Birt þann 30. maí, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
Samstarfsgrein – Sveinn uppfærir tölvuna hjá sér
Þessi grein var skrifuð af Sveini Aðalsteini í samstarfi við Kísildal. Höfundur fékk afslátt af vörunum frá þeim til að uppfæra einkatölvuna sína.
Hvað er í stöðunni þegar tölvan er ekki lengur að keyra nýja leiki eins vel og ´áður? Er málið að halda áfram að lækka gæðin í leikjunum og/eða upplausn þeirra? Kannski er komin tími á nýja vél og/eða uppfærslu.
Þegar talað er um slíkt þá er oftast átt við að viss vélbúnaður, eins og örgjafi (Intel/AMD), eða skjákort (Nvidia/AMD), sé að halda aftur af getu hinna hluta PC vélarinnar.
Þessara spurninga er ég er búinn að spyrja mig að í þó nokkra mánuði og ég sá að uppfærsla væri besta leiðin fyrir mig. Í mínu tilfelli var 6 ára Nvidia Geforce 1060 skjákortið mitt „flöskuháls“ PC vélarinnar minnar.
Ef að vélin er eldri eru meiri líkur á því að þetta sé blanda af hvoru tveggja.
Mín tiltekna PC vél er innan við 3 ára og sá ég fljótt með því að keyra viss forrit til að mæla getu hennar, spila tölvuleiki, vinna myndbönd o.fl. að skjákortið sem ég átti áður, var bara ekki lengur að ráða við það sem ég vildi fá frá því. Enda orðið 6 ára gamalt og ég hafði fært á milli véla þegar ég endurnýjaði PC tölvuna mína fyrir 3 árum. Ef að ég væri með einfaldari og léttari notkun ætti það skjákort alveg að endast í ófá ár í viðbót.
Gömlu „spekkarnir“ mínir voru;
- MSI Tomahawk Z930 móðurborð
- Intel i7 9700K örgjafi
- 32GB DDR4 minni
- MSI GTX 1060 6GB Skjákort
- CX550M Corsair 550w aflgjafi
- Corsair tölvukassi og viftur
Það eru líklega margir sem eru oft í sömu stöðu og ég nefndi hér að ofan. Fyrir marga er PC bransinn frumskógur, þar sem nýjar vörur, tækni og hugtök eru alltaf að spretta upp. Eins og t.d. RTX, Ray-tracing, DLSS, FidelityFX, DirectX Ultimate, G-Sync, Free-Sync og svo mætti lengi telja.
Jafnvel ég, sem tel mig vera sæmilega góðan í að fylgjast með og hef haft áhuga á þessum málum síðan ég var krakki, veit ekki allt eða hvernig er best að snúa mér. Þrátt fyrir að ég sé búinn að vera að dunda mér í þessu síðan á dögum MS-Dos.
Ég á það til að uppfæra á nokkurra ára fresti og láta það endast í einhver ár, svo ég vill að hlutirnir endist og séu peninganna virði. Ég hafði samband við tölvuverslunina Kísildal í Síðumúlanum í Reykjavík og bað um ráðleggingar um hvað væri gáfulegast að gera í minni stöðu. Stuttu síðar fékk ég svar frá Guðbjarti Nilssyni framkvæmdastjóra Kísildals og við spjölluðum saman um hvað væri best fyrir mig ásamt ýmsum leiðum til að leysa það.
Nvidia DLSS og RTX var stór ástæða fyrir uppfærslunni minni.
Málið var helst að velja rétt skjákort fyrir mínar þarfir og auðvitað verðramma. Það var líka ljóst að með nýju korti þá myndi 550w aflgjafinn minn ekki lengur duga nógu vel. Nýjustu skjákort Nvidia og AMD eru orkufrek og því skiptir miklu máli að vera með nógu mikið afl fyrir þau, án þess þó að fara offari. Eins og oft í þessum málum bætist eitthvað við og ég ákvað að gamli tölvukassinn væri ekki með nægt loftflæði fyrir vélbúnaðinn og benti Guðbjartur mér á nokkra valkosti í ýmsum verðflokkum. Eftir það var smellt í aðeins betri kælingu fyrir örgjafann og ný tölva var að fæðast.
Föstudaginn 20. maí gerði ég mér ferð til þeirra í Kísildal og spjallaði við hann Guðbjart og strákana á verkstæðinu. Auðvitað nýtti ég tækifærið og fékk að skoða mig aðeins um í leiðinni. Eitt af því sem ég sá fljótt, þegar ég ræddi við þá í Kísildal, var að þeir eru með puttana á púlsinum og hafa brennandi áhuga á flest öllu sem viðkemur tækni og bransanum. Annað sem kom mér skemmtilega á óvart var að þeir eru með svipað hugarfar og ég, það er að fólk fái það sem það vill og eru ekki að reyna að pranga inn á mann einhvern óþarfa sem maður hefur ekki not fyrir.
Það er ekkert mál að setja saman einhverja súper mulningsvél ef þú hefur 4-600 hundruð þúsund krónur til að spreða. En hvað þú hefðir í raun með það að gera og hvernig það myndi nýtast þér væri síðan annað mál.
Fyrir flest okkar er þetta blanda af gæðum og kostnaði sem og að reyna að finna góða lendingu þar.
Eitt sem gott er að hafa í huga er að það mun alltaf koma eitthvað nýrra, betra og hraðara. Ef þið bíðið alltaf eftir því næsta og besta, þá er möguleikinn á að þið gerið aldrei neitt. Finnið frekar það sem hentar ykkur og mun endast í einhvern tíma. Margir eru kannski bara að spila leiki á PC, eða spila þar og á einni leikjavél. Fæstir eru í sömu „öfgum“ og við hjá Nörd Norðursins, það er að reyna að spila leiki á hvaða platformi sem er og hvar sem við getum komist í snertingu við þá. Ef að ég væri eingöngu að spila á PC þá væri ég með aðrar kröfur, en þar sem ég spila leiki á mörgum stöðum og spila góðu leikina hvar sem ég finn þá hvort sem það er PC, X-Box, Playstation eða annað, þá eru mínar þarfir endilega ekki þær sömu og þær sem þið hafið.
Best er að setjast niður og sjá hvaða þarfir þið hafið fyrir mögulega uppfærslu á vélinni ykkar, einnig er mjög gáfulegt að senda t.d. tölvupóst á helstu tölvuverslanir landsins og biðja um ráðleggingar. Gott er þá að tala um hverju er verið að leitast eftir og hvaða kröfur þið hafið. Það borgar sig einnig að fá ráðleggingar hjá vinum og/eða vandamönnum sem þekkja til sem og hjá þeim verslunum sem ykkur líst vel á eða hafið góða reynslu af. Góð þjónusta að mínu mati er verðmætari en nokkrar krónur í verðmun á vöru.
Það er margt flott að sjá í tölvubúð eins og Kísildal. Vatnskælda vélin sem var verið að setja saman heillaði talsvert.
Það er ekki á hverjum degi sem tækninörd eins og maður sjálfur fær að rölta um búð eins og Kísildal og skoða sig um, hvað þá sjá verkstæðið og lagerinn. Þetta var pínu eins og að komast í dótabúðina hjá jólasveininum. Gamla vélin mín kom með í för og fékk skoðun hjá þeim áður en var hafist handa við að breyta henni. Til að gera þá ekki alveg brjálaða á mér skellti ég mér í smá þvæling og í lok dagsins var ég komin með nýja vél í gömlum kjarna og á leið heim á ný.
Næst á dagskrá hjá mér var að að skella sér í prófanir og sjá hvernig hefði tekist upp hjá mér. Það er að bera saman þær tölur sem ég hafði fengið úr því að keyra tölvuna í ýmsum forritum og leikjum og skrá niður það í Excel skjal. Þannig sá ég muninn á rammahraða og upplausn fyrir og eftir breytingarnar.
Í stað þess að drepa ykkur úr leiðindum með löngum skífuritum eða prósentu reikningum, set ég nokkrar myndir með tölum sem þið getið skoðað meðfram lestrinum.
Í „bench-mark“ mælingarforritinu 3Dmark fór ég úr 6.157 í einkunn fyrir Timespy prófið yfir í 20.142 sem er um 227% aukning. Í Witcher 3 fór ég úr 95 römmum á sek í 1080p upplausn í miðlungs gæðum í 202 ramma á sek, í Forza Horizon 5 í 4K upplausn í hárri grafíkstillingu fór ég úr 36 römmum í 128 ramma á sekúndu.
Fyrir mig þá er skjákort PC vélar minnar ekki lengur að teppa umferð grafík og myndvinnslu og hjálpar það að nýja skjákortið, Palit RTX 3080 Ti (kom út í júní 2021), er tveimur kynslóðum nýrra en það gamla MSI GTX 1060 Gaming X (kom út í júlí 2016), og er einnig með helmingi meira skjáminni.
Þetta var það sem hentaði mér og er léttilega hægt að fara í eitthvað smærra eða stærra. Það fer líka töluvert eftir því hve gamall núverandi vélbúnaður ykkar er og hverju þið eruð að vonast eftir að gera með hann í framtíðinni. Ég hefði vel getað bara verslað skjákort og aflgjafann en ég ákvað að nýta tækifærið og bæta loftflæðið og kassann hjá mér. Þetta er eitthvað sem alveg hægt að gera síðar fyrir suma.
Mér langar að þakka samstarfsaðilum þessa verkefnis, Kísildal fyrir hjálpsemina og ráðleggingar í vinnslunni á þessari grein og uppfærslu minni. Það sem ég fílaði við Kísildal og ástæðan að ég endaði að fara í þetta verkefni með þeim, var hve áhugasamir þeir eru um þessi mál. Sem og að finna hvað hentaði mér best, ekki endilega hvað myndi láta veskið mitt blæða sem mest.
Hér fyrir neðan mun fylgja nákvæmur listi yfir hvað ég verslaði og tenglar á þær vörur. Ég mæli ávallt með því að fólk gefi sér tíma og skoði málin vel áður en farið er af stað í svona verkefni. Ekki er verra að spyrja sem flestra spurninga og skoða í kringum ykkur hvað hentar ykkur best. Þetta er frumskógur þessi bransi og þá er um að gera að leita sér aðstoðar og upplýsinga.
Það sem ég keypti hjá Kísildal;
Deepcool CL500 ATX Tölvukassi
Deepcool DQ850-M-V2L 800 W aflgjafi
Deepcool AK620 Örgjafakæling
Palit GeForce RTX 3080Ti GamingPro 12GB Skjákort
Nýju „spekkarnir“ breytust í;
- MSI Tomahawk Z930 móðurborð
- Intel i7 9700K örgjafi
- 32GB DDR4 minni
- Palit RTX 3080Ti 12GB Skjákort
- Deepcool 850w aflgjafi
- Deepcool tölvukassi og viftur
Ég er ekki að gefa upp verðin hérna þar sem þau geta alltaf breyst og er hægt að sjá núverandi verð með að smella á tengilinn fyrir hverja og eina vöru.
Fyrir þá sem eru forvitnir um að uppfæra, kaupa sér nýja vél, skjá eða annan tölvutengdan búnað þá bendi ég ykkur á að kíkja á vefsíðu Kísildals, senda þeim línu og bara til að forvitnast. Nú eða kíkja í verslun þeirra í Síðumúla 15, 105 Rvk, einnig eru þeir á Facebook.
Ég ætti minnsta kosti að vera sæmilegur næstu 2-3 árin fyrir útgáfu Football Manager leikjanna á PC uppá að geta keyrt þá í sæmilegum gæðum 🙂