Birt þann 1. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Tölvuleikjasýning í Tekniska Museet í Stokkhólmi
Í febrúar fór ég í Tekniska Museet, í Stokkhólmi í Svíþjóð, þar sem leikjasýningin Game On 2.0 var í gangi, en hefur hún verið framlengd til 28. september næstkomandi (hún átti upphaflega að vera til 27. apríl). Til þess að komast þangað með almannasamgöngum þarf að taka strætó númer 69 frá t.d. Sergels torgi (ef maður er í miðborginni) að stoppistöðinni Museiparken en þar eru nokkur önnur söfn í grendinni og hliðina á Tekniska Museet er Löggusafnið. Það kostar 120 sænskar krónur fyrir fullorðna og fyrir 7-19 ára eru það 40 krónur en fyrir 6 ára og yngri er ókeypis.
Þessi leikjasýning státar af yfir 100 spilanlegum leikjum, allt frá Pong til Knack á PlayStation 4. Þarna eru gamlir spilaskápar til sýnis, kúluspil og aragrúi af leikjatölvum sem maður hefur ekki einu sinni heyrt um hvað þá séð áður. Maður furðaði sig á því hversu margir leikir voru spilanlegir en stundum var sumt ekki að virka sem var alveg skiljanlegt. Sýningin er vel skipulögð og er skipt niður eftir réttri tímaröð, að mestu leyti, í hverju rými eru vélar og hlutir til sýnis með skiltum á bæði sænsku og ensku sem fræddu mann um uppruna leiksins. Eftir því sem leið á sýninguna voru mun færri skilti og ef það voru skilti þá var þetta oftast samantekt á því sem var til sýnis í hverju rými. Þetta er vel blandað varðandi hvað var til sýnis og hvað var spilanlegt, í sumum herbergjum var þetta blandað og svo komu inná milli herbergi þar sem allt var spilanlegt.
Ég mæli með þessari sýningu fyrir leikjanördið ef það vill svo til að það verði statt í Stókkhólmi í Svíþjóð á næstu mánuðum. Sjálfur hefði ég viljað hafa einhvern með mér til að spila við en þrátt fyrir það var gaman að skoða þetta allt saman. Svo er líka fullt af öðrum hlutum til þess að skoða á safninu og því gott að mæta snemma. Safnið opnar klukkan 10:00 virka daga en klukkan 11:00 um helgar. Safnið lokar klukkan 17:00 en klukkan 20:00 á miðvikudögum.
Myndir
Game On 2.0 sýningin hjá Tekniska Museet | Listi yfir alla leikina sem eru til sýnis (pdf)
Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.