Birt þann 28. október, 2018 | Höfundur: Steinar Logi
Red Dead Redemption 2 – Fyrstu hughrif
Red Dead Redemption kom út fyrir 8 árum svo að maður býst við talsverðum framförum í útliti og spilun og Rockstar svíkur ekki þar frekar en fyrri daginn. Þú ert Arthur Morgan (vonandi er þetta tilvísun í Morgan Kane bækurnar sem voru vinsælar hér á landi fyrir langa löngu) og ert hægri hönd Dutch, leiðtoga gengis. Reyndar er þetta ekki dæmigert gengi og minnir frekar á stóra fjölskyldu í leit að betra lífi.
RDR2 tekur sinn tíma í að kynna þig fyrir heiminum og þú byrjar á flótta undan réttvísinni í brjáluðum snjóbyl eftir misheppnaða ránstilraun. Í fyrstu minnir þetta á leik eins og Last of Us því að maður er kynntur fyrir hörðum og köldum heimi þar sem gengið þarf að gera ýmsa slæma hluti til að lifa af. Þessi formáli gerir mjög vel í að kynna þig fyrir helstu persónum, stöðunni sem þau eru í og byggir upp heiminn með stórkostlegri grafík (ef þér fannst snjórinn í síðasta God of War flottur þá áttu eftir að taka andköf yfir þessu), raddleik og þvottekta vestrastemmningu.
Eftir nokkra tíma þá flytur gengið sig yfir á hlýjari slóðir og þá opnast leikurinn. Fljótlega getur maður farið að velja á milli verkefna og tekið þátt í aukaverkefnum.
Þessi formáli gerir mjög vel í að kynna þig fyrir helstu persónum, stöðunni sem þau eru í og byggir upp heiminn með stórkostlegri grafík
Það er greinilegt að gífurlegar mannstundir hafa farið í að gera heiminn sem raunverulegastan og það tekst. Ég stoppaði t.d. í skógi og var að veiða dágóða stundum því að þetta smá svæði iðaði allt af lífi. Eftir smá tíma þar heyri ég raddir og fyrir ofan mig við skóginn var óvinagengið að spjalla saman. Hingað til hafði maður ekki átt í neinum samráðum við þá heldur bara skotið við sýn og líklega hefði það sama gerst hefði ég ekki verið að læðast um fyrir neðan á veiðum. Ég hlustaði á einhverja kvarta en svo segir leiðtogi þeirra langa og ítarlega sögu um hvernig hann var einu sinni staddur í að því virtist vonlausri stöðu en náði með þrautseigju að komast þaðan (púðrið hjá óvininum varð of blautt til að skjóta af fallbyssum sem bjargaði honum). Manni grunar að 95%, jafnvel meira, af spilurum eigi ekki eftir að heyra þessa peppræðu því að þetta var ekki tengt neinu verkefni eða aukaverkefni og það var alger hending að ég heyrði þetta. Maður sér þetta líka þegar maður umgengst sitt eigið fólk. Í hvert sinn sem þú ferð í bækistöðvarnar þínar þá hafa flestir eitthvað nýtt að segja og það er alltaf eitthvað að gerast, margt sem þú rekst á óvart. Samræður og litlir atburðir milli fólks í heiminum virðast vera óendanlega margir og því virka persónurnar meira eins og alvöru persónur.
Það er greinilegt að gífurlegar mannstundir hafa farið í að gera heiminn sem raunverulegastan og það tekst
Veður og áhrif þess á heiminn gætir alls staðar og þrátt fyrir að hafa „bara“ spilað í um 20 tíma þá hef ég bara einu sinni séð regnboga og nokkrum sinnum þrumur og eldingar. Hlutir verða blautir, drullarsvað myndast, maður rennur niður halla sem maður gat klifrað fyrir regnið, hnullungar renna líka niður með manni. Það er óraunverulegt hvað þetta er raunverulegt. Það væri hægt að skrifa heila ritgerð um fótspor, för eftir vagna og hvernig förin fyllast upp af vatni eða hafa breytilega dýpt. Maður hefur séð marga flotta leiki undanfarin ár en þeir hjá Rockstar virðast hafa ásett sér að gera betur en aðrir.
Smáatriðin eru ekki bara í veðrinu og umhverfinu heldur líka í hlutunum sem eru til sölu. Tökum bara hesta sem dæmi. Fyrir utan að hestarnir eru fjölbreytilegir, líta frábærlega út og hreyfa sig eðlilega, skoðum bara um hnakkana. Fyrst eru það hnakkarnir sjálfir sem bera nöfn eins og Kneller Mother Hubbard Saddle, Stenger Roping Saddle og Gerden Trail Saddle auk nokkurra í viðbót. Hver hnakkur kemur líka í mörgum litum og uppfærðum útgáfum. Síðan er hægt að kaupa hnakkpoka (ég biðst hestamenn afsökunar ef ég er ekki með orðin rétt) í ýmsum litum og uppfæra þá. Næst eru það ístaðið og það eru nokkrar tegundir af þeim s.s. Belled Oxbow Stirrup og Deep Roper Stirrup. Svo koma hornin á söðlinum sem ég vissi ekki að virka eins og skraut framan á gömlum bílum og hér höfum við nöfn eins og Birch ‘Dally’ Horn og Steel ‘Diablo’ Horn og allt í allt 14 gerðir. Smá google rannsókn sýnir að horn eru bara á “Western saddle” en ekki á dæmigerðum enskum hnökkum. Því næst eru 12 tegundir af teppum sem hægt er að leggja á hestinn eins og Siltwater Blanket og Owanjila Blanket sem hvert fyrir sig koma að sjálfsögðu í mörgum litum og gerðum. Að endingu eru það svefndýnur eða “bedroll” sem koma í nokkrum tegundum og mörgum litum. Þetta er allt frá einum sölumanni og ég væri ekki hissa ef það eru fleiri möguleikar annars staðar í heiminum. Afsakið langlokuna en þetta er bara til að sýna að áherslan á smáatriði í Red Dead Redemption 2 er ótrúleg og þeir leggja mikið á sig til að búa til fullmótaðan heim.
RDR2 stefnir í algjört meistaraverk og virðist hafa afburða endingu
Ég hef reynt að halda áfram með söguna sem er mjög góð en það er mjög auðvelt að taka þessi hliðarspor því að það er svo margt hægt að gera. Hann er líkur fyrsta leiknum að því leyti en það er bara meira og betur úr garði gert. Þetta er svo sannarlega fullmótaður heimur og eitthvað sem endist flestum spilurum marga mánuði. Einu tæknilegu vandamálin sem ég hef lent í hingað til er að hlutir virðast festast stundum í lausu lofti. Það að taka hluti af líkum óvina er líka ekki nógu vel hannað sem ég fer betur í lokarýninni. En þetta eru smáatriði og RDR2 stefnir í algjört meistaraverk fyrir mína parta. Endingin virðist vera umfram flesta aðra leiki, ég hef t.d. ekki minnst á veiðar hingað til en það er heill leikur út af fyrir sig.