Birt þann 12. október, 2024 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
0Sýnir mýkri hlið vondukallanna með blómaskreytingum – Viðtal við Ragnheiði Ýr
Ragnheiður hefur sótt innblástur úr nördaheiminum í list sinni, meðal annars úr Star Wars og Mario tölvuleikjunum.
Listakonan Ragnheiður Ýr Markúsdóttir hefur alltaf haft áhuga á því að teikna og mála. Í kjölfar þess að faðir hennar lést árið 2017 hellti hún sér í listina og lærði sjálf að mála og teikna. Auk þess fór hún í nám þar sem hún lærði þrívíddarkvikun. Ragnheiður hefur sótt innblástur úr nördaheiminum í list sinni, meðal annars úr Star Wars og Mario tölvuleikjunum. Við heyrðum í Ragnheiði og spurðum hana aðeins nánar út í verkin.
„Ég byrjaði að gera nördaverk 2018, mér fannst svo skemmtilegt að bæta við hlutum í náttúrumyndirnar mínar sem mér fannst fyndið eða gaman að sjá á striganum, eins og Star Wars skip eða uppáhalds karakterana mína úr Studio Ghibli myndunum.“ segir Ragnheiður þegar við spyrjum hana út í hvernig kom til að hún fór að leggja áherslu á nördaheiminn í sinni list.
Myndir: RÝM – Instagram
Ragnheiður málar einnig skó og skreytir þá. „Akkúrat núna er ég mest að gera vatnslitamyndir og mála á skó eftir pöntunum og auðvitað fyrir sjálfa mig líka, ég var alls ekki skó manneskja fyrr en ég byrjaði að mála þá.“ segir Ragnheiður og hlær. En hvaðan sækir þú þér innblástur? „Ég er sjálf nörd og elska allskonar skemmtilegt og sæki innblásturinn í myndum, þáttum, anime og manga sem mér finnst skemmtilegt.“
Ég er sjálf nörd og elska allskonar skemmtilegt og sæki innblásturinn í myndum, þáttum, anime og manga sem mér finnst skemmtilegt.
„Ég fór að vatnslita hjálma 2019, það byrjaði á hræðilegu vatnslitaverki af Punisher sem ég ætlaði sko ekki að endurtaka, en ég skoðaði myndina aðeins betur og ákvað að gera aðra tilraun með smá breytingum og gerði þá Darth Vader með blómaskrauti. Ég var svo ánægð að ég hélt bara áfram, það er svo gaman að sýna aðeins mýkri hlið hjá þessum vondu köllum, blóma-xenomorph er í uppáhaldi hjá mér!“
Myndir: RÝM – Flodhestur.com
Límmiðarnir hjá Ragnheiði hafa orðið vinsælir en þar tvinnar hún saman þekktum verum eða karakterum eins og Svarthöfða og bætir við fallegum blómum. „Já sko þeir áttu bara að vera auka vara hjá mér þegar ég var í fyrsta skipti með bás á Midgard, en enduðu svo á að vera sölumesta varan mín. Ég breytti eitthvað af vatnslita hjálmunum mínum í límmiða svo geri ég líka krúttleg dýr með svörtum húmor.“ Að lokum bætir Ragnheiður við: „Aðal ástæðan mín fyrir að gera verkin mín er í von að þau gleðji aðra jafn mikið og þau gleðja mig.“
Ragnheiður er með heimasíðuna flodhestur.com auk þess sem hún er virk á Instagram og TikTok þar sem hún birtir myndbönd reglulega og sýnir brot úr sínum verkum. Á Instagram-síðunni hennar tekur hún sömuleiðis við pöntunum. Við þökkum Ragnheiði kærlega fyrir viðtalið!
Myndir: RÝM – TikTok