Leikjarýni Super Mario Odyssey kápan

Birt þann 14. desember, 2017 | Höfundur: Daníel Rósinkrans

Leikjarýni: Super Mario Odyssey – „Super Mario, súper stjarna!“

Leikjarýni: Super Mario Odyssey – „Super Mario, súper stjarna!“ Daníel Rósinkrans

Samantekt: Super Mario Odyssey er klárlega einn skemmtilegasti leikur ársins sem ætti ekki að svíkja neinn!

5

Stórkostlegur


Einkunn lesenda: 4.6 (5 atkvæði)

Nýjasti leikurinn í Super Mario seríunni, Super Mario Odyssey, kom út fyrir Nintendo Switch leikjatölvuna síðastliðinn október og hefur fengið frábærar viðtökur.

Meira en sjö ár eru liðin frá því Mario skartaði sínum eiginn þrívíddarleik, (Super Mario 3D World leikirnir eru þá ekki teknir með í reikninginn). Á þeim hvílir alltaf ákveðin pressa þar sem leikirnir hafa ávallt kynnt til sögunnar nýjungar í spilun sem setur leikina á háan stall, að minnsta kosti ofar en aðrir 3D hopp og skopp leikir.

Hefur Mario tekist að viðhalda titlinum eftir öll þessi ár? Sjáum nú til.

Nú er Mario tími! 

Ef einhver skyldi nú gera sér miklar vonir yfir söguþræði í Super Mario leik verður viðkomandi fyrir miklum vonbrigðum. Mario leikirnir hafa einungis verið þekktir fyrir frábæra spilun og skemmtun þar að auki. Samt sem áður finna Nintendo sig knúna til þess að keyra leikina á söguþræði sem er auðvitað hið besta mál. Mario verður, jú, að hafa einhvern tilgang til þess að bjarga prinsessunni í enn eitt skiptið.

Í þessu tilfelli hefur Krókur kóngur (Bowser) rænt prinsessu Peach enn eina ferðina og ætlar sér að giftast henni. Eins brenglað og það hljómar í nútíma samfélagi.

Mario verður að gera allt sem í honum býr til þess að stöðva brúðkaupið og hittir þar furðuveru í för sinni, er heitir Cappy, sem býr yfir þeim undarlegu kröftum að geta breytt sér í hatta. Þar kemur einmitt grundvöllur spilunar leiksins við sögu.

Super Mario Odyssey 1

Mario Odyssey er jafn skemmtilegur og hann lítur út fyrir að vera. Jafnvel enn þá betri þegar maður gefst tækifæri á að prófa hann.

Töfrar Nintendo í formi þrívíddar hopp og skopp leiks fá virkilega að njóta sín á hverju einasta augnabliki. Það er eitthvað svo heillandi að sjá Mario á ný með sömu hreyfingarnar frá Super Mario 64 og Mario Galaxy, nema að þessu sinni í nýju umhverfi.

Nýjungarnar í spiluninni að þessu sinni er hatturinn Cappy sem gerir Mario kleift að breyta sér í alls kyns verur og hluti með því að kasta hattinum í þau. Samstundis breytist Mario í viðkomandi óvin eða hlut, allt frá Goomba, Bullet Bill, Hammerbro, jafnvel skriðdreka eða aðrar furðuverur sem breyta spiluninni á skemmtilegan hátt.

Með fyrrnefndum kröftum getur spilarinn nýtt sér fjölbreytilegar aðferðir til þess að ná sem flestum tunglum sem er einmitt tilgangur leiksins. Í stað þess að safna stjörnum líkt og öllum öðrum Mario leikjum hafa Nintendo ákveðið að breyta til þar sem Mario safnar ofur-tunglum (Power Moons) að þessu sinni. Ofur-tunglin eru notuð til þess að knúa flugskipið hans Mario sem hann notar til þess að ferðast á milli heima og elta Bowser uppi.

Fjölmörg ofur-tungl eru að finna í leiknum sem ætti að halda öllum aðdáendum hopp og skopp leikja uppteknum í mjög langan tíma. Líkt og kom fram hér að ofan nýtir Mario ofur-tunglin til þess að ferðast á milli heima sem hafa einmitt að geyma fjölmörg ofur-tungl sem krefja spilarann að kanna nýjar aðferðir til þess að ná sem flestum. Sum þeirra geta þó verið ansi erfið og býður leikurinn sem betur fer upp á vísbendingar sem hægt er að notfæra sér með því að borga gullpeninga sem finnast í leiknum.

Engin aukalíf eru að finna í Mario Odyssey sem er svolítið furðulegt til að byrja með. Það gerir að verkum að spilarinn mun aldrei sjá orðin „Game Over“ bregða fyrir á skjánum, ólíkt öðrum Mario leikjum. Enda er einungis verið að leggja áherslur á skemmtunargildið og hann gerir það svo sannarlega vel. Í stað þess að missa líf og þurfa að byrja upp á nýtt á tilteknu borði missir spilarinn 10 gullpeninga sem eru notaðir til þess að kaupa föt og aðra búninga á Mario.

Super Mario Odyssey 1

Einfaldleikinn í Super Mario Odyssey er eitthvað sem heillar alveg frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Stýringarnar eru virkilega einfaldar og ætti hver sem er að geta gripið Switch stýripinna og notið hans frá fyrstu mínútu. Hins vegar getur verið erfitt að tileinka sér einstök brögð í leiknum sem hægt er að ná góðum tökum á til lengri tíma. Hreyfigetur (Motion control) Joy-Con stýripinnana koma oft við sögu sem gerir hreyfingarnar mun sveigjanlegri en ella.

Aldrei áður hefur Mario leikur skartað jafn mörgum höttum sem og annarra fata sem Mario getur klæðst. Það er eitthvað svo einstaklega heillandi að klæða hann með ólíkum samsetningum sem þjóna litlum tilgangi annað en að láta Mario líta vel út. Sum ofur-tungl eru eingöngu fáanlega með því að klæðast ákveðnum samsetningum.

Leikurinn keyrir alveg einstaklega vel á Nintendo Switch, hvort sem maður spilar leikinn á lófatölvu eða í sjónvarpinu heima í stofu. Heimarnir sem Mario heimsækir líta virkilega vel út þar sem hver og einn heimur býður upp á skemmtilega uppákomu séu þeir grandskoðaðir vel. Aldrei hefur Mario leikur verið eins opinn og Odyssey þar sem ofur-tungl leynast víða og verðlauna forvitna spilara sem eru reiðubúnir að fórna tíma í leit að þeim.

Bæði tónlist og önnur hljóð eru til fyrirmyndar. Enga talsetningu er að finna í leiknum,  fyrir utan lagið Jump Up, Super Star! sem bregður fyrir í leiknum í New Donk City. Enda hafa Nintendo  verið lítið fyrir talsetningar sem er hið besta mál fyrir leiki á borð við Mario.

Super Mario Odyssey 3

Super Mario Odyssey er klárlega einn skemmtilegasti leikurinn sem hefur komið út á þessu ári. Það kom aldrei sá tími að manni leiddist spilunin, ekki nema þegar örfá ofur-tungl virtust ómöguleg að finna sem reyndust vera beint fyrir framan nefið á manni þegar vísbendingarnar voru notaðar.

Leikurinn er klárlega skyldueign í safnið og ætti enginn Switch eigandi að láta þennan titil fram hjá sér fara, sérstaklega ef hopp og skopp leikir eru í uppáhaldi hjá þeim.

Eftir útgáfu Super Mario Odyssey er alveg bókað mál að árið 2017 hefur verið gott fyrir leikjaunnendur, hvað þá Nintendo aðdáendur.

Við fögnum þessum breytingum á Nintendo titlunum og vonum innilega að leikjarisinn haldi sig á þessari braut, líkt og þeir hafa gert með nýrri útgáfu af Zelda, og að þessu sinni Super Mario.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑