Leikjarýni

Birt þann 4. júlí, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Leikjarýni: Red Faction: Guerrilla Re-Mars-tered Edition

Leikjarýni: Red Faction: Guerrilla Re-Mars-tered Edition Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Útlit leiksins hefur verið endurnýjað í þessari útgáfu og allt það besta úr eldri PC útgáfunni hefur einnig skilað sér.

3.5

Góður


Red Faction: Guerrilla kom upprunalega út árið 2009 á PC, PS3 og Xbox 360, leikurinn fékk fína dóma og seldist vel fyrir gamla THQ fyrirtækið. Leikurinn var hannaður af Volition sem höfðu áður gert leiki eins og FreeSpace, Summoner, Saint’s Row og fyrri Red Faction leikina.

Fyrsti Red Faction leikurinn sem kom út árið 2001 kynnti til leiks „Geo-Mod“ nýjungina sem er eyðileggingartækni þar sem leikmenn gátu sprengt upp umhverfið til að opna fyrir nýjar leiðir. Red Faction: Guerrilla tók þetta skrefinu lengra með Geo-Mod 2.0 og bauð uppá eyðileggingu á stórum byggingum og nær öllu sem þú sást, það eina sem vantaði kannski var að þú gast ekki skemmt umhverfið sjálft eins og í hinum leikjunum. En þar sem hægt var að rústa nánast öllu öðru var skiljanlegt að eitthvað yrði að fjúka í staðinn og tekið tillit til takmarkana PS3 og Xbox 360.

Saga RFG er ekkert rosalega flókin, enda þarf hún líklega ekki að vera það. Sagan hefst um 50 árum eftir atburði síðasta leiks, árið 2125 þar sem Mars er orðin lífvænleg eftir umbreytingar, nú býr fólk og vinnur á plánetunni án þess að þurfa að nota geimbúninga eða öndunartæki. Þyngdaraflið er þó ekki það sama og á jörðinni og fólk er þar af leiðandi talsvert léttara. Þyngdaraflið hefur auk þess áhrif á ýmsa hluti sem hafa áhrif á spilun leiksins.

Sagan hefst um 50 árum eftir atburði síðasta leiks, árið 2125 þar sem Mars er orðin lífvænleg eftir umbreytingar, nú býr fólk og vinnur á plánetunni án þess að þurfa að nota geimbúninga eða öndunartæki.

Í leiknum fara leikmenn í hlutverk Alec Masons sem kemur til Mars til að hitta bróður sinn Dan og hefja nýtt líf. Bróðir hans vill fá hann til að hjálpa sér og ganga til liðs við andspyrnuhreyfinguna gegn hinu illa Earth Defence Force, sem stjórna Mars með harðri hendi. Áður fyrr voru þetta góðu gaurarnir í eldri leikjum en hafa nú breyst í óvininn. Eins og við er að búast þá fara hlutirnir á aðra vegu en Alec ætlar sér og hann er komin í baráttuna áður enn hann veit af gegn EDF.

Leikmenn þurfa að leysa ýmis verkefni til að fá meiri stuðning frá fólkinu sem býr á svæðinu og ná völdum yfir þeim svæðum sem EDF stjórnar. Verkefnin eru vanalega að eyðileggja byggingar, bjarga fólki, stöðva bílalestir o.fl. Það er nóg til af vopnum til að nota og uppfæra í leiknum. Þó er sleggjuhamarinn og fjarstýrðu sprengjurnar eitthvað sem ég notaðist mest við þegar ég spilaði upprunalega leikinn og gerði það aftur í þetta skiptið. Byssurnar eru ágætar, en ekki mikið meira en það. Skemmtilegustu verkefnin eru litlu þrautirnir þar sem þú færð takmarkaðan aðgang af vopnum og sprengjum og þarft að finna leið til að fella niður byggingu eða eyðileggja hana á sem hagkvæmastan hátt, til dæmis með einni byssukúlu.

Hvað er svo nýtt í Red Faction: Guerrilla Re-Mars-tered Edition? Útlit leiksins hefur fengið endurnýjun og hefur allt það besta úr eldri PC útgáfunni hefur skilað sér ásamt bættum skuggum, lýsingu í heiminum, ásamt öðru til að gera leikinn flottari. Á PC styður leikurinn 4k upplausn og 60+ fps ef þið hafið vélbúnaðinn til þess. Á PS4 keyrir leikurinn á 1080p á 60fps, á PS4 Pro er hægt að velja á milli 1500p á 60fps eða 3k á 30 fps. Á Xbox One er leikurinn að keyra í 900p á 60 fps og á Xbox One X er leikurinn að rúlla á 1800p á 60 fps og 4k á 30 fps.

Allt það aukaefni sem hefur verið gefið út er innifalið í pakkanum, það á bæði við söguhlutann „Demons Of The Badlands“, sem er forsaga leiksins, ásamt fjölspilunarefni sem bætir við nýjum borðum og leikjategundum.

Allt það aukaefni sem hefur verið gefið út er innifalið í pakkanum, það á bæði við söguhlutann „Demons Of The Badlands“, sem er forsaga leiksins, ásamt fjölspilunarefni sem bætir við nýjum borðum og leikjategundum. Fjölspilun leiksins var oft skemmtileg og er hún hérna í heild sinni, uppáhaldshlutinn minn var þó Wrecking Crew sem er einnig til staðar. Þar er takmarkið að valda sem mestum usla innan ákveðins tíma og ná sem flestum stigum og rétta síðan vinunum fjarstýringuna eða lyklaborðið og sjá hvort að þeir geta toppað það.

Leikurinn á til að vera gráleitur eða brúnleitur á köflum og er enn í dag ekki endilega mikið fyrir augað. Sum fyrirfram hönnuðu myndbrotin hafa ekki verið uppfærð og líta út fyrir að vera 9 ára gömul. Eins og er á leikurinn til að hökta smá í 4k stillingunni en í 60 fps á PS4 Pro þar sem ég spilaði leikinn var þetta almennt mjög fínt. Það hefði verið gaman að sjá erfiðleikastillingu leiksins aðeins slípaða, þar sem leikurinn á til að láta óvini birtast fyrir aftur þig reglulega þegar hasarinn verður mikill. Þegar er liðið á síðari hluta leiksins getur þetta stundum verið ergjandi þegar þú ert að reyna að klára söguverkefni.

Það er mjög ánægjulegt að þeir sem eiga upprunalega leikinn á Steam fá nýju útgáfuna frítt í safnið sitt án fyrirhafnar. Annars kostar leikurinn um $30 eða um 3.300 kr. og þýðir það vonandi 4-5k verð hér á landi. Það er nóg að gera í leiknum og enn meira þegar fjölspilun og öðru er bætt við.

Það sem stóð upp úr árið 2009 gerir það enn þann dag í dag, um 9 árum síðar.

Það sem stóð upp úr árið 2009 gerir það enn þann dag í dag, um 9 árum síðar. Gaman er að ráfa um Mars og sjá hve miklum usla þú getur valdið og dundað þér svo við að sprengja byggingar í frumeindir. Þessi hluti leiksins hefur elst einna best og maður verður hreinlega spenntur að hugsa til þess hvað væri hægt að gera með nútímatækni með nýjum leik.

THQ Nordic hafa verið að endurútgefa eldri leiki gamla THQ fyrirtækisins eins og Darksider til að undirbúa og athuga áhugann fyrir nýjum leikjum, við vonum að þetta verði til að við fáum loks nýja Red Faction leik, við teljum Armageddon dæmið ekki með.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑