Birt þann 16. september, 2018 | Höfundur: Steinar Logi
0Leikjarýni: World of Warcraft: Battle for Azeroth
Samantekt: Betri viðbót en oft áður, en framtíðin er óljós.
3.5
Ágætis viðbót
„Just when I thought I was out they pull me back in again“ ætti að vera skrifað á legstein World of Warcraft þ.e.a.s. ef þessi nær fimmtán ára leikur deyr einhvern tímann. Þetta er ekki fyrsta sinn sem mér dettur þessi lína í hug í tengslum við WoW en núna var ég með frá upphafi nýs viðbótar, allt frá þegar Magni Bronsskeggur byrjaði að taka á móti hetjum í Silithus fyrir um mánuði síðan. Það var eitthvað við þessa viðbót sem kveikti í gamla „vanillu-wow“ spilaranum í mér, yfirleitt kaupi ég þessar viðbætur löngu eftir útgáfudag þegar Blizzard byrjar að plata gamla spilara í leikinn með ýmsum tilboðum – en ekki núna.
Þetta byrjar yfirleitt vel og maður er spenntur yfir öllum nýjungum en mig langaði að bíða í mánuð með að skrifa rýni því að þá fara línur að skýrast varðandi framhaldið og hvort að áhugi spilara haldist. Ég var t.d. illa brenndur af Warlords of Draenor og hélt að ég myndi aldrei spila þennan leik aftur en hér er ég og bara nokkuð sáttur.
Það var eitthvað við þessa viðbót sem kveikti í gamla „vanillu-wow“ spilaranum í mér
Battle for Azeroth kom út á sama tíma alls staðar í heiminum og það var ákveðin stemmning að hafa Twitch á hinum skjánum og fylgjast með frægum streymurum vera líka að stíga sín fyrstu skref (þó að flestir hafi nú spilað Betu-útgáfuna). Það voru engin vandamál á mínum miðlara en hann er langt í frá að vera fjölmennur en einhverjir lentu í vandræðum á öðrum miðlurum. Eins og vanalega náði stór hópur fljótlega þessum tíu viðbótarstyrkleikastigum frá 110 í 120 í einum löngum rykk en þeir dagar hjá mér eru liðnir. Þetta er kannski helsta vandamálið sem Blizzard glímir við því að það er ákveðinn hluti sem étur sig í gegnum innihaldið á skömmum tíma og svo er líka stór, kannski ekki eins hávær hluti, sem tekur þessu rólegu (undirritaður er einhvers staðar í miðjunni og yfirleitt endist ég ekki mikið lengur en þrjá mánuði).
Það bætast tvær nýjar eyjur við leikjaheiminn sem heita Kul Tiras sem hefur Alliance-borgina Boralus og Zandalar sem hefur Horde-borgina Zuldazar
Það bætast tvær nýjar eyjur við leikjaheiminn sem heita Kul Tiras sem hefur Alliance-borgina Boralus og Zandalar sem hefur Horde-borgina Zuldazar. Eyjarnar skiptast í þrjú þokkalega stór landsvæði og borgirnar eru mun stærri og líflegri en áður hefur verið. Sagan hefur alltaf verið stór hluti af WoW og er hún í raun tvískipt; í fyrstu lagi eru það litlu sögurnar sem eru sagðar í heiminum þegar þú leysir verkefni og styrkist og er ég mjög ánægður með þann hluta. Að vísu hef ég að mestu upplifað það sem Alliance spilari en öll verkefnin í Stormsong Valley og Drustvar voru skemmtileg en hins vegar greip byrjunin mig Horde-megin ekki eins mikið og borgin þar var erfiðari að læra að rata í. En Zandalar er flott svæði með stórum risaeðlum og tröllum (trolls). En báðar hliðarnar sjá öll svæðin, það er bara breytilegt hvar þær byrja. Fólk getur valið svokallað „War Mode“ þegar það ferðast um sem þýðir að spilarar frá hinni hliðinni sem eru líka með stillt á „War Mode“ geta ráðist á þig og þú á þá. Þetta gefur þér líka 10% fleiri reynslustig (experience).
Athugið, ekki lesa næstu málsgrein ef þið viljið ekkert vita um sögu (lore) WoW eins og staðan er í dag.
En svo er það stóra sagan (lore) sem hefur áhrif á allan heiminn og hún hefur verið að valda titringi meðal spilara. Áður fyrr hafa Blizzard reynt að hafa hlutina þannig að þetta sé spurning um sjónarmið; Horde berjast fyrir heiðri og það sem þeir líta á sem óréttlæti og Alliance eru sannfærðir að þér séu alltaf að berjast fyrir því góða en fara stundum með hlutina í öfgar sem endar yfirleitt mjög illa. Núna er mjög erfitt að finna gráu svæðin í ákvörðunum Sylvanas, leiðtoga Horde (sumir þekkja kannski „morally gray meme“ sem vísar til að Blizzard taldi þetta vera siðferðislegt spurningarmerki hjá Sylvanas sem er skrýtið orðalag miðað við grimmdina). Ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um endilega skoðið stikurnar að neðan þar sem Sylvanas fórnar t.d. heilli borg Horde til að halda andliti og brennur inni börn og konur. Ekki mikið „morally gray“ þar. En það er ekki hægt að neita því að þetta hefur vakið athygli hjá gömlum og nýjum Wow spilurum og kannski er þetta góð taktík að skapa umtal og draga fólk þannig inn. Einnig er alltaf verið að kalla eftir meiri baráttu milli Horde og Alliance og þetta svo sannarlega gerir það. Blizzard fylgdi þessu svo eftir með því að gefa út söguvídeó fyrir uppruna sjávardrottningarinnar Azhara sem er ansi gott, það er alltaf gaman af þessari „Old Gods/Lovecraft“ stemmningu (set þessa stiku einnig að neðan).
En núna er liðinn mánuður, flestir eru búnir að ná hæsta styrkleika og hvað er þá hægt að gera? Blizzard eru jú enn að rukka mánaðargjald sem fáir svona leikir geta gert í dag. Staðreyndin er að það er mikil ólga eins og er og margir óánægðir. Það er hægt að gera World Quests (WQ) sem spilarar þekkja frá Legion, þú gerir mjög stutt verkefni og færð ágætis verðlaun fyrir miðað við tíma. Einnig færðu góðvilja (reputation) frá einhverri klíkunni sem virðast renna saman í eitt núna og á endanum færðu eitthvað fínt. Ekkert nýtt þar.
Staðreyndin er að það er mikil ólga eins og er og margir óánægðir
Síðan er hægt að gera „instance“ þar sem 5 spilarar fara saman og berjast við ýmsa vonda kalla, ekkert nýtt þar heldur en sum af þessum nýju eru ágætis skemmtun. En það er nýjung að hægt er að fara með tveimur öðrum (sem þurfa ekki að vera „healer“ eða „tank“) á eyju og safna krafti fyrir nýja, flotta hálsmenið þitt sem þú fékkst frá Magna Bronsskegga, og er hlutur sem kemur í staðinn fyrir vopnið þitt frá Legion viðbótinni. Spilarar virðast frekar þreyttir á þessum leiðöngrum (sem kallast island expeditions) en þetta er ágætis og stutt afþreying sem byggir á hraða. Það sem verra er að verðlaunin frá þessum eyjaleiðöngrum og grúppuverkefnum eru oft minni en það að gera áðurnefnd WQ reglulega sem taka mun minni tíma og hafa smá séns á að gefa þér jafngóða eða betri hluti. Ég hef lent í því að berja hausinum við stein í að klára „instance“ af hæstu erfiðleikagráðu í yfir klukkutíma og svo finn ég út að hluturinn sem ég fæ í verðlaun er ekki betri en ég fékk fyrir nokkrar sekúndur í stórum hópi í WQ. Þannig að það er ákveðið ójafnvægi eins og er en það er að lagast með tilkomu „raid“ og „mythic plus“ verkefna.
Eitt af því sem spilarar hafa hlakkað til að prófa kallast Warfront og er áframhald af fyrri baráttum um ákveðið svæði, sbr. Wintergrasp í Northrend frá Lich King viðbótinni en núna er það Arathi Highlands. Það hefur byrjað vægast sagt illa og í raun skilur maður ekki hvað er stóra planið hjá Blizzard með þessu. Þetta er í raun ekki PvP (spilari á móti spilara) heldur skiptast hliðarnar á að halda svæði og þar með aðgang að „boss“ ásamt öðru sem gefur mjög góða hluti, betri en tíðkast annars staðar í leiknum. Á meðan safnar hin hliðin bolmagni (resources) til að ná aftur völdum. Það er langur dauður tími á milli svo að fólk missir hreinlega áhugann á meðan.
Eitt af því sem spilarar hafa hlakkað til að prófa kallast Warfront
Mesta skemmtunin hjá mér undanfarið, fyrir utan að ná styrkleika 120, er í raun eitthvað sem tengist ekki beint BfA en heldur samt áfram þar. Það er hægt að velja nýja karaktera (eftir að maður hefur uppfyllt ákveðin skilyrði) með nýtt útlit og hæfileika sem eru nokkuð öflugir í byrjun. Þetta kallast Allied Races sem eru nýjir bandamenn í baráttunni um Azeroth. Nokkrir eru þegar komnir út og sumir eiga eftir að koma en undirritaður hefur verið að spila Lightforged Dranaei Paladin alveg frá upphafi en maður fær sérstakt útlit fyrir þessa nýju bandamenn ef maður spilar þá til 110 . Talandi um útlit þá er það mjög vinsæll hluti af WoW í dag síðan ég spilaði síðast og fólk er mikið að fara á gamlar slóðir bara til að safna útliti (ef þú nærð vopni eða klæðum með sérstakt útlit þá fer það í fataskápinn þinn en þú getur svo selt hlutinn eftir það). Þetta minnir mann á hvað Blizzard eru miklir snillingar í að láta mann fara í gegnum gamalt innihald aftur og aftur og ég veit ekki hvað mér finnst um það. Það er gaman en það er eitthvað djöfullegt við að láta mann ýta sama steininum upp aftur og aftur.
Ef ég tek mið af ástandinu núna þá þarf ég að lækka um hálfa stjörnu miðað við hvað ég hefði gefið leiknum fyrir tveimur vikum síðan. En það hefur verið óvissa um leikinn áður og Blizzard hefur oft bjargað sig úr svoleiðis ástandi með góðum plástri og núna eru vonir bundnar við 8.1. En leikurinn er skemmtilegur eins og er fyrir undirritaðan og það er nóg að gera fyrir spilara sem eru að koma aftur eftir langa pásu.