Leikjarýni

Birt þann 22. desember, 2021 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Kórar geimsins

Kórar geimsins Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Forvitnilegur leikur sem er virði að kíkja á ef þið hafið gaman af geim skotleikjum.

3.5

Fínt ævintýri


Ég verð viðurkenna að ég er alger sci-fi nörd og hef ávallt haft gaman að flottum og stórum geimorrustum þar sem lítil og stór skip berjast í geimnum.

Einn af uppáhalds leikjum mínum fyrr og síðar er leikurinn FreeSpace 2 frá árinu 1999. Í honum voru kaflar þar sem þú stjórnaðir litlu skipi á meðan risastór skip voru að berjast í kringum þig. 

Leikir eins og Decent og Forsaken sem komu út á undan FreeSpace 2 voru líka eitthvað sem náði að grípa mig. Ég missti af Star Wars X-Wing og Tie-Fighter leikjunum en kannaðist þó við þá en þeir náðu ekki að grípa mig á sínum tíma.

Í dag höfum við fengið leiki eins og Everspace og Star Wars Squadrons og nú er komið af leiknum Chorus frá Deep Silver Fishlabs.

Samband Forsaken og Nara

Leikurinn einblínir á Nara, unga konu sem hefur náð að flýja blóðuga og erfiða atburði úr fortíð sinni og heldur til í fjarlægri vetrarbraut. Hún hafði verið hluti af brengluðum sértrúarsöfnuði sem hét The Circle og er leiddur af The Great Prophet

Chorus reynir að segja dýpri sögu en maður rekst oft á í svona „arcade shooter“ leikjum og fær hann hrós fyrir það. Það er einnig ekki verið að tækla auðvelt efni stundum og hvernig syndir fortíðarinnar láta þig ekkert í friði, sama hve langt þú flýrð. 

Eins og svo oft er í svona sögum þá mætir The Circle á svæðið og neyðir Nara til að horfast í augu við fortíðina og reyna að stöðva þau áður en þau leggja alla vetrarbrautina undir sig.

Kjarni Chorus er samblanda af flugbardögum og könnun heimsins á skipinu þínu Forsaken eða Forsa eins og Nara kallar það. Skipið er lifandi og virðist hafa síðar eigin skoðanir um hlutina og lætur það í ljós í samtölum við Nöru.

Leikurinn er spilaður í þriðju persónu sem hjálpar til að fylgjast betur með þeim ógnum sem eru í kringum þig bæði frá umhverfinu og árásum. Það eru um sjö borð í leiknum sem þú getur ferðast á milli og leyst lítil og stór verkefni, fundið peninga og hluti til að uppfæra skipið þitt. 

Fallegur og drungalegur heimur

Í Chorus geturðu tekist á við aðalsögu hluta leiksins, hliðarverkefni sem geta veitt verðmæt verðlaun og stundum valkost í lokin á verkefninu að velja á milli ásamt ótal litlum handahófskenndum atburðum.  

Vopn leiksins eru þrenns konar; Gatling vélbyssur til að rífa litla hraða óvini í tætlur, laser byssur til að brjóta niður skildi óvina og síðast en ekki síst eldflaugar sem virka vel á brynju stærri óvina. 

Þegar líður á leikinn fær Nara nýja krafta sem hjálpa henni í gegnum sögu Chorus og í baráttunni við The Circle. Drift Trance leyfir þér að taka krappar beygjur sem hjálpa til í baráttunni við önnur skip. Rite of the Hunt gerir þér kleift að ýta á B/O takkann Xbox/PlayStation fjarstýringunni og hoppa snöggt fyrir aftan óvinina og einnig fara í gegnum vissa orkuveggi. Rite of the Storm sendir orkuskot sem skemmir skildi óvinanna og hjálpar að ganga frá þeim. Rite of the Star og Rite of Control reka svo lestina og hjálpa að eiga við erfiðari óvini leiksins.

Það er eitthvað svo flott að berjast við stóru skipin, eyðileggja byssurnar utan á þeim, fljúga inn í þau, valda usla og síðan koma sér í örugga fjarlægð og horfa á þau springa í tætlur. 

Helsti vandinn við leikinn er að það er ekkert sem hjálpar þér að merkja nálægasta óvininn og getur þetta stundum verið strembið þegar það eru margir óvinir á skjánum. Kraftarnir sem Nara fær hjálpa þó eitthvað til að minnka pirringinn í bardögum leiksins. Því meira sem þú notar viss vopn, því meir eykurðu hæfileikann þinn til að nota þau og þau verða sterkari. Það á sama við krafta leiksins. Þessar „arcade shooter“ rætur leiksins hjálpa við að fókusa meira á hasarinn og ekki flækja þetta of mikið með löngum hæfileika-trjám eða vopnauppfærslum og öðru slíku.

Óþarflega erfiður undir lokin

Það eru erfiðleikastillingar í boði fyrir flesta sem er hentugt og síðan Permadeath fyrir þá hörðustu. Leikurinn á til að verða pínu erfiður undir lokinn og aðeins mikið ef eitthvað er, gott að hafa í huga ef þið byrjið í hærri erfiðleikastillingu fyrst.

Leikurinn keyrir á Unreal 4 grafíkvélinni sem sést á fallegu umhverfinu  og ánægjulegt er í að kanna borð leiksins og sjá þá leyndardóma sem í boði eru. Frá útgröfnum smástirnum til dularfullra rannsóknarstöðva í ísfylltu stjörnukerfi fullu af skipsflökum. Það að kanna umhverfið  er góð leið til að upplifa baksögu leiksins og fá uppfærslur fyrir skipið þitt. Það er smá endurtekning í sumum hliðarverkefnunum en ekkert sem skemmir upplifunina. 

Ég spilaði leikinn á Xbox Series X og Xbox One X og hann keyrði mjög vel að mínu mati. Hann er með Performance (60fps) og Quality mode (30fps með betri grafík) eins og margir leikir eru með í dag. Ég mæli með Performance stillingunni ef þið eruð að spila leikinn á PS4 Pro/PS5/Xbox One X/Xbox Series X eða auðvitað á PC. 

Chorus er kannski ekki rosalega djúpur leikur en það sem er í boði er góð skemmtun í  þá 15-20+ tíma sem tekur að klára hann og ekki sakar að leikurinn er á lægra verði eða $39.99/£34.99/€34.99 (um 5-6 þúsund íslenskar krónur á núverandi gengi). Annars mæli ég með að grípa hann þegar hann er á tilboði.

Ef þið eruð forvitinn um leikinn þá birtum við fyrir stuttu kynningu úr leiknum og myndband af spilun hans sem má finna hérna.

Eintak af leiknum var fengið í gegnum útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑