Leikjarýni

Birt þann 6. desember, 2024 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Indiana Jones and the Great Circle

Indiana Jones and the Great Circle Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Skemmtilegt ævintýri sem hittir í nostalgíuna

4

Góður


Hetjudáðir Indiana Jones hafa verið mjög vinsælar allt frá að fyrsta kvikmyndin, Raiders of the Last Ark, kom á sjónarsviðið árið 1981. Eftir það komu fjórar aðrar kvikmyndir, sú nýjasta er Dial of Destiny sem kom út árið 2023.

Indiana Jones kvikmynda serían var búin til af leikstjóranum George Lucas og var hans „ástarbréf“ til stuttra framhaldsmynda sem voru sýndar í kvikmyndahúsum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Góðvinur Lucas, leikstjórinn Steven Spielberg, leikstýrði öllum myndunum nema þeirri nýjustu.

Það sem gerði þessar myndir svo skemmtilegar og vinsælar var að þær voru hrein ævintýra-nostalgía. Aðalpersónan var auðvitað hann Indiana Jones, háskólaprófessor og fornleifafræðingur sem ferðaðist um heiminn í leit að týndum og földum fjársjóðum, koma þeim í hendur safna, og um leið stöðva illmennin sem vildu selja þá eða jafnvel finna leiðir til að nota dularfullu hlutina gegn mannkyninu.

Annað sem gerði þessar sögur svo spennandi að mínu mati var tímabilið sem þær gerast á. Þetta er á þeim tíma sem uppgangur fasismans er á fullu víðsvegar um heiminn og ná sögurnar að tengja við hið dulræna sem var sagt að margir nasistar höfðu mikinn áhuga á í samtökum eins og dulrænu samtökunum Thule Society til dæmis.

Saga

The Great Circle tölvuleikurinn frá MachineGames, Bethesda og LucasFilm Games er nýjasta viðbótin við þennan heim, en er þó langt frá því að vera fyrsti leikurinn sem skartar Indiana Jones. Það hafa bæði komið út leikir sem tengjast kvikmyndunum og síðan stakir leikir sem komu með nýjar sögur ekki byggða á eldra efni.

Þar má meðal annars nefna leikina Fate of Atlantis og LEGO: Indiana Jones leikina.

Indiana Jones and the Great Circle er nýtt ævintýri sem gerist árið 1937 á milli atburða Raiders of the Last Ark (1936) og The Last Crusade (1938), Temple of Doom gerist á undan þeim báðum.

Í Great Circle er heimurinn á barmi nýrrar heimstyrjaldar og hafa nasistar Hitlers og fasistar Mussolinis farið ránshendi um heiminn í leit af fornminjum, fjársjóðum og hlutum til að nýtast þeim að ná völdum í heiminum. Eftir að hafa reynt að stöðva innbrot í Marshall College þar sem Indy kennir, leiðir það til heimshornaflakks þar sem hann fer til staða eins og Vatíkansins, pýramídanna í Egyptaland, forna mustera í Taílandi og annara staða sem ég vil ekki spilla fyrir fólki.

Það koma þekktar persónur úr eldri myndum við sögu ásamt nokkrar nýjar sem við höfum ekki séð áður. Útlit Indiana Jones er mótað eftir leikaranum Harrison Ford, sem hefur leikið hann í öllum kvikmyndunum. Það er ótrúlegt að sjá vinnuna sem hefur verið lögð í að endurskapa Indy í leiknum. MachinesGames negla þennan hluta leiksins að mínu mati. Það er síðan Troy Baker (The Last of Us, Uncharted, Death Stranding), sem talar fyrir Indy og nær hann virkilega að líkja eftir Ford án þess að vera of falskur.

Leikarinn Tony Todd, sem lést því miður fyrir stuttu, er í leiknum sem hinn dularfulli Locus, hann er einn af kveikjunum af atburðunum sem draga Indy inn í sögu leiksins. Todd stendur sig mjög vel í þeim pörtum sem hann er í, ég vil þó ekki mikið segja um hans persónu. Til hjálpar Indiana Jones er vinur hans í Vatíkaninu, faðir Antonio, sem hjálpar Indy að eiga við fasistana sem hafa lagt undir sig Vatíkanið í leit af dularfullum minjum. Síðan má nefna persónuna Gina Lombardi, sem er ung blaðakona sem er að leita af systur sinni doktor Laura Lombardi.

Aðalandstæðingurinn í leiknum er Emmerich Voss, þýskur vísindamaður sem notar bæði gáfur sínar og styrk til að hrella Indy. Voss nýtur þess að spila með fólk og nota sálfræðina gegn þeim í stað ofbeldis. Það þýðir þó ekki að hann veigri sér við að meiða eða drepa fólk til að fá það sem hann vill.

Allt snýst þetta um leyndardóma Gullna hringsins og með hvaða hætti fornminjar víðvegar um heiminn tengjast. 

Spilun

Hvert borð er með grunnsvæði sem Indy byrjar á. Hægt er að kanna borðin nánar í leit að fjársjóðum, leysa ýmis hliðarverkefni og opna fyrir nýjar leiðir sem nýtast síðar. Hægt er að klæðast dulbúningum til að komast inn í gegnum lokuð svæði, en ef þú gerir eitthvað grunsamlegt þá er nauðsynlegt að fela sig og bíða eftir að óvinir hætti að leita. Í sumum borðunum eru fleiri en einn dulbúningur og þarf suma þeirra til að leysa viss verkefni í leiknum.

Indy er með bók með sér sem hann krotar niður ýmsar upplýsingar og notar til að leysa þrautir, skoða kort o.fl. Hægt er að skoða verkefnin sem þú ert með og staði til að kanna. Þegar líður á leikinn bætast við myndir sem hann hefur tekið, eða krotað, minnismiðar og fleira.

Eitt sem maður þarf að hafa í huga er að þó að leikurinn sé að mestu í fyrstu persónu, þá græðir þú lítið á að reyna að spila þetta sem skotleik. Það er nærri að hugsa um Tomb Raider eða Uncharted leikina. Báðar seríurnar fá einmitt gríðarlega mikið lánað frá Indiana Jones.

Indy hefur aðgang af nokkrum skotvopnum, en þau er helst notuð þegar allt annað klikkar. Þegar slík vopn eru notuð þá eru góðar líkur að þú fáir á þig en fleiri óvini sem þú átt ekki séns að eiga við.

Barefli sem er hægt að finna út um allt í borðum leiksins er oftast besta lausnin. Þungur skiptilykill í hausinn á fasista leysir flestar deilur. Fræga svipan hans Indys er notuð í bardögum, þrautum og til að komast á milli vissra staða í leiknum.

Það er hægt að berjast með höndunum í leiknum og er gott að læra að verja sig og blokka höggin frá andstæðingunum. Í sumum tilfellum er hægt að eiga við nokkra óvini samtímis en almennt er það góð leið til að deyja strax.

Vissan mat er hægt að borða sem bætir heilsu og styrk Indys. Síðan er hægt að kaupa eða finna hæfileikabækur sem opna fyrir varanlegar uppfærslur. Með því að nota myndavélina þá er hægt að vinna sér inn stig í leiknum sem eru notuð til að opna fyrir þessa hæfileika, einnig gefur myndarvélin oft vísbendingar um hvað á að gera í erfiðum þrautum leiksins.

Sum svæði í leiknum eru lokuð af þangað til að þú ert komin með vissan hluti. Hægt er að ferðast á milli helstu borða leiksins síðar til að opna fyrir ný svæði og leysa verkefni sem ekki var hægt að gera áður.

Það eru ýmsar litlar hugmyndir eins og hliðarverkefni, staðir til að finna og annað sem hefði verið gaman að sjá gert meira með, leikurinn fer að mestu mjög varlega í allt saman eitthvað og prófar ekki mikið nýtt. Ofbeldið í leiknum er líka mjög einfalt og saklaust ef svo má að orði komast. Svipað eins og kvikmyndirnar sem voru allar að höfða til viss aldurshóps, þá má líka giska að Disney (móðurfyrirtæki LucasFilms) hafi haft eitthvað að segja um hvað mætti og mætti ekki gera í leiknum. Það er ekkert um sama blóðuga ofbeldið gegn óvinum eins og má finna í Wolfenstein-leikjum MachineGames.

Tæknilegar hliðar

Leikurinn keyrir á idTech 7 grafíkvélinni og hafa eldri útgáfur þeirrar vélar keyrt síðustu Wolfenstein-leiki sem MachineGames gerði ásamt DOOM-leikjunum. Wolfenstein-leikirnir hafa verið að mestu skotleikir með stórum og stundum opnum borðum þar sem hasarinn gerist. Indiana Jones and the Great Circle er öðruvísi á þann hátt að hann er áfram í fyrstu persónu, nema þegar er verið að klifra um borðin og slíkt. Borð leiksins eru frekar stór og má búast við að eyða ófáum klukkutímum í hverju þeirra.

Hljóðhönnun leiksins er til fyrirmyndar og eru öll helstu hljóðin sem maður kannast við úr myndunum í leiknum. Sérstaklega má nefna högg hljóðin þegar Indy er að berjast, þau eru kraftmikil og gefa hverju höggi vissan þunga og kraft. 

Ég spilaði eintak af leiknum ætlað gagnrýnendum á PC í gegnum Steam,. Það var ekki búið að klára að setja inn „Path-tracing“ algerlega í leikinn, svo ég tók það ekki með í dómi mínum.

Vélbúnaðarkröfur leiksins eru þó nokkrar og meira en margir eiga kannski að venjast með eldri leiki sem keyra á idTech tækninni. „Ray-tracing“ er ávallt í gangi og gerir leikinn þyngri en annars yrði.

Lágmarkskröfur um vinnsluminni eru t.d. 16 GB en mælt er þó með 32 GB. SSD drif er nauðsynlegt og þarf um 120 GB af lausu plássi til að setja leikinn upp. Það er mælt með 8-12 kjarna eða meira örgjafa til að keyra leikinn og helst Nvidia GeForce 20xx til 40xx skjákort eða AMD RX 6600- RX7900XT. Þeir sem eru með 8 GB skjákort minni eða minna ættu að hafa það í huga þegar verið er að skoða leikinn.

Ég keyrði leikinn á minni vél sem er er með Intel i9 14900K örgjafa með 24 kjörnum, 64 GB vinnsluminni og Nvidia GeForce 3080Ti 12GB skjákorti. Mér gekk að mestu vel að fá leikinn til að keyra í jöfnum 60 römmum á sekúndu, þó var eitthvað um hikst og skrítna hluti stundum sem löguðust ekki fyrr en ég slökkti á leiknum og keyrði hann upp aftur. DLSS gervigreindaruppskölunin sem leikurinn styður, ásamt frá AMD og Intel (sem ég prófaði ekki), virkaði að mestu vel. Stundum bjó tæknin til ljóta grafík í leiknum og gerði það að verkum að ég slökkti stundum á henni og lækkaði upplausn leiksins frekar í staðinn til að tryggja betri myndgæði. Leikurinn á að fá uppfærslu á PC og leikjavélunum við útgáfu hans sem mun líklega laga margt á þessu sem ég lenti í.

Skipting leiksins á milli fyrstu persónu og þriðju persónu sjónarhornanna í leiknum var ekki alltaf að virka og hugsaði maður stundum um hvort að leikurinn hefði verið betri allur í öðru hvoru sjónarhorninu. Leikir eins og Tomb Raider og Uncharted hafa sýnt að þriðju persónu sjónarhornið virkar vel fyrir svona ævintýraleiki.

MachineGames eru auðvitað þekktir fyrir fyrstu persónu skotleiki, svo það kemur ekki endilega á óvart að þetta er ekki alltaf að virka 100%. Fyrirtækið talaði um að þeir vildu að leikmenn finndu sig í fótsporum Indiana Jones með að spila leikinn í fyrstu persónu, á margan hátt gengur það vel upp. Ég átti stundum erfitt með að klifra og sveifla mér um hátt í rústum eða berjast við ákveðið skrímsli í leiknum. Þar var leikurinn að ná vel að draga mann dýpra inn í andrúmsloft leiksins.

Manni varð óneitanlega hugsað stundum til leiksins The Chronicles of Riddick Escape from Butcher Bay sem Starbreeze Studios gerðu og kom út árið 2004. Margir sem unnuð að þeim leik, vinna nú í dag hjá MachineGames.

Ending

Að sögn MachineGames ætti að vera hægt að klára leikinn á um tólf tímum, en mig grunar að það sé gert á einhverjum spretti. Það tók mig nærri helmingi lengri tíma að klára sögu leiksins og flest hliðarverkefni leiksins. Jafnvel eftir það þá eru en nóg af leyndardómum og fjársjóðum eftir fyrir mig til að finna í leiknum.

Það var ekki mikið um einhverja stórar villur eða slíkt, ekkert sem var ekki hægt að leysa með að endurhlaða leikinn.

Það er leiðinlegt að sjá hve þungur leikurinn er miðað við hvernig eldri leikir sem keyra á idTech hafa verið. DOOM Eternal sem keyrir á sömu útgáfu og þessi leikur en er ekki með jafn stífar vélbúnaðarkröfur. Vonandi verður leikurinn eitthvað meira slípaður til og þá að þetta lagist með tímanum.

Það var ljóst að The Great Circle var gerður af fólki sem hefur séð myndirnar um Indiana Jones örugglega svipað oft og ég í gegnum árin. Ást þeirra á viðfangsefninu var mjög sjáanleg í gegnum spilun mína á leiknum og margir skemmtilegir nostalgíu-partar í leiknum fyrir þá sem hafa haft gaman af myndunum í gegnum árin. Þeir sem hafa ekki mikinn áhuga á þessum kvikmyndum fá líklega minna úr leiknum en þeir sem þekkja vel til ævintýra Indys.

Það verður síðan forvitnilegt að sjá hvernig Xbox Series útgáfa leiksins kemur út til samanburðar. Leikurinn verður fáanlegur á Xbox Series X og S, og síðar á næsta ári á PlayStation 5.

Leikurinn kemur út þann 6. desember fyrir þá sem kaupa dýrari útgáfu leiksins eða uppfærslu á GamePass. Annars er almennur útgáfudagur 9. desember næstkomandi.

Eintak í boði útgefanda.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑