Spil

Birt þann 4. maí, 2016 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Spilarýni: Hanabi

Spilarýni: Hanabi Magnús Gunnlaugsson

Samantekt: Hanabi krefst rökhugsunar, trausts og góðs minnis. Þetta er spil sem er ótrúlega einfalt að læra en erfitt að sigra.

4

Skemmtilegt


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Íslendingar eru að einhverju leyti heimsfrægir fyrir að tapa sér í gleðinni á gamlárskvöld dúndrandi upp rakettum, veifandi stjörnuljósum og blysum . Við söfnumst saman og horfum á skipulagðar flugeldasýningar og dáumst að litadýrðinni sem skipuleggjendur hafa lagt á sig að gera sem stórfenglegasta.

Þetta getur þó allt saman verið hægara sagt en gert því slíkt krefst skipulags og samvinnu en í Hanabi gefst leikmönnum tækifæri á að setja saman sína eigin flugeldasýningu.

Hanabi_02Hanabi er samvinnu spil fyrir tvo til fimm leikmenn. Markmið leiksins er að setja saman flugeldasýningu úr fimm mismunandi litum með spilum merktum frá einum og uppí fimm, rétt eins og maður væri að leggja kapal. Hljómar einfalt en það er mun erfiðara en þig grunar.

Hver leikmaður fær fjögur spil á hendi, m.v fjögurra og fimm manna leik, en snýr þeim frá sér! Hver leikmaður sér því einungis spil meðspilara sinna en aldrei sín eigin! Spilið endar ýmist þegar leikmenn ná fullkominni sýningu s.s 25 stig, þegar síðasta spilið er dregið úr stokknum og allir leikmenn hafa gert einu sinni eftir það, eða menn hafa gert þrjú mistök og sprengjuþráðurinn er brunninn upp til agna.

Þegar leikmaður á leik hefur hann einungis um þrjá hluti að velja.

  1. Gefa vísbendingu: Leikmenn byrja með átta vísbendingatákn. Kjósi leikmaður að gefa vísbendingu bendir hann á eitt eða fleiri spil sem eru af ákveðnum lit eða með ákveðna tölu. T.d „Þessi tvö eru blá spil“ eða „Þessi þrjú eru tvistar“.
  2. Hent spili: Leikmaður velur spil af hendi og setur í kastbunkann. Með því að henda spili fá leikmenn vísbendingatákn til baka.
  3. Lagt niður spil: Leikmaður velur spil af hendi sem vonandi passar í flugeldasýninguna. Spilið ratar alltaf á réttan stað ef það passar í kapalinn. Ef spilið er hinsvegar núþegar á borðinu eða lagður er út þristur á undan tvisti styttist í sprengjuþræðinum. Leikmenn mega gera þrjú mistök áður en spilið endar og leikmenn hafa tapað.

Hanabi_01Hanabi krefst rökhugsunar, trausts og góðs minnis. Þetta er spil sem er ótrúlega einfalt að læra en erfitt að sigra. Mér og mínum spilafélögum hefur enn sem komið er ekki tekist að ná fullkomnum leik þrátt fyrir að hafa spilað þetta margsinnis. Það sem heillar mig mest við þetta er rökhugsunin sem felst í því að draga ályktanir af því hvaða spil þú ert með á hendi m.v þau spil sem aðrir leikmenn hafa, spil sem eru nú þegar í borði, hefur verið kastað af hendi og þær vísbendingar þú hefur fengið. Útilokunaraðferðin kemur því að góðum notum hér.

Hinsvegar þrátt fyrir að vera samvinnnuspil, og í samvinnuspilum er fólk hvatt til að ræða saman, þá getur Hanabi verið merkilega þögult spil. Ástæðan er sú að menn eiga helst ekki að blaðra um þau spil sem aðrir leikmenn hafa nema í gegnum vísbendingar.

Þetta var valið spil ársins (Spiel des Jahres) árið 2013 og á því réttilega sess í hvaða spilasafni sem er. Það er einfalt, skemmtilegt og krefjandi.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑