Birt þann 7. júlí, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Svifbretti, brennó og fótbolti – Íslenskar íþróttahetjur í tölvuleikjum
Nú þegar íslenska landsliðið hefur snúið heim frá EM í fótbolta er rétt að rifja upp nokkur íslensk íþróttarafrek í heimi tölvuleikjanna. Húh!
Íslenska landsliðið á EM 2016
Hægt er að spila sem íslenska landsliðið í UEFA Euro 2016 viðbótinni fyrir fótboltaleikinn Pro Evolution Soccer 2016, eða PES 2016. Í leiknum klæðast íslensku fótboltahetjurnar okkar nýja landsliðsbúningnum frá KSÍ. Þar sjáum við Hannes markmann, Ragnar Sigurðsson, Gylfa Sigurðsson, Birki Bjarnason, Eið Smára og fleiri þekktar íslenskar fótboltastjörnur.
Íslenska landsliðið árið 2000
Íslenska landsliðið í fótbolta hefur verið sýnilegt í fleiri fótboltaleikjum og má þar nefna Dreamcast leikinn UEFA Dream Soccer frá árinu 2000. Liðið er ekki nákvæm eftirlíking af þáverandi landsliði Íslands en í leiknum má meðal annars finna þrjá leikmenn með nafnið Goodjonsun, og aðra snillinga eins og Hraidusun og Goodmundsun. Eftirnafn íslenskra leikmanna hefur augljóslega eitthvað flækst fyrir leikjahönnuðum leiksins en það var breska leikjafyrirtækið Silicon Dreams Studio sem stóð á bakvið gerð leiksins
Ískaldur brennó
Í brenniboltaleiknum Super Dodge Ball frá árinu 1987 eru Íslendingar með sitt eigið lið, sitt eigið borð og sína eigin þematónlist. Leikurinn var upphaflega gefinn út á spilakassa en hefur síðan þá verið gefinn út á nokkrum leikjatölvum, þar á meðal NES. Í dag er hægt að nálgast PlayStation 4 útgáfu af leiknum í gegnum PlayStation Store. Það er massinn Helgi sem leiðir þetta ískalda lið en með honum í liði eru þeir Knut og Hans. Hver Íslendingur ætti að tengja við íslenska borðið í leiknum þar sem allt er þakið klaka og mörgæsir hvetja leikmenn áfram. Alveg yndislegt. Hér er svo hægt að hlusta á þemalag Íslands í leiknum.
Þýsk-íslenskur víkingur á svifbretti
Í Dreamcast svifbrettaleiknum TrickStyle frá árinu 1999 er að finna þýskan víking að nafni Max sem á trúlega rætur að rekja til Íslands. Landafræðin hefur eitthvað verið að flækjast fyrir leikjahönnuðum leiksins þar sem fram kemur að heimabær Max sé Neskaupstadur – í Þýskalandi! En við vitum betur. Neskaupstaður er auðvitað á Íslandi og Max er okkar íþróttastjarna í svifbrettaleikum framtíðarinnar! Það kemur reyndar nokkuð skýrt fram í bæklingnum sem fylgir leiknum að Max, eða Magnus eins og hann heitir réttu nafni, sé frá Þýskalandi. Mögulega er hann þó hálfur Íslendingur? Tilgátur og samsæriskenningar tengdar Max eru vel þegnar í kommentakerfinu hér fyrir neðan!
Forsíðumynd: PES 2016 (EURO 2016) og TrickStyle.
Mynd af Max fengin úr bæklingi sem fylgdi leiknum.