Birt þann 22. apríl, 2016 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
Sega Mega Drive safnið endurútgefið á Steam
Aðdáendur gömlu góðu Sega Mega Drive tölvunnar hafa núna ástæðu til að fagna en Sega kynnti í vikunni nýjan leikjaframenda sem kallast Sega Mega Drive Classics Hub og mun vera aðgengilegur í gegnum Steam frá og með 28. apríl. Sega Mega Drive Classics Hub mun gefa spilurum aðgang að öllum klassísku leikjunum sem Mega Drive vélin hafði upp á að bjóða, ásamt útgáfum sem spilarar geta breytt og bætt í gegnum Steam Workshop umhverfið.
Sega Mega Drive Classics Hub er sett upp með nýjum framenda sem birtist sem þrívítt og gagnvirkt herbergi í anda tíunda áratugarins þar sem spilarinn getur safnað og geymt leikina sína ásamt öðrum Sega tengdum varningi. Hægt verður að spila fjölspilunarleiki við vini í gegnum framendann og Sega fullyrðir að allir leikir spilist rétt eins og þeir gerðu á gömlu vélunum. Einnig mun Classics Hub styðja notkun fjarstýringa og gefa möguleika á því að betrumbæta grafík á völdum leikjum fyrir þá sem vilja.
Ekki er búið að gefa upp verðmiðann að aðgangi að Classics Hub, né heldur hvað leikirnir og þeir aukahlutir sem verða í boði munu kosta, en sem stendur eru þó nokkrir endurútgefnir Sega leikir að fara á um 3$ á Steam í dag, og hægt er að fá þá fyrir minna ef nokkrir eru keypti saman í pakka. Þeir Steam notendur sem eiga slíka Mega Drive leiki á Steam munu geta bætt þeim við Classics Hub án neins tilkostnaðar.
Nú þegar eru tugþúsundir aðdáenda Mega Drive leikjana um allan heim að spila þá með hermiforritum ókeypis og með góðum árangri. Því verður forvitnilegt að sjá hvort Sega Mega Drive Classics Hub muni hafa eitthvað nýtt fram að bjóða sem hefur hingað til verið spilurum óaðgengilegt.