Birt þann 1. febrúar, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0FM 23 mætir til leiks á PS5
Samantekt: Fín skemmtun á PlayStation 5 fyrir fótboltaunnendur sem vilja spila upp í sófa
4
Loksins á PS5
Eftir nokkra mánaða tafir er Football Manager serían loksins mætt á PlayStation 5. Síðasti leikurinn í seríunni sem kom út fyrir PlayStation leikjavélar Sony var Football Manager Classic 2014, eða fyrir um rétt 9 ár síðan.
Upprunalega átti Football Manager 2023 Console Edition eða FMC 23 að koma út á svipuðum tíma og hinar útgáfurnar í byrjun nóvember í fyrra, en það náðist ekki og PS5 útgáfunni var seinkað.
Þann 1. febrúar kemur FMC 23 út á PS5 og hef ég eytt síðustu dögum í að renna í gegnum þessa útgáfu og bera saman við það sem kom út í fyrra á PC/Mac og Xbox. Í eðli sínu er leikurinn nákvæmlega eins og Xbox One útgáfa leiksins sem er straumlínulagaðri útgáfa af leiknum og byggir á FM Touch útgáfunni en ekki þeirri stóru á PC/Mac
Hraði og flæði er eitthvað sem þessar útgáfur leiksins einblína meira á. Það er hægt að velja á milli ótal liða í helstu fótboltadeildum heimsins, allt frá stóru klúbbunum yfir í nær óþekkt lið í neðri deildum heimsins. Það er mest hægt að vera með 10 þjóðir valdar í einu í upphafi leiks. Það gefur skemmtilegt frelsi í að byrja hjá litlum klúbbi á Íslandi og gera þá að meisturum og hoppa síðan til neðra deilda Evrópu og hægt og rólega vinna sig upp í að vera boðið starf hjá stærstu klúbbum heimsins og keppa um titla þar.
Við tókum fyrir Football Manager 2023 í fyrra og gáfum honum fína einkunn en bentum þó á að það hefði ekki verið risa stökk á milli ára. Með árlega leiki er þetta ávallt viss vandi, og oftast um margar litlar breytingar í stað stórra.
Þetta, ásamt útliti og viðmóti keppnanna hjálpar til að skapa þetta eftirminnilega andrúmsloft sem myndast oft þegar að stærstu félagslið Evrópu mætast á vellinum. Þegar leikmenn eru komnir á þriðja tímabil leiksins þá mun nýja keppnisfyrirkomulag meistaradeildarinnar koma til leiks.
Í stað riðlakeppnanna sem fólk kannast við þá er þetta líkara deildarkeppni þar sem liðin mæta hverju öðru ákveðið oft áður en riðlakeppni tekur við fyrir þau efstu. Það tekur smá tíma að venjast þessum breytingum og verður forvitnilegt að sjá hvernig þetta kemur út fyrir liðin í leiknum og í raunveruleikanum eftir nokkur ár.
Að tala við leikmenn fyrir og í miðjum leik með Team Talks er nýtt í ár á leikjavélunum og er þetta gott stökk í að gera leikinn raunverulegri, það fylgja þó ekki með hárþurrkur eða annað til að kasta í leikmenn sem eru ekki að standa sig.
Skemmtileg viðbót í ár er Manager timeline sem sýnir alla þá velgengni þú hefur öðlast, helstu kaupin, sigra og töp, verðlaun og titla í lok hvers tímabils. Það er gaman að skoða þetta og sjá hvað hefur staðið upp úr hjá manni í og hvað má auðvitað gera betur, ef að allt fór á versta veg.
Leikurinn styður við 4K upplausn og HDR litatækni, þó verður það seint eitthvað sem fólk er að leita eftir með svona leik.
Hægt er að spila í gegnum netið í bikar- og deilarkeppnum með vinum og öðrum eða búa til draumaliðið í Fantasy Draft eða bara taka tímabil með vinum og sjá hver endar á toppnum og hver fellur eða verður rekinn.
Í Challenge mode eða áskorunum er leikjaspilurum sett ákveðið takmark og færð þú einkunn og verðlaun ef þú nærð því. Allt frá því að bjarga liði frá falli, reyna að ná árangri með meidda leikmenn, að liðið sé á barmi gjaldþrots og ná samt góðu árangri í deildinni og fleira.
Leikurinn er fínn með DualSense pinnanum þó hann nýti hann ekkert sérstaklega. Hægt er að notast við Instant Results fyrir þá sem vilja ekki sjá leikina heldur bara stilla upp, setja upp leikkerfi o.s.frv. eða bara til að flýta fyrir sér.
Það tekur smá tíma að venjast stjórnunni og þeim flýtileiðum sem eru í boði. Það er hægt að tengja við USB lyklaborð til að flýta aðeins fyrir sér þegar er leitað að leikmönnum og slíku, en það er engan veginn nauðsynlegt. En þetta kemur að lokum og áður en þú veist að þá ertu komin á 5. tímabil með Scunthorpe United í Englandi og í baráttu að komast í 2. deildina.
Ég myndi seint mæla með FMC 23 í stað stóra bróðursins á PC/Mac en fyrir þá sem hafa gaman af fótbolta og vilja spila upp í sófa og slaka á þá er nóg í boði í leiknum og í raun bara jafn mikið og lítið eftir þörfum. Ég sökkti um 40 tímum um leikinn á síðustu dögum og á örugglega eftir að bæta við það léttilega og ekki er verra að trophies leiksins eru ekki of strembin bara tímafrek. Hugsanlega er ég aðeins of kunnugur þessum leikjum og veit hvað á að gera til að ná Platinum trophy.
Áfram Bromley!
Eintak var í boði útgefanda