Leikjarýni

Birt þann 19. október, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Leikjarýni: Assassin’s Creed: Odyssey snýr til Grikklands hins forna

Leikjarýni: Assassin’s Creed: Odyssey snýr til Grikklands hins forna Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Metnaður leiksins er gríðarlegur, bæði í stærð og spilunarmöguleikum. Spilunartíminn fer léttilega yfir 100+ tíma og næg fjölbreytni er í boði.

4

Góður


Rétt um ári eftir útgáfu hins vel heppnaða Assassin’s Creed: Origins er franski útgáfurisinn Ubisoft mættur aftur til leiks, að þessu sinni með Assassin’s Creed: Odyssey þar sem sögusviðið er Grikkland hið forna.

Assassin’s Creed: Origins var stórt stökk frá árlegum Assassin’s Creed leikjum árin á undan og skilaði pásan sér vel, en fyrirtækið tók við sér eftir vonbrigði spilara með AC: Unity árið 2014 sem kom frekar illa út og virkaði líkt og hann væri ekki fullkláraður.

NÝJU LÍFI BLÁSIÐ Í SERÍUNA

AC: Origins var stór breyting á þessari seríu Ubisoft sem spannar nú alls 11 leiki í aðalseríunni og þá er ekki talin með öll hliðardæmin. Serían var orðin vel þreytt og þurfti gott spark í rassinn, sem Origins var og opnaði sá leikur spilunina og leikjaheiminn til muna. Fólk var þó efins þegar Ubisoft kynnti til leiks AC: Odyssey á þessu ári og að hann myndi koma út aðeins ári eftir síðasta leik. Var fyrirtækið mögulega að detta í sama árlega ruglið á ný, eða hvað? Þeir hafa þó sagt að það muni ekki koma út nýr leikur árið eftir sem ætti að hjálpa til, og sú staðreynd að AC: Odyssey hafi verið í vinnslu í þó nokkur ár hjá Ubisoft Quebec og að hluta til á sama tíma og AC: Origins sem var gerður af Ubisoft Montreal.

Það sérstaka við sögu Odyssey (fyrir þá sem kannast eitthvað við sögu AC seríunnar) er að leikurinn gerist árið 431 f.Kr, sem er um 400 árum fyrir atburði AC: Origins sem leiddi til stofnunar Assassin launmorðingjareglunnar. Það finnast tengsl við aðalsögu seríunnar þó svo að sagan geti oft verið ruglingsleg eftir öll þessi ár. Hvort það sé gáfulegt að aðskilja seríuna alveg frá nútímasögunni er spurning sem ég spurði mig sjálfan af og til á meðan ég spilaði leikinn.

DRAMATÍSK SAGA Á TÍMA PELÓPSSKAGASTRÍÐSINS

Sögusvið leiksins er Grikkland hið forna og gerist í Pelópsskagastríðiðinu á milli borgríkjanna Aþenu og Spörtu. Þessi átök vörðu í um 30 ár í raunveruleikanum og höfðu mikið að segja um framtíð Grikklands …

Sögusvið leiksins er Grikkland hið forna og gerist í Pelópsskagastríðiðinu á milli borgríkjanna Aþenu og Spörtu. Þessi átök vörðu í um 30 ár í raunveruleikanum og höfðu mikið að segja um framtíð Grikklands og leiddu til uppgangs Makedóníu sem hafði síðar mikil áhrif á þróun sögunnar líkt og við þekkjum hana í dag. Eins og búast má við mun restin af sögu leiksins ekki tengjast hinni raunverulegu heimssögu með beinum hætti þar sem þetta er tölvuleikur sem styðst við skáldaða útgáfu af sögunni.

Leikmenn AC: Odyssey velja á milli þess að fetja sig í fótspor Alexios sem er leikinn af Michael Antonakos eða Kassöndru sem er leikin af Melissanthi Mahut, en Alexios og Kassandra eru systkyni. Ubisoft fær plús fyrir að vera með gríska raddleikara í stærri og smærri hlutverkum eins og í AC: Origins, þetta hjálpar til við að gefa heiminum og fólkinu raunverulegri blæ.

Nú er þetta tekið skrefinu lengra og er hægt að velja hvað þú segir í samtölum og tekið ákvarðanir sem geta haft talsverð áhrif á söguna og hver lifir eða deyr og minnir samtalskerfið talsvert á kerfið í Mass Effect leikjunum.

Í fyrsta sinn í seríunni (það var þó hægt að spila sem systkinin Jacob og Evie Frye í AC: Syndicate árið 2015) er hægt að velja á milli þess hvaða persónu þú spilar í gegnum leikinn. Nú er þetta tekið skrefinu lengra og er hægt að velja hvað þú segir í samtölum og tekið ákvarðanir sem geta haft talsverð áhrif á söguna og hver lifir eða deyr og minnir samtalskerfið talsvert á kerfið í Mass Effect leikjunum.

Sama hvort þú velur Alexios eða Kassöndru er sagan og samtölin eins, þó fannst mér mikill munur á hvernig Alexios og Kassandra brugðust við aðstæðum. Melissanthi Mahut leikur Kassöndru af mikilli innlifun og húmor sem mér fannst passa einstaklega vel við hana, á meðan Alexios kom út eins og klassísk karlhetja frá þessum tíma. Það er á margan hátt hægt að hugsa um „Fem-Shep“ kvenútgáfu aðalpersónu Mass Effect leikjanna, þar sem stór hópur fólks fannst leikkonan Jennifer Hale negla persónuna og er enn þann dag í dag í miklu uppáhaldi hjá mörgum.

Eftir að spákona segir foreldrum þínum að það þurfi að fórna þér ofan að fjalli leiðir það til þess að þér er kastað fram af fjallinu af föður þínum Nikolas. Þú lifir það af og ásamt spjótbroti móður þinnar nærðu að flýja og skolast upp á eyjuna Kephallonia og elst þar upp við fátækt og erfiði sem herðir þig mikið á líkama og sál. Þú gerist málaliði eða Misthios og vinnur ýmis verkefni fyrir fólk gegn gjaldi. Þér til hjálpar er örninn Ikaros og hestur, sem þú færð gefins snemma í leiknum, að nafni Phobos.

Þú spilar sem málaliði eða Misthios. Fortíðin ásækir þig og eftir að dularfullur maður að nafni Elpenor biður þig að drepa Úlfinn frá Spörtu þá hefst atburðarás sem leiðir þig í átt að restinni af fjölskyldu þinni. Sértrúarsöfnuðurinn „Cult of Cosmos“ stendur á bak við átökin í Grikklandi á milli Aþenu og Spörtu og virðist vera með puttana í nær öllu í landinu. Það verður fljótt þitt takmark að útrýma þeim ásamt því að reyna að halda fjölskyldu þinni öruggri og komast af því af hverju þeir hafa svona mikinn áhuga á ykkur.

SÓKRATES, HIPPÓKRATES OG GOÐSAGNADÝR

Þó að sagan sé auðvitað skálduð þá er umhverfið og tímabilið það ekki, þú munt rekast á mörg þekkt nöfn úr sögunni eins og; Alkibiades, Kleon, Sokrates, Sophokles, Pausanias, Herodotos, Hippokrates, Brasidas, Alcibiades og Phidias.

Þó að sagan sé auðvitað skálduð þá er umhverfið og tímabilið það ekki, þú munt rekast á mörg þekkt nöfn úr sögunni eins og; Alkibiades, Kleon, Sokrates, Sophokles, Pausanias, Herodotos, Hippokrates, Brasidas, Alcibiades og Phidias. Þessar persónur koma þó mis mikið við sögu og margar þeirra rekstu á þegar þú gerir hluta af þeim ótal hliðarverkefnum sem hægt er að finna í leiknum.

Tengingin við nútímasögu AC seríunnar kemur í formi Layla Hassan, sem var kynnt til leiks í AC: Origins. Hún er nú komin frá Egyptalandi til Grikklands og er með spjót Leonidas (úr kvikmyndinni 300 fyrir þá sem þekkja lítið til sögunnar), eins og má gera ráð fyrir þá er spjótsparturinn sem Kassandra er með sá sami og hefur talsverða tengingu við hennar fjölskyldu. Layla er að leita af hinum dularfulla staf Hermes og er að fara í gegnum minningar Kassöndru til að finna hann.

Goðsagnadýr og persónur úr grískum sögum eru til staðar og er reynt að tengja það saman við hinn forna heim forveranna Isu sem áttu að hafa komið á undan manninum samkvæmt baksögu AC leikjanna. Það hefði þó verið gaman að sjá fleiri af þeim, spurning hve mikið er geymt fyrir DLC (niðurhalsefni) eða lifandi atburði í heiminum, sem eiga að gerast reglulega eins og var í leiknum í fyrra.

LANDSVÆÐIÐ MUN STÆRRA EN Í ORIGINS

Svæðið í AC: Odyssey er meira en tvisvar sinnum stærri en í AC: Origins og var sá leikur ekki beint lítill. Það verður þó að taka tillit til að stór hluti heimsins er sjór og eyjur og kemur mikið við sögu í spilun leiksins.

Svæðið í AC: Odyssey er meira en tvisvar sinnum stærri en í AC: Origins og var sá leikur ekki beint lítill. Það verður þó að taka tillit til að stór hluti heimsins er sjór og eyjur og kemur mikið við sögu í spilun leiksins. Það er skemmtileg tilfinning að sigla á skipinu Adrestia um Eyjahafið í leit af ævintýrum, fjársjóði, rómantík eða bara að sökkva óvinaskipum. Einn besti hluti AC IV: Black Flag var einmitt skipahlutinn og hefur AC: Odyssey tekið stóran hluta þess, það sem helst vantar er að veiða hvali og önnur dýr, en það er ekki beint hlutur sem maður saknar. Til að manna skipið þitt getur þú ráðið fólk í áhöfn eða sannfært óvini um að starfa fyrir þig með því að rota þá.

Ný viðbót þetta árið er að þú getur valið að spila leikinn á tvenna mismunandi vegu.

Ný viðbót þetta árið er að þú getur valið að spila leikinn á tvenna mismunandi vegu. Hinn hefðbundna hátt þar sem leikurinn segir þér nákvæmlega þú átt að gera og hvað á að gera næst, nýja leiðin er að þú færð vísbendingu um hvert þú átt að fara og kemst að meiru með að tala við fólk sem gefur þér nýjar vísbendingar um hvað á að gera næst. Einnig er meiri áhersla lögð á að skoða kort leiksins og nota það til að rata út frá kennileitum í heiminum. Þetta er skemmtileg viðbót sem hjálpar að draga þig meira inn í leikinn og söguna.

Ef þér langar að upplifa þig sem bardagamann eða konu, þá mæli ég með að kíkja til Mesarra eyjunnar neðst á kortinu sem kallast Krít í dag. Þar má finna marga skemmtilega hluti þar á meðal bardagasvæði til að fá smá „Gladiator“ tilfinningu.

Hreyfingarnar í bardögum eru mjög vel gerðar og þú færð góða tilfinningu fyrir að vera hálfguð þegar þú ert að berjast í stórum orrustum. Þegar þú ert búinn að veikja niður ákveðið svæði á kortinu, með að eyðileggja vistir, drepa háttsetta óvini eða drepa leiðtoga svæðisins þá opnast möguleikinn á stórri orrustu.

Vopn leiksins eru mjög viðeigandi fyrir tímabilið og er nóg af sverðum, bareflum, öxum, bogum og spjótum til að nota. Það helsta sem mér fannst vanta eru skildir, sem er heldur sérstakt að vanti miðað við hve margir óvinir í leiknum nota þá og var kjarninn í bardagastíl Spartverja ásamt spjóti Leonidas sem Kassandra eða Alexios eru ættuð frá. Hreyfingarnar í bardögum eru mjög vel gerðar og þú færð góða tilfinningu fyrir að vera hálfguð þegar þú ert að berjast í stórum orrustum. Þegar þú ert búinn að veikja niður ákveðið svæði á kortinu, með að eyðileggja vistir, drepa háttsetta óvini eða drepa leiðtoga svæðisins þá opnast möguleikinn á stórri orrustu. Þar sem þú spilar sem málaliði getur þú valið á milli þess að berjast fyrir annað hvort Spörtu eða Aþenu. Það virðist almennt hafa lítið að segja um hvora fylkinguna þú velur, fólk talar til dæmis ekkert öðruvísi við þig ef þú hefur verið að vinna gegn hinni fylkingunni á svæðinu í nokkurn tíma og ákveður síðan allt í einu að berjast fyrir hina. Þetta er hluti sem hefði verið gaman að sjá meira af í leiknum, í staðinn sérð þú bara minniháttar breytingu á heiminum þegar fylkingin sem þú studdir við tekur völdin á svæðinu og skilar það sér í hvaða hermenn og merkingar og fánar eru á svæðinu.

GULLFALLEGUR LEIKUR SEM NOTAR TÆKNINA

Leikurinn er gullfallegur, Anvil Next 2.0 grafíkvél Ubisoft hefur mikið um það að segja ásamt því að spila leikinn á PlayStation 4 Pro eða Xbox One X tengt í 4K sjónvarp með HDR litatæknina. Það er svo mikil nákvæmni lögð í alla litlu hluti leiksins sem margir munu líklega ekki taka eftir í spilun sinni í gegnum leikinn. Heimurinn virkar mjög lifandi og líkt og í Egyptalandi þá eru sögufrægir staðir á hverju horni sem hægt er að skoða og upplifa, staðir sem maður hefur bara lesið um í bókum eða séð í kvikmyndum hingað til. Eins og með AC: Origins þá verður frí viðbót við leikinn sem kallast Discovery Tour verða fáanlegt eftir einhverjar vikur, og einnig verður hægt að kaupa stakt eintak af Discovery Tour fyrir þá sem vilja ganga um söguna og upplifa hana á nýjan hátt.

Útlit persóna og andlitshreyfingar þeirra hafa fengið uppfærslu á milli ára og er ekki eins mikið um að aukapersónur í leiknum virki óþarflega stífar eða séu með ekki eins raunverulegar andlitshreyfingar þegar er borið saman við aðalpersónur leiksins.

Eitt af því sem einkennir AC: Odyssey frá síðasta leik, er meiri hæðarmunur í heiminum sem kemur líklega ekki á óvart miðað við að leikurinn gerist í Grikklandi og þar er nóg af fjöllum og hæðum til að kanna. Heimurinn virkar stærri bæði út frá kortinu og hvert þú getur farið og einnig út frá hve hann er meira byggður til að nýta umhverfið í sögu og spilun. Það er góð tilfinning að klífa upp hátt fjall til að komast að virki fullu af hermönnum og fjársjóði og nýta sér umhverfið til að fækka þeim niður.

SÆKIR MARGT ÚR HEIMI HLUTVERKALEIKJA

Það er hæfileikatré í leiknum til að fylla upp í þegar þú hækkar um stig í leiknum, nú er hægt að velja á milli að setja stigin í Warrior, Hunter eða Assassin flokka, eftir hvaða leikstíll hentar þér best.

Það er hæfileikatré í leiknum til að fylla upp í þegar þú hækkar um stig í leiknum, nú er hægt að velja á milli að setja stigin í Warrior, Hunter eða Assassin flokka, eftir hvaða leikstíll hentar þér best. Þetta virkar fínt og gefur manni hentuga leið að finna sinn stíl. Auðvelt er síðan að breyta ef þér líkar ekki við og fara aðra leið í staðinn eins og er svo oft í hlutverkaleikjum.

Helsti vandinn við þetta, eins og í mörgum öðrum tölvuleikjum, er möguleikinn á að geta flýtt fyrir öllu með því að kaupa sérstaka flýtileið aukalega frá Ubisoft.

AC: Odyssey hallast meira til RPG og ævintýraleikja en áður og er nóg af tölfræði og hlutum til að sökkva sér í. Þú ert ávallt að finna ný vopn og brynjur til að betrumbæta þig ásamt því að vinna þér inn reynslu- (XP) og hæfileikastigum. Það er stór plús að geta uppfært vopn og brynjur sem þér líst vel á og geta spilað í gegnum leikinn með uppáhalds vopnið þitt sem heldur áfram að þróast ásamt persónu þinni. Helsti vandinn við þetta, eins og í mörgum öðrum tölvuleikjum, er möguleikinn á að geta flýtt fyrir öllu með því að kaupa sérstaka flýtileið aukalega frá Ubisoft. Þetta er hlutur sem ætti ekki að vera í einmennings leikjum nema sem alger aukahlutur sem hefur ekki áhrif á heildina.

Vandinn sem sumir leikmenn geta rekist á þegar líður á leikinn er að þú ert ekki nógu öflugur til að geta haldið áfram. Eina leiðin til að bæta sig er að spila aukaefnið í leiknum (sem er mjög mikið) eða að kaupa sig áfram. Fyrir flesta verður þetta eitthvað sem þeir munu aldrei lenda í og spila í gegnum leikinn eðlilega og njóta hans eins og á að vera. Fyrir aðra sem fara hraðar í gegn eða vilja lítið kanna aukaefnið þá lenda þeir í þessari hindrun. Ég spilaði leikinn og aukaefnið í honum í rétt tæpa 80 tíma og fann líklega einu sinni fyrir freistingu að greiða fyrir $10 viðbót til að flýta fyrir. Ég gerði það ekki og hélt áfram að spila leikinn og sökkti mér dýpra í aukaefnið. Þetta er þó neikvæð þróun frá því í fyrra þar sem áherslan var lögð á að bjóða upp á alls konar hluti sem breyttu litlu fyrir spilun leiksins og voru bara til að breyta útliti persónu þinnar eða dýrsins sem þú ferðaðist um á eða til að kaupa kort til að finna vissa söfnunartengda hluti. Vonandi mun Ubisoft sjá að sér og slaka á þessu á ný þegar við fáum næsta leik, sem verður líklega í kringum árið 2020.

MEÐ SITT EIGIÐ NEMESIS-KERFI

Það er mjög áberandi að leikir eins og The Witcher og Mass Effect hafa haft áhrif á seríuna og má einnig finna áhrif Nemesis kerfisins úr Middle-Earth leikjunum, til dæmis sjáum við Mercenaries í Odyssey sem eru erfiðir hermenn sem byrja að elta þig þegar þú ert búin að valda of miklum usla.

Ein spurning sem ég velti fyrir mér á meðan ég spilaði leikinn var ;„er hægt að kalla þetta Assassin’s Creed leik?“ Það er mjög áberandi að leikir eins og The Witcher og Mass Effect hafa haft áhrif á seríuna og má einnig finna áhrif Nemesis kerfisins úr Middle-Earth leikjunum, til dæmis sjáum við Mercenaries í Odyssey sem eru erfiðir hermenn sem byrja að elta þig þegar þú ert búin að valda of miklum usla. Það er hægt að berjast við þá, drepa þann sem sendi þá eða fela þig þar til að hægist á. Þessir óvinir eiga til að birtast óvænt, ekki ólíkt því sem sést í Middle-Earth: Mordor leikjunum. Óvinirnir sem eltast við þig hafa engan persónuleika og það verða ekki þessir skemmtilegu rígar á milli þín og þeirra sem mátti finna í Nemesis kerfinu. Ef að þetta kerfi væri ekki í Odyssey myndi leikurinn ekki finna mikið fyrir því að mínu mati.

Það er nóg að taka þegar AC: Odyssey er skoðaður sem heildarpakki. Það er gríðarlega mikið efni til staðar í leiknum sem ætti að endast fólki léttilega vel yfir 100+ tíma og næg fjölbreytni er í boði. Sagan um fjölskyldu Kassöndru eða Alexios er fín að mestu og er gaman að spila sig í gegnum hana. Það er nokkrir mismunandi endar í boði þar sem valkostir þínir og atburðir úr sögunni hafa áhrif. Ubisoft hefur lofað reglulega fríu aukaefni við leikinn í formi Týndra sagna Grikklands sem innihalda þekktar persónur og eiga að koma út reglulega ásamt ýmis konar viðburðum innan leiksins sem gefur fólki möguleika að berjast við sérstaka óvini eða taka þátt í sjóorrustum þar sem hægt verður að fá ný vopn.

METNAÐARFULLUR LEIKUR MEÐ ÓÞARFA FLÆKJUM

Metnaður leiksins er gríðarlegur, bæði í stærð og spilunarmöguleikum. Stundum á leikurinn til að flækjast aðeins of fyrir sér með of mörgum mismunandi söguþráðum og hefði verið spurning um að straumlínulaga hluta leiksins til að skapa heildstæðari mynd.

Metnaður leiksins er gríðarlegur, bæði í stærð og spilunarmöguleikum. Stundum á leikurinn til að flækjast aðeins of fyrir sér með of mörgum mismunandi söguþráðum og hefði verið spurning um að straumlínulaga hluta leiksins til að skapa heildstæðari mynd. Það sem er til staðar er þó skemmtilegt, en vonandi mun næsti leikur tengja hlutina betur við AC seríuna og baráttu Assassin launmorðingjanna og Musterisriddarareglunnar og gefur þessi leikur hugmyndir um hvert serían getur farið í framhaldinu. Þó að AC: Odyssey hafi heppnast mjög vel að mestu er þó von að Ubisoft haldi sig frekar við að gefa þessa leiki út á tveggja ára fresti. Sérstaklega þegar þeir eru orðnir svona stórir um sig, annars er hætta á að leikmenn brenni hreinlega út við að spila þá reglulega.

Ég lifi enn í þeirri von um að næsti leikur eigi eftir að gerast í Japan, annað hvort Edo tímabilinu eða klassíska tímabilinu eða miðöldum. Þar er að finna mikið af efni sem tengist baráttunni á milla Assassin og Musterisriddaranna.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑