Menning

Birt þann 30. september, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Teiknaði alla karakterana í Tekken 3

K

nútur Haukstein er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður og hluti kvikmyndagerðarhópsins Flying Bus sem framleiðir meðal annars þættina BíóBílinn sem hafa verið birtir hér á Nörd Norðursins. Knútur ákvað fyrir skemmstu að teikna alla karakterana úr tölvuleiknum Tekken 3 og birta á netinu. Við fengum leyfi til að birta myndirnar hér á síðunni og heyrðum í Knúti, en hann stefnir einnig á að teikna fleiri tölvuleikjakaraktera á næstunni og geta áhugasamir fylgst með á Deviant Art, Facebook og Instagram.

Hver er Knútur Haukstein?

Ég er fyrst og fremst sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður útskrifaður úr Kvikmyndaskóla Íslands og hef bæði verið að leikstýra sjálfur og leika í alls konar verkefnum. Ég er 1/3 af kvikmyndagerðarhópi sem nefnist Flying Bus sem samanstendur af mér og félögum mínum þeim Heimi og Arnóri. Við höfum verið duglegir að búa til stuttmyndir og grínsketsa af ýmsu tagi en einnig sjáum við um BíóBílinn sem er stutt umfjöllun um nýjar bíómyndir þar sem við komum með okkar álit á myndunum um leið og bíósýningunni er lokið. Þátturinn okkar hefur verið birtur stöku sinnum hér á síðunni.

Hvers vegna ákvaðstu að teikna karakterana úr Tekken 3?

Fyrir mér táknar þessi tölvuleikur æskuárin og tengist einungis góðum minningum. Ég lít á þetta sem eins konar sameiningartákn minnar kynslóðar.

Tekken 3 á sérstakan stað í hjarta mínu. Fyrir mér táknar þessi tölvuleikur æskuárin og tengist einungis góðum minningum. Ég lít á þetta sem eins konar sameiningartákn minnar kynslóðar. Þegar maður var krakki og staddur í alls konar barnaafmælum og allir vandræðalegir og vissu ekkert hvað þeir ættu af sér að gera þá gátu krakkarnir a.m.k. sameinast yfir Tekken 3. Hver og einn virtist geta samsamað sig einhverjum karakter úr leiknum hvort sem þú varst stelpa eða strákur. Ég hafði sérstaklega gaman af því hversu ólíkan smekk allir krakkarnir höfðu. Einhverjum gat t.d. fundist Paul Phoenix svalasti karakterinn á meðan öðrum þótti Lei Wulong bestur o.s.frv. Sem leikari hef ég alltaf gaman af ólíkum karakterum og persónuleikum og Tekken 3 var ríkur af þeim. Baksögur hvers og eins voru líka mjög áhugaverðar og hver og einn karakter hafði sína ástæðu til að keppa á mótinu. Tekken 3 var mín fyrsta kynning á Tekken og síðan þá hef ég keypt alla leikina og fylgst náið með þróun hvers og eins karakters (character arc).

Ég var alltaf að reyna að teikna þessa karaktera þegar ég var krakki og var aldrei sáttur með niðurstöðurnar. Ætli þetta hafi ekki verið eins konar leið til að kveikja í nostalgíu og jákvæðum minningum hjá ákveðnum hópi fólks (og þá sérstaklega af minni kynslóð) og einnig til að ná því markmiði sem mér fannst ég aldrei hafa náð sem krakki. Ég held ég sé bara nokkuð sáttur með niðurstöðurnar núna.

Hefuru verið að teikna lengi?

Ég hef verið að teikna alveg síðan ég man eftir mér. Ég elskaði að horfa á Batman: The Animated Series og Spider-Man teiknimyndaþættina (báðir frá tíunda áratugnum) sem lítill strákur og var alltaf að reyna að teikna karakterana í þessum þáttum (ég á ennþá teikningu af Dr. Octopus og Scorpion að reyna að yfirbuga Spider-Man frá því ég var ca 5-7 ára).

Ég lít fyrst og fremst á þetta sem áhugamál og eitthvað sem ég nýt þess að gera í mínum frítíma. Að hlusta á tónlist og teikna hefur mjög róandi áhrif á mig.

En ég hef engan „professional“ bakgrunn í teikningum. Ég fór aldrei í skóla eða neitt slíkt. Ég lærði þetta allt bara á eigin spýtur með því að reyna að herma eftir því sem ég sá og fannst spennandi með því að nota sjónminnið. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem áhugamál og eitthvað sem ég nýt þess að gera í mínum frítíma. Að hlusta á tónlist og teikna hefur mjög róandi áhrif á mig. Auk þess er ég mjög markmiðs miðaður einstaklingur. Ég hef gaman að því að setja mér markmið og reyna að fylgja þeim eftir. Ég t.d. byrjaði á því að teikna Jin Kazama bara af því ég hafði áhuga á að prófa það og sjá hvort mér tækist það. Síðan þróaðist þetta í þráhyggju um að reyna að klára allan karakterlistann (allt „rosterið“) og ég gat ekki lifað með sjálfum mér að teikna bara 1/4 eða 1/2 af öllu „rosterinu“. Þetta er svona eins og að púsla kannski og það vantar einhvern bita í púslið til að gera það fullkomið.

Er planið að teikna karaktera úr fleiri tölvuleikjum eða kvikmyndum?

Það eru mörg spennandi verkefni framundan og ég er með margar hugmyndir í gangi eins og er.

Já planið er klárlega að teikna meira. Mig hefur t.d. lengi langað til að tækla Sly Cooper en það er einn af mínum uppáhalds Platformer karakterum ásamt Jak & Daxter og Ratchet & Clank. Ég er pínu smeykur við að teikna seinni dúóin en ég byrja líklega á Sly. Þá er pælingin einnig að gera mína eigin útgáfu af Spider-Man illmennum úr teiknimyndaþáttunum frá 10. áratugnum. Það eru mörg spennandi verkefni framundan og ég er með margar hugmyndir í gangi eins og er.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑