Fréttir

Birt þann 20. apríl, 2016 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

Dark Souls borðspil safnar 88 milljónum króna á fjórum dögum

Það er augljóst að fólk hefur mikinn áhuga á að spila Dark Souls utan hins stafræna miðils sem hann hefur hingað til aðeins verið aðgengilegur á. Fyrir fjórum dögum síðan var Kickstarter herferð sett í loftið þar sem hægt er að tryggja sér Dark Souls borðspil fyrir tæpar 15.000kr. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa þegar rúmlega 6000 manns tekið þátt í fjármögnuninni sem stendur nú í 88 milljónum króna, sem er um tífalt hærri fjárhæð en farið var fram á til að byrja verkefnið, en það takmark náðist aðeins 3 mínútum eftir að herferðin fór í loftið. Steamforged Games Ltd. eru hönnuðir spilsins en þeir gáfu út spilið Guildball á Kickstarter árið 2014. 

Borðspilið sjálft er ætlað 1-4 spilurum og spilast að mörgu leyti eins og Dark Souls tölvuleikirnir. Spilararnir lenda í nýjum og stigmagnandi hættum og safna betri búnaði eftir því sem lengra er farið. Að lokum þurfa þeir svo að takast á við einn af tveim mögulegum erkióvinum í bardaga upp á líf og dauða til að sigra spilið, en að sjálfsögðu eiga spilararnir möguleika á því að deyja, missa allt dótið sitt og byrja á byrjunarreit. Annars væri spilið varla í anda Dark Souls.

Nokkur af þeim plastmódelum sem fylgja með spilinu.

Spilið lítur ótrúlega vel út með um 30 flottum plastmódelum og yfir 100 spjöldum með vopnum, fjársjóðum og viðburðum. Steamforged fullyrða að spilið muni hafa mikla endurspilunarmöguleika þar sem uppsetning spilsins er að miklu leyti handahófskennd og erfiðleikastigið er breytilegt, en þar með ætti spilið að henta bæði nýjum spilurum og hörðum spilanördum.

Kickstarter herferðin er opin til 16. Maí og því er nægur tími til að tryggja sér eintak. Hér fyrir neðan má sjá stutt myndband sem lýsir hvernig spilun Dark Souls borðspilsins gengur fyrir sig.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑