Leikjarýni

Birt þann 16. desember, 2020 | Höfundur: Steinar Logi

Demon’s Souls (PS5) – Stórglæsileg endurgerð

Demon’s Souls (PS5) – Stórglæsileg endurgerð Steinar Logi

Samantekt: Rústir Boletaríu hafa aldrei litið eins vel út og fá nýtt líf í þessari glæsilegu endurgerð.

4

Glæsilegur


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Demon’s Souls er endurgerð samnefnds leiks frá 2009 á PS3 og er yfirleitt talinn upprunalegi Souls leikurinn (reyndar er hægt að rekja þá lengra aftur til King’s Field seríunnar enda hafa FromSoftware verið starfandi síðan 1986).

Margir hafa beðið með eftirvæntingu að fá að þjást aftur eða algjörlega upp á nýtt og að sjá hvernig eini stórleikurinn sem bara er hannaður fyrir PS5 stendur sig (með fullri virðingu fyrir Astro’s Playroom)

Ef þú hefur spilað Dark Souls leik þá er Demon’s Souls nokkuð líkur þeim í spilun en það eru samt hlutir sem aðgreina þá. Ef við tökum erfiðleikastigið sem dæmi þá er helsti munurinn sá að í Demon’s Souls þá eru stórbardagarnir („boss“ bardagarnir) ekki endilega það erfiða heldur leiðin til þeirra. Þú notar mun fleiri tilraunir til að sigra “boss” í Dark Souls leik heldur en í þessum (með undantekningum) en átt líklega eftir að falla af kletti eða t.d. drepinn af rúllandi beinagrind mun oftar. Það er svo margt í umhverfinu í Demon’s Souls sem drepur þig en stóru bardagarnir snúast frekar um að finna veikleika óvinarins.

Erfiðleikastigið í Demon’s Souls er líka algjörlega upp og niður, frá svæði til svæðis og bardaga til bardaga, þess vegna er nánast nauðsynlegt stundum að draga djúpt andann, snúa við og velja annað svæði. Það góða við þennan leik er nefnilega að eftir kynninguna þá byrjarðu á svokölluðu „Nexus“ svæði og getur valið um 5 ólíka heima sem þú smátt og smátt kemst áfram í þannig að leikurinn er ekki bein lína í gegnum sögu (sem er nánast engin, spilarinn þarf sjálfur að geta sér til um margt út frá heiminum sjálfum). Það er kannski einfaldast að útskýra Demon’s Souls þannig að þegar hann var gerður þá var hann ekkert hugsaður sem stórleikurinn fyrir hinn almenna spilara eins og hann síðar varð. Vinsældir hans komu frekar á óvart og hann fór nærri því ekki á vestrænan markað. Hann er hannaður fyrir ákveðna tegund spilara en þessir leikur hafa síðan orðið meira “mainstream” og aðeins slípaðri en Demon’s Souls.

Bluepoint Games, fyrirtækið á bak við endurgerðina með blessun FromSoftware, valdi að breyta nánast engu frá fyrri leiknum nema sjónræna hlutanum …

Bluepoint Games, fyrirtækið á bak við endurgerðina með blessun FromSoftware, valdi að breyta nánast engu frá fyrri leiknum nema sjónræna hlutanum (meira um hann seinna) og því er það sem gerði Demon’s Souls sérstakan enn til staðar en einnig það sem leikjahönnuðir myndu ekki endilega gera í dag eins og ójafnvægi hvað varðar erfiðleika og skrítnar ákvarðanir sem þjóna ekki miklum tilgangi eins og heimstilhneigingar (“world tendencies”) þar sem heimurinn breytist lítilega út frá einhverju sem spilarinn gerir eða ekki gerir og enginn skilur að fullu. Það er margt sem er ekki útskýrt bæði í gamla leiknum og núna í endurgerðinni sem hefði kannski mátt vera það.

Gallar leiksins eru því afleiðing af því að það var sumt í frumgerðinni sem mátti betur fara og valið var að halda því. Væntanlega er þetta af virðingu við FromSoftware en þetta er líka tapað tækifæri eins og FFVII endurgerðin sýndi fram á. Það er hægt að nútímavæða klassíska leiki og gera þá betri. Það er vísbending að sjötta heiminum í frumgerðinni sem mikið hefur verið talað um af aðdáendum síðan og það hefði virkilega lyft þessum leik upp ef Bluepoint Games hefðu hannað hann. Vonandi verður því bætt við seinna því margir myndu borga fyrir það.

Það sem er gert svo snilldarlega hér er að taka andrúmsloft fyrri leiksins, sem var þegar einn helsti styrkurinn, og setja það í annað veldi með með frábærri grafík, snilldar hljóðsetningu og vel gerðri spilun. Maður hefur oft gapað yfir leikjum eins og God of War og AC: Odyssey út af grafíkinni en það er stökk hérna enda leikurinn bara á PS5. Ég nefni AC: Odyssey því að hann er líka „fjarska fallegur“ og þá á ég við að maður getur dáðst af hlutum langt frá þér eins og fjöll, kastalar o.s.frv. Þannig upplifun hefur aldrei verið komið eins vel til skila og í Demon’s Souls. Ekki bara þá höktir tölvan ekki millisekúndu hvernig sem maður snýr leikja myndavélinni heldur er hægt að greina mun fleiri smáatriði. Maður getur séð fána flökta á kastalasvölum marga kílómetra í burtu eða óvini gangandi um efst á turni úr álíka fjarlægð. Þetta virkar líka fyrir allt þetta smáa, maður getur farið út í næsta horn og dáðst að áferðinni, hvernig veggurinn hefur veðrast í gegnum tíðina, hvernig birtan endurkastast (lýsingin er ótrúleg í leiknum) og svo tekur maður kannski eftir að einhverjar litlum pöddum sem maður tók ekki eftir áður. Ef Bluepoint Games endurgera einhvern tímann fyrsta Dark Souls á sama hátt þá verð ég fyrstur í röðinni. Hleðslutímarnir, eins og allt núna á PS5, eru ótrúlega hraðir og breyta dýnamíkinni fyrir svona leik. Áður fyrr þá var ákveðin aukarefsing að bíða lengi þegar maður dó og leikurinn hlóð inn svæðið aftur lengi vel en núna er maður strax kominn af stað. Spilarinn getur valið hvort að áhersla sé lögð á grafík eða rammahraða (“performance mode”) eins og er gert í nýjasta Spider-M an leiknum og þá er maður á 60 römmum á sekúndu. Mælt er með að nýta sér það.

Það er ekki bara útlitið sem hefur verið vel gert heldur allt sem tengist hljóði þ.e.a.s. umhverfishljóð eins og andardráttur óvinar bak við næsta horn eða drekaöskur í fjarska. Í bardögum sérstaklega og þar heyrir maður hvernig stál rekst í stál og það eru ótrúlega flott hljóð í öllum göldrunum hjá þér. Þarna unir Dualsense fjarstýringin sér sem hristist á mismunandi hátt á ákveðnum stöðum og gefur öllu meiri raunveruleikablæ. Þú ert virkilega í Boletaríu og næsta skref væri hreinlega að setja á sig VR græjurnar.

Eins og áður sagði þá hefur leiknum sjálfum ekki verið breytt það mikið og ber sum merki um að vera leikur gerður árið 2009 svo að kannski er þetta ekki fyrir alla. Einhverjir gætu byrjað vel en lenda svo á vegg og gefast upp þannig að það þarf einhverja þrautseigju til en hún er alltaf verðlaunuð. Þetta er erfiður en ekki óréttlætur leikur því að maður hefur alltaf val að prófa aðra leið og styrkja sig á öðrum svæðum, koma svo til baka og reyna aftur. Undirritaður öfundar þá sem eru að upplifa svona leik í fyrsta sinn og falla fyrir honum. Reyndar er Demon’s Souls það breyttur í þessari útgáfu að stundum fannst mér eins og ég væri að upplifa leikinn í fyrsta sinn og er það BluePoint til hróss. Kostirnir yfirvinna semsagt gallana og leikurinn er vel þess virði að kaupa en kannski ekki þess virði að kaupa PS5 bara til að spila hann.


Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑