Birt þann 12. febrúar, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0DualSense Edge fyrir kröfuharða
Fyrir stuttu kom út nýr stýripinni fyrir PlayStation 5 leikjavél Sony og ákváðum við hérna hjá Nörd Norðursins að kíkja nánar á hann.
Fyrir hvernig er svo þessi nýja fjarstýring? Það er góð spurning, miðað við hve góður hefðbundinn DualSense pinni er. Það er helst fyrir þá sem vilji betri stjórn á leikjunum sínum og hvernig þeir spila þá að mínu mati. Keppnisfólk sem vill fá möguleikann að stilla fjarstýringuna, pinnana og annað algjörlega eftir sínu eigin höfði þegar snögg viðbrögð og tími geta skipt máli á milli sigurs og ósigurs í leik.
Það helsta sem DualSense Edge hefur fram yfir venjulegu DualSense pinnana er að það er hægt að stilla hve langt triggerar pinnans fara inn, það eru tveir auka takkar fyrir neðan á pinnanum sem er hægt að sérsníða hvað þeir gera, hægt er að stilla betur viðkvæmni hristingsins og hvernig analog pinnarnir haga sér og hægt að vera með mismunandi prófíla með stillingum fyrir vissa leiki og hoppa á milli þeirra í miðjum leik.
DualSense Edge kostar rétt um 40 þúsund krónur hér á landi. Fyrir það færðu fjarstýringuna, tösku, 2,8m langa hleðslusnúru, festingu sem læsir USB-C snúruna fasta svo hún losni ekki, mismunandi háa hatta til að skipta um á pinnunum og tvö sett af tökkum til að smella aftan á pinnann. FN (Function) takkarnir að framan eru notaðir til að kalla upp valmynd til að skipta á milli prófíla og breyta stillingum, einnig að hækka og lækka hljóðið.
Gripið í Edge er betri í höndunum með gúmmí pörtum neðan á henni til að gera lengri spilun þægilegri og minnka líkurnar á að fjarstýringin renni til í hendinni í miðjum WarZone leik.
Ég rúllaði í gegnum nokkra leiki á PS5 eins og nýju Dead Space endurgerðina, Forspoken, Football Manager 2023 Console Edition ásamt PS4 leikjum og var Edge í fínum gír í þeim öllum.
Hann Bjarki okkar tók sjálfan DualSense pinnann fyrir á sínum tíma og mælum við með að lesa umfjöllun hans hérna til að sjá restina af þeim möguleikum sem DualSense Edge bíður upp á ofan á það sem er bara hægt með Edge.
DualSense er besta fjarstýring sem Sony hefur gert að mínu mati og byggir DualSense Edge á honum. Það sem er pínu svekkandi er að rafhlaðan hefur ekkert verið bætt og ef eitthvað þá er hún aðeins lakari en í venjulegum DualSense. Þetta að mínu mati er frekar stórt klikk hjá Sony og hefði verið frábær leið til að gera DualSense ennþá betri. Til samanburðar þá er Xbox Elite 2 fjarstýringin með um 40 tíma auglýstan endingartíma og svipaða möguleika og DS Edge á sama verði.
DualSense Edge er almennt þéttur pakki sem er góð viðbót við PlayStation 5 og er það helst verðið og ending rafhlöðunnar sem draga hann eitthvað niður.
Þetta er klárlega góð viðbót í safnið fyrir leikjaspilara sem gera meiri kröfur til spilunar og betri möguleika í leikjum.
Við þökkum Senu innilega fyrir að lána okkur fjarstýringuna til að prófa.