Birt þann 15. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Child of Light
Þegar ég setti Child of Light í gang í tölvunni í fyrsta skipti vissi ég ekkert um þennan leik. Þegar ég byrjaði að spila leikinn hélt ég að þetta yrði bara venjulegur tvívíddar indí leikur. Child of Light fjallar um prinsessuna Aurora sem lendir í dái og vaknar í heiminum Lemuria. Til að komast aftur heim þarf Aurora að endurheimta sól, tungl og stjörnur Lemuria sem að svarta drottningin Umbra hefur rænt.
Leikurinn er mjög fallegur og er umhverfið, bakgrunnurinn og karakterarnir mjög fallegir. Heimurinn, útlitið og fílingurinn yfir öllum leiknum minnir á hinar klassísku ævintýrasögur. Það er mjög gaman að fljúga um heiminn og skoða hann, fullt af leyni svæðum og áhugaverðum hlutum að skoða. Fólkið í leiknum talar einnig í rímum sem er skemmtilegt en getur á tímum verið svolítið þvingað. Tónlistin í leiknum er flott en ekkert stórkostleg og allt sem er sagt í leiknum er textað svo að þeir sem hafa áhuga geta spilað leikinn án hljóðs og notið þess.
Bardagakerfi leiksins er týpískt JRPG kerfi eins og t.d. í Final Fantasy leikjunum eða nýlega í South Park The Stick of Thruth. Það er að vísu nýr eiginleiki þar sem maður getur notað hægri stýripinnann og valið óvini til þess að hægja á og því kemur mikil taktík í leikinn um hvern maður eigi að velja og hvenær. Hinsvegar getur maður séð alla óvini sína áður en þeir ráðast á mann og þess vegna valið til um hvort maður vilji berjast við þá eða hörfa frá þeim og sleppa bardaganum. Í leiknum hækkar maður um hæfnisþrep (level up) þannig að sniðugra er að byrja á léttum óvini og hækka sig upp og gera karakterana sína betri og gefa þeim mismunandi krafta. Einnig þarf maður að læra á óvinina t.d. hvaða árásir virka vel á þá og hvenær maður á að nota galdra á þá.
Ég persónulega hef mjög gaman af bardagakerfinu í leiknum og hæfnisþrepa-kerfinu. Margir leikir lenda í þeim vandræðum að bardagakerfið er gott en að ferðast um heiminn getur verið leiðinlegt, eða öfugt. Þessum leik tekst hins vegar að gera báða hluti vel og sagan er einnig mjög skemmtileg. Hann er kannski heldur til stuttur en þá getur maður bara spilað hann oftar í gegn. Vel þess virði að eyða einungis 15 dollurum í og jafnvel meira.
Höfundur er Elmar Víðir Másson,
fastur penni á Nörd Norðursins.