Birt þann 26. ágúst, 2019 | Höfundur: Steinar Logi
Control hefur sína kosti og galla
Samantekt: Fín fylling en hefði mátt vera aðeins lengur í ofninum
3.5
Sumt gott, sumt vont
Control er nýjasti leikurinn frá Sam Lake og félögum í Remedy Games sem eru þekktir fyrir Max Payne, Alan Wake og síðast Quantum Break.
Söguþráðinn í Control, rétt eins og í Alan Wake, er ekki auðvelt að útskýra. Í grófum dráttum þá höfum við mjög stóran og veglegan vinnustað sem kallast Federal Bureau of Control (FBC) sem sérhæfir sig í að rannsaka það óútskýranlega.
Inn í þetta kemur þú sem Jesse Faden í leit af fjölskyldumeðlimi en af einhverjum ástæðum þá er strax litið á þig sem forstjóra FBC. Hlutirnir eru í algerri óreiðu því að dularfull öfl sem kallast “The Hiss” hafa tekið yfir bygginguna og smátt og smátt kemstu að því hvað er í gangi.
Jesse býr sjálf yfir dulrænum hæfileikum og hefur aðgang af vopnum sem hún getur þróað
Jesse býr sjálf yfir dulrænum hæfileikum og hefur aðgang af vopnum sem hún getur þróað ásamt því að geta hent hlutum og búið til skjöld með hugarorku ásamt fleiru. Þessa eiginleika er hægt að styrkja og þróa á ýmsa vegu með því að safna hlutum í gangi leiksins. Einnig eru hliðarverkefnin góð fyrir þetta og þau eru yfirleitt vel þess virði en oft eru þau að sigra “boss” bardaga. Einnig er hægt að leysa minni verkefni og fá verðlaun fyrir þau. Það góða við Control er að hann er ekki eins og fyrri leikir Remedy í því að maður hefur frelsi til að skoða heiminn og ekki bara fylgja söguþræðinum.
Karakternir í Remedy leikjum eru alltaf stór partur af upplifuninni og það sama er uppá teningnum hér og maður hittir nokkra áhugaverða eins og finnska húsvörðinn og yfirvísindamanninn. Það sem truflaði mig er að ólíkt því sem mér fannst gott við Alan Wake og Max Payne, er að aðalsöguhetjan er algerlega óáhugaverð, hvort sem það er viljandi (margir leikir velja þessa leið) eða óviljandi. Öll samtöl hennar er leiðinleg og gefa manni lítið. Myndböndin sem maður finnur ásamt myndbrotunum, sérstaklega seinna í leiknum, bæta það upp að einhverju leyti.
Control er yfir meðallagi góður en það eru lágir punktar og háir punktar
Útlit leiksins er heillandi vegna áherslu á lýsingu og lit og það er greinilegt að talsverð vinna hefur verið lögð í það. Það bjargar því að umhverfið er í raun frekar einsleitt (fyrir utan eitt ákveðið svæði). Ég lenti samt óþægilega oft í því að það hægðist á leiknum á PS4 Pro en hann krassaði samt aldrei. En það skemmtilegasta við heiminn er að það er hægt að eyðileggja allt sem gerir bardagana meira krassandi.
Leikurinn er alls ekki án vandamála og nokkurra mánaða fínpússun og prófanir hefðu hjálpað en vonandi laga þeir eitthvað í uppfærslum. Söguþráðurinn er ekki nógu skarpur og nær ekki að draga mann inn fyrr en miklu seinna í leiknum. Það er of mikið í gangi og yfirþyrmandi mikið af safnhlutum og maður gefst fljótlega upp á því að lesa hvern einasta snepil og missir því af áhugaverðum upplýsingum.
Leikurinn er alls ekki án vandamála og nokkurra mánaða fínpússun og prófanir hefðu hjálpað
Control er yfir meðallagi góður en það eru lágir punktar og háir punktar og því var þetta ekki eintóm gleði sem er miður því að það hefði verið hægt að bæta hann með aðeins meiri þróun. Til dæmis er auðvelt að villast og það hefði verið fínt að fá betri leiðarvísir í leiknum því að það eru svo mörg skúmaskot. Maður getur auðveldlega eytt dágóðum tíma bara í að leita af hlutum sem undirritaður gerði. Söguþráðurinn var upp og niður eins og ég minnist á að ofan. Bardagar gátu verið mjög skemmtilegir eina stundina þegar mikið var í gangi og litadýrðin tók yfir en þreytandi aðra stundina þegar ein klaufamistök drepa mann og maður þarf að ganga langa leið til baka.
Svo að maður endi á jákvæðum nótum þá hefur leikurinn nógu mikla sérstöðu til að vera þess virði að splæsa í en ekki reikna með gallalausum leik.