Birt þann 29. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins
Hvað mun PlayStation VR kosta á Íslandi?
Bjarki Þór Jónsson skrifar:
Þegar PlayStation 4 og Xbox One leikjatölvurnar voru væntanlegar á markað skoðuðum við hjá Nörd Norðursins verðlag á leikjatölvum og tölvuleikjavörum og reiknuðum þannig út líklegt verð á nýju leikjatölvunum hér á Íslandi árið 2013, áður en tölvurnar fengu staðfestan verðmiða hér á landi. Við vorum nokkuð nálægt raunverulega verðinu, þó PlayStation 4 hafi endað á að vera nokkuð ódýrari en okkar ágiskun, sem er bara gott mál. Nú ætlum við að endurtaka leikinn með PlayStation VR og skella íslenskum gisk-verðmiða á græjuna!
Við munum nota bresku Amazon netverslunina og Elko raftækjabúð á Íslandi til samanburðar þar sem báðar verslanir eru nokkuð vel þekktar fyrir hagstætt vöruverð.
PlayStation VR
Uppgefið verð á PlayStation VR er $399 Bandaríkjadali / €399 Evrur / £349 Bresk pund (fer eftir því í hvaða landi græjan er keypt). Þetta gera í kringum 50 til 60 þúsund íslenskar krónur á núverandi gengi. Undanfarin ár hefur álagning á PlayStation 4 leikjatölvunni verið heldur lítið hér á Íslandi, sérstaklega miðað við margan annan varning. Sem dæmi þá kostar 500 gb. PlayStation 4 af Amazon.co.uk 286 pund í dag (ca. 51.000 kr.) á meðan sama vara kostar 65.000 kr. í Elko – eða u.þ.b. 27% dýrari. Svo það munar sáralitlu þarna á milli ef allur kostnaður (tollur og sendingarkostnaður) er tekinn með í dæmið.
Tökum fleiri dæmi. PS4 fjarstýring kostar 45 pund (ca. 8.000 kr.) á Amazon.co.uk og 11.995 kr. í Elko – eða u.þ.b. 50% dýrari. Þráðlaust heyrnatól fyrir PS4. Á Amazon.co.uk kosta heyrnatólin 65 pund (ca. 11.600 kr.) en 19.995 kr í Elko – eða u.þ.b. 72% dýrar. PlayStation Eye fyrir PS4 kostar 39 pund (ca. 7.000 kr.) í sömu Amazon verslun en 10.995 í Elko – eða u.þ.b. 57% meira. Fjórða og seinasta dæmið sem við ætlum að skoða er á nýlegum tölvuleik í PS4. Leikurinn EA SPORTS UFC 2 kostar 40 pund (7.200 kr.) á PS4 hjá Amazon en 12.995 kr. í Elko – eða u.þ.b. 80% meira.
Á þessum dæmum sjáum við að hlutir fyrir PS4 kosta í kringum 50-80% meira hér á landi en í Bretlandi.
Á þessum dæmum sjáum við að hlutir fyrir PS4 kosta í kringum 50-80% meira hér á landi en í Bretlandi. Uppgefið verð í Bretlandi fyrir PlayStation VR er 349 pund, eða í kringum 63.000 kr. Ef við miðum við þessa 60-80% verðaukningu milli landa ætti PlayStation VR að kosta á bilinu 100-113.000 kr. Ég gæti trúað því að Sena, umboðsaðili PlayStation á Íslandi, reyni að halda verðinu á græjunni niðri svo hún seljist betur en þó ekki jafn langt niðri og með leikjatölvuna sjálf (sem verið er að selja með lítilli sem engri álagningu í dag). Ég hef trú á því að PlayStation VR lendi þarna á milli (þ.e.a.s. milli álagningu á leikjatölvunni sjálfri og PS4 aukahlutum) og verði því með u.þ.b. 40-50% verðmismun miðað við breska verðið, eða u.þ.b. 88-95.000 kr.
Við skjótum á: 88.999 kr.
Allur pakkinn dýrari
Nauðsynlegt er að eiga PlayStation 4 myndavélina svo að PlayStation VR virki með PS4 og er myndavélin seld sér (ekki hluti af PlayStation VR pakkanum). Myndavélin kostar í dag 10.995 kr í Elko. Einnig er mælt með því að eiga PlayStation Move þar sem sumir VR-leikir munu styðjast við þann aukahlut. PlayStation Move er ekki fáanlegt í Elko eins og er en á Amazon.co.uk kostar stykkið 30 pund (ca. 5.400 kr.) og kostar trúlega í kringum 8.000 kr. til Íslands og svo bætist við álagning hjá versluninni.
Það segir sig sjálft að ef kaupandi PlayStation VR þarf einnig að kaupa myndvélina og Move hækkar verðið á pakkanum töluvert. Ef við höldum okkur við áðurnefnt gisk-verð á PlayStation VR og bætum við myndavélinni og tveimur Move pinnum er verðið komið upp í u.þ.b. 116.000 kr.
Við skjótum á: 115.999 kr.
Möguleg pakkatilboð?
Vonandi nota verslanir þetta tækifæri til að bjóða PlayStation 4 eigendum upp á einhverskonar pakkatilboð
Vonandi nota verslanir þetta tækifæri til að bjóða PlayStation 4 eigendum upp á einhverskonar pakkatilboð, t.d. ; PlayStation VR með myndavélinni og Move stýripinnum. Með góðu verði myndu fleiri mögulega kaupa allan pakkann í sömu verslun, svo þetta er svona win-win dæmi, fyrir verslunina og neytendur. Það væri þó ekki hægt að bjóða upp á mjög sterkan pakkadíl þar sem heldur lítil álagnin væri á PlayStation VR. Segjum því að einn Move pinni fylgi frítt með tilboðspakkanum.
Við skjótum á: 107.999 kr.
Dýrara – en betri trygging
Trúlega verður PlayStation VR a.m.k. 20-30.000 kr. dýrari hér á Islandi en í Bretland – sem getur verið heil eða hálf utanlandsferð. Ef verðið verður mikið hærra hér á landi getur verið að það borgi sig að kaupa vöruna í gegnum vefverslanir á borð við Amazon. Hægt er að forpanta PlayStation VR á bresku Amazon og kostar varan með öllum gjöldun til Íslands í kringum 439 pund, eða 78.700 kr. (með breskri kló).
Það má þó ekki gleyma því að ef tækjabúnaðurinn bilar er maður í aðeins betri málum hér á Íslandi. Við erum með 2 ára ábyrgð á raftækjum í staðin fyrir 1 ár hjá t.d. Amazon UK og ef tækið bilar getum við farið með það sjálf í búðina, í stað þess að þurfa borga háa upphæð í sendingarkostnað.
Allt hefur þetta sína kosti og galla. Nú bíðum við bara spennt að sjá raunverulega verðmiðann þegar PlayStation VR kemur í verslanir í október á þessu ári.
Myndir: PlayStation VR