eru að ráðast á plánetur undir vernd keisarans og herdeildir Chaos eru með undirförlar áætlanir til að koma sínum hræðilegu áformum af stað. Spilunin er kraftmikil og sveiflast mikið á milli grimmra nærbardaga og spennandi skotbardaga. Grafík, umhverfi og saga leiksins er stórbrotin og fangar myrka og dystópíska framtíðarsýn Warhammer 40k heimsins. Space Marine 2 býður bæði upp á einspilun með spennandi og grípandi sögu, og líka fjölspilun þar sem bæði er hægt að vinna saman gegn sameiginlegum óvinum eða berjast við aðra spilara.


Dragon’s Dogma II

Daníel Rósinkrans

Eftir meira en áratug fáum við að heimsækja þá fantasíu veröld sem Dragon’s Dogma hefur upp á að bjóða í samnefndu framhaldi. Heimurinn er töluvert stærri og opnari en áður og bíður leikurinn upp á nýjan kynþátt (Beastrens) sem setur sterkan svip á sögu leiksins. Spilarar fara með hlutverk Arisen sem er hinn útvaldi og er hlutverk hans að koma á jafnvægi í heiminum með aðstoð Peða (Pawns) sem eru stýrð af gervigreind leiksins með mjög líflegum máta.

Að þessu sinni geta spilarar valið nýjar bardagaleiðir sem og eldri hlutverk (vocations) sem þekktust úr fyrri leiknum. Allt frá riddara sem beitir ólíkum bardaga kúnstum yfir í galdramann(-konu) sem lætur loftsteina rigna yfir vígvöllinn.

Dragon’s Dogma 2 er klárlega með betri hlutverkaleikjum ársins 2024 og er vert að skoða fyrir spilendur sem vilja upplifa eitthvað nýtt og frábrugðið í þessum geira.

Dragon’s Dogma 2 er klárlega með betri hlutverkaleikjum ársins 2024 og er vert að skoða fyrir spilendur sem vilja upplifa eitthvað nýtt og frábrugðið í þessum geira. Ekki er nauðsynlegt að hafa spilað fyrsta leikinn í seríunni. Capcom gera honum góð skil og hafa einnig verið duglegir að uppfæra leikinn og betrumbæta hann með uppfærslum langt eftir settan útgáfudag. Dragon’s Dogma 2 fær því meðmæli sem einn af leikjum ársins hjá Nörd Norðursins.


Final Fantasy VII Rebirth

Bjarki Þór

Leikjaheimurinn er gullfallegur og fjölbreyttur, grafíkin með því flottari sem sést í dag og tónlistin algjörlega framúrskarandi.

Annar hlutinn af þrem í stórkostlega vel heppnaðri endurgerð af japanska hlutverkaleiknum Final Fantasy VII. Í þessum leik fylgjum við Cloud og félögum eftir að þau hafa flúið borgina Midgard. Leikjaheimurinn er gullfallegur og fjölbreyttur, grafíkin með því flottari sem sést í dag og tónlistin algjörlega framúrskarandi. Upprunalegi leikurinn (frá 1996) skrifaði sig í sögubækurnar með því að bjóða upp á eftirminnilegar persónur, stórt og grípandi sögusvið og um leið sögu sem hefur lifað í minni manna.

Leikurinn nær að halda í gamla góða sjarmann en um leið bjóða upp á nýja spennandi nálgun. Þetta er ómissandi leikur fyrir þá sem hafa gaman af söguríkum hlutverkaleikjum og eru með veikan blett fyrir Final Fantasy seríunni eða japönskum hlutverkaleikjum.


Silent Hill II

Sveinn Aðalsteinn

Það verður bara að segja að pólska fyrirtækið Blooper Team náði að að negla tilfinningu og andrúmsloft upprunlega leiksins ásamt því að koma með nokkra nýja hluti í leiðinni.

Upprunalegi Silent Hill 2 leikurinn kom út árið 2001 og fagnaði 23 ára afmæli sínu í fyrra. Það var stress meðal margra aðdáenda seríunnar þegar fréttist að það ætti að endurgera einn af þekktustu hryllingsleikjum fyrr og síðar. Það verður bara að segja að pólska fyrirtækið Blooper Team náði að að negla tilfinningu og andrúmsloft upprunlega leiksins ásamt því að koma með nokkra nýja hluti í leiðinni. Silent Hill 2: Remake raðar sér í hóp endurgerða eins og Resident Evil 2, RE 4, Final Fantasy VII, Dead Space og Demon’s Souls að mínu mati.

Leikurinn náði að kalla fram þá tilfinningu hjá mér þegar ég spilaði upprunalega leikinn á PS2 á sínum tíma, í myrkrinu um miðjan vetur, skíthræddur og óttaðist allt það sem leyndist í þokunni í bænum Silent Hill.


Ofangreindir leikir þykja einstaklega vel heppnaðir að mati hópsins. Aðrir leikir sem vert er að nefna og komust ofarlega á lista að mati dómnefndar:

Animal WellLeikur í Metroidvania-stíl, þ.e.a.s. gamaldags 2D leikur þar sem þú ferðast um borð og leysir þrautir.
Balatro Stórskemmtilegur pókerleikur með tvisti sem gjörbreytir því hvernig þú spilar leikinn. Hlustaðu á umfjöllun okkar í Leikjavarpinu.
Dragon Age: The VeilguardHlutverkaleikur þar sem þú ögrar guðum og gerist leiðtogi trúmanna. Hlustaðu á umfjöllun okkar í Leikjvarpinu.
Eiyuden Chronicle: Hundred HeroesEf þú vilt upplifa leik í stíl gömlu RPG leikjanna eins og Suikoden I og II þá er þessi ómissandi.
Helldivers IIBarist fyrir frelsinu! Stútaðu geimverum með vinahópnum í þessum hasarfyllta skotleik.
Indiana Jones and the Great CircleFyrstu persónu ævintýraleikur með Indy í aðalhlutverki. Lestu leikjarýnina okkar eða hlustaðu á Leikjavarpið.
Manor LordsHerkænskuleikur þar sem þú byggir upp og stýrir þínu svæði á miðöldum.
Microsoft Flight Simulator 2024Fljúgðu um Ísland og flakkaðu um heiminn í flugvél eða þyrlu.
NEVA Tilfinningaþrunginn og listrænn platformer-leikur þar sem þú og förunautur þinn berjist gegn myrkraverum.
SatisfactoryFyrstu persónu byggingarleikur með dass af könnun og bardögum.
Senua’s Saga: Hellblade IIKeltneska hetjan Senua berst við víkinga og tröll á Íslandi á landnámsöld. Lestu leikjarýnina okkar.
Stellar BladeBjargaðu mannkyninu frá útrýmingu í þessum söguríka leik sem er fullur af hasar og ævintýrum.
The Legend of Zelda: Echoes of WisdomLoksins Zelda leikur þar sem þú spilar sem Zelda! Leystu þrautir og sigraðu óvinina í þessum magnaða ævintýraleik. Lestu leikjarýnina okkar eða hlustaðu á Leikjavarpið.
The Rise of the Golden IdolRannsakaðu 20 sérkennileg glæpamál á 8. áratugnum.
Paper Mario: The Thousand-Year DoorEndurgerð á samnefndum leik frá árinu 2004 þar sem píparinn Mario fer í RPG-gírinn.

Í dómnefnd voru Bjarki Þór Jónsson, Daníel Páll Jóhannsson, Daníel Rósinkrans, Steinar Logi Sigurðsson, Sveinn Aðalsteinn Gunnarsson og Unnur Sól Ingimarsdóttir.

Fylgjendur velja líka Astro Bot

Astro Bot var einnig valinn sem leikur ársins af fylgjendum Nörd Norðursins á samfélagsmiðlum.

Astro Bot var einnig valinn sem leikur ársins af fylgjendum Nörd Norðursins á samfélagsmiðlum. Fylgjendur gátu greitt atkvæði dagana 21.-27. desember og valið einn leik til að tilnefna. Alls bárust 46 atkvæði á Facebook og TikTok þar sem Astro Bot fékk flest atkvæði, eða 10 atkvæði. Þar á eftir fylgdi Warhammer 40,000: Space Marine 2 og Helldivers II með 5 atkvæði hvor. Aðrir leikir sem voru nefndir og fengu þrjú eða fleiri atkvæði eru: STALKER 2, Final Fantasy VII Rebirth og The Legend of Zelda: Echoes of Wisdom.

Sex heppnir fylgjendur fengu eintak af Landnáma í gjöf fyrir að taka þátt í kosningunni.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑