Birt þann 26. september, 2019 | Höfundur: Steinar Logi
Skemmtilegur þrátt fyrir slakan söguþráð
Samantekt: Gearbox prófa ekkert nýtt en vinna í sínum styrkleikum sem virkar.
4
Svíkur ekki
Borderlands 3 er ekki að reyna enduruppgötva sig eins og Assassin’s Creed eða God of War hafa gert tiltölulega nýlega. Þetta er Borderlands leikur, ef þú hefur gaman af þeim þá er þessi fínn því að hann er mjög líkur hinum leikjunum í seríunni sem voru fínir. Gerðu það sama og þú gerðir síðast hvort sem það var að kaupa hann strax, bíða eftir útsölu, bíða eftir fleiri viðbótum eða bara ekki kaupa hann. Sú ákvörðun er alveg eins góð núna.
Það er mikið efni hérna og margt að skjóta á
Undirritaður hefur gaman af Borderlands svo að maður var ekki svikinn. Það er mikið efni hérna, margar plánetur (lesist: mismunandi landslag) sem þú getur farið til, hitt heimamennina og “local” dýralífið og drepið hvoru tveggja. Stundum eru þessi svæði lokuð en stundum meira opin. Í seinni hluta leiksins dælast á þig aukaverkefni og það er óneitanlega margt sem hægt er að gera. Við þetta bætist efnið eftir að hafa klárað hann einu sinni því að maður getur styrkt karakterinn sinn enn frekar eða leitað eftir betri vopnum.
Það er búið að auðvelda ýmsa hluti t.d. er núna er hægt að skipta á milli verkefna með hnappi (notar vinstri og hægri ör) í stað þess að þurfa opna kortið. Það að ferðast fljótlega á milli svæða er líka frekar auðvelt. Einnig nærðu sjálfkrafa í öll skotin núna og þarft ekki að halda inni “loot” takkanum.Ef maður týnir einhverju góssi þá er vél í bækistöðvunum sem spýtir því úr sér (en er með takmarkað pláss).
Það eru fjórar tegundir af hetjum álíka og í BL2 og byrjunin er nánast sú sama þar sem Marcus og Claptrap eru fyrstu persónurnar sem þú hittir. Eins og áður þá er “Siren” þarna sem notar nokkurs konar ofurkrafta en er öflugri í nánd við óvini en áður. “Beast Master FL4K” stjórnar dýrum sem geta t.d lífgað hann við. Gamli gaurinn Zane hefur “hologram” og drónatækni og að endingu er það Moze sem er nokkurs konar D.va úr Overwatch sem getur farið í stórt bardagavélmenni. Hvert þeirra hefur þrjú mismunandi hæfileikatré þannig að möguleikarnir til að finna sinn rétta stíl eru til staðar.
Það eru fjórar tegundir af hetjum álíka og í BL2
Allt er aðeins betra og pússaðra enda komin nokkur ár síðan síðasti Borderlands leikur kom út og leikir þróast. En söguþráðurinn veldur vonbrigðum enda erfitt að koma á eftir Handsome Jack sem er einn fyndnasti vondi gaur tölvuleikjanna. Reyndar varð ég pirraður á mörgum persónunum hér og söguþráðurinn náði aldrei athygli minni. Það var eins og Gearbox og/eða 2K vildu leggja minni vinnu í allt tengt söguþræði og raddleik. Troy Baker talar t.d. ekki aftur fyrir Rhys frá Tales from the Borderlands og það eru tvær frægar persónur (ekki atvinnuraddleikarar) sem bætast í hópinn og standa sig misvel. Vísindamaðurinn Tannis stóð uppúr fyrir mitt leyti. Mínus í kladdann fyrir þennan hluta leiksins. En merkilegt nokk þá er tónlistin mjög góð og maður tekur eftir henni. Það þarf ansi góða bakgrunnstónlist til að eyrun sperrast og það gerðist nokkrum sinnum í leiknum.
Borderlands 3 er aðallega svokallaður “Looter Shooter” og gerir þann hluta vel. Óvinirnir eru nægilega fjölbreyttir og ólíkir. Sumir eru með skjöld, sumir fljúga, sumir lækna aðra, það eru sterkari týpur af venjulegum gaurum og svo að sjálfsögðu “bosses” sem voru misgóðir en yfir meðallag yfir heildina. Það getur verið erfitt að hitta á rétta erfiðleikastigið í svona leik en Gearbox gerir það yfirleitt mjög vel og hefur eitthvað lært af reynslunni, sérstaklega þegar það þarfa að jafna styrkleikann milli tveggja eða fleiri spilara með mismunandi styrkleikastig. Leikmenn geta verið með mismunandi erfiðleikastillingu en samt spilað saman og það er hægt að velja hvort að allir geti tekið góss eða hvort það skiptist algerlega á milli spilarana.
Það að spila með öðrum hefur að mestu leyti gengið vel upp en það hægist stundum á leiknum ef maður opnar kortið eða skoðar hlutina sína (inventory). Þetta er sérstaklega áberandi ef maður spilar í “splitscreen” með öðrum en þá frýs allt í örfáar sekúndur. Vonandi ná Gearbox einhvern veginn að bæta úr þessu.
Það að er margt sem maður fyrirgefur Borderlands 3 því að það er hreinlega skemmtilegt að spila hann
Það er margt sem maður fyrirgefur Borderlands 3 því að það er hreinlega skemmtilegt að spila hann, sérstaklega með öðrum. Ég tók eftir mun færri villum (“glitches” eða “bugs”) en í fyrri leikjunum svo það er gott. Það voru engin vandamál að spila með öðrum ólíkt því sem ég lenti í með Borderlands 2 / Pre-Sequel síðast þegar ég prófaði hann eftir að hann var gefinn á Playstation Plus júní sl.
Það er búið að hressa upp á farartækjakerfið því að núna er hægt að “pimpa” þau upp á ýmsa vegu. Það að stjórna þeim er því miður að mestu óbreytt sem er synd. Eftir að maður klárar leikinn tekur við svokallað “Mayhem mode” þar sem óvinir eru erfiðari og það er meiri möguleiki á góðu góssi.
Lokaniðurstaðan er sú að þetta er skemmtilegur leikur með nóg að gera fyrir þá sem hafa gaman af svona leikjum og eru með lágar væntingar til sögunnar (sakna Jacks!). Ég hlakka til að halda áfram að spila hann í framtíðinni og mun eflaust tékka á viðbótunum.