Leikjarýni

Birt þann 8. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: South Park: The Stick Of Truth

Ó hvað ég hef beðið eftir þessum leik og þessar frestanir á honum hafa bara gert mann enn æstari, en hann kom loksins út! Maður byrjar sem nýr krakki í hinum stórundarlega bæ South Park. Aðalpersónur þáttanna eru að LARPa þar sem sá sem hefur „The Stick of Truth“ ræður öllu í LARP-inu. Maður byrjar á því að hitta Cartman og hann útskýrir þetta allt fyrir manni, en það sem kemur fyrir er að prikið hverfur og þá er nýi krakkinn sendur í málið.

Maður byrjar leikinn á því að geta valið sér mismunandi flokka (class) eftir því hvernig maður vill spila leikinn og þeir eru kempa (warrior), þjófur (thief), galdramaður (mage) og….. Gyðingur (Jew)! Ég tók þá ákvörðun að velja kempuna eins og ég geri í svona 90% tilvika, en mig langar mjög að spila leikinn aftur og prófa að velja gyðinginn. Ég hef reyndar heyrt það að það sé hættulega lítill munur milli flokka.

South_Park_01

Grafíkin í leiknum lítur nákvæmlega eins út og í þáttunum, ekki einhver léleg þrívídd eins og var t.d.í gamla leiknum á N64. Leikurinn spilast eins og klassískur JRPG þar sem það er „turn based combat“ kerfi sem ræður ríkjum þar sem leikmenn skiptast á að framkvæma aðgerðir. Nema það er komið skemmtilegt tvist á það þar sem maður þarf að ýta á takkana á réttum tíma eða í réttri röð til að úthella sem mestum sársauka. Bardagarnir eru mjög skemmtilegir og eru allar mismunandi tæknirnar mjög fyndnar og uppfullar af húrmornum sem einkenna þættina. Maður er alltaf spenntur að fara í næsta bardaga og sjá hvaða tæki nýjir mótherjar nota. Einnig held ég að það sé mjög auðvelt að geta komist í gegnum bardagana í þessum leik þrátt fyrir að maður hafi ekki mikla reynslu af leikjum þar sem það er alltaf hægt að lesa hvernig maður gerir árásirnar áður en maður gerir þær og ekkert stress í gangi þar sem bardagarnir eru „turn based“. Eitt sem er reyndar frekar pirrandi í bardaga er að það getur verið erfitt að velja rétta árás þar sem hjólið er svolítið ónákvæmt þegar maður velur þá.

South_Park_02

Þessi leikur leyfir manni einnig að skoða bæinn South Park sem er fullur af karakterum úr þáttunum og það fyrsta sem ég gerði í leiknum var að fara á klósettið heima hjá mér, kúka í það og taka upp kúkinn aðeins til að komast að því að ég gæti hent honum í óvini mína í næsta bardaga! Reyndar gæti það, fyrir þá sem hafa ekki gaman af South Park eða einfaldlega þekkja þá ekki, reynst frekar pirrandi að þurfa að hlaupa á milli staða í bænum til að leysa hin ýmsu verkefni (quest), en fyrir aðdáendur er það geggjað. Það er svo mikið af litlum gullmolum úr þáttunum t.d. eru mismunandi lög úr þeim spiluð í hinum ýmsum búðum í bænum og að fara til Kanada er algjör snilld.

South_Park_03

Ef þú móðgast auðveldlega er þessi leikur alls ekki fyrir þig! Ef þú ert ekki móðgunargjarn/gjörn gæti þessi leikur mögulega ekki heldur verið fyrir þig! Mig langar bara að koma því að í þessum leik eru meðal óvina t.d. Nasista zombíar, fóstur og rauðhært fólk.

Þessi leikur er eiginlega eins og að spila mjög langan South Park þátt en þrátt fyrir það er þetta mjög vel gerður tölvuleikur. Ég fann mjög lítið af göllum (bugs) sem voru eitthvað að pirra mann, skemmtilegt bardagakerfi, allt morandi í toppgæðahúmor, möguleiki á að skoða South Park bæinn og það sem leynist þar og skemmtileg saga. Ég varð svolítið spenntur að spila leikinn aftur bara eftir að hafa skrifað þessa grein. Fokk it. Ég ætla að fara að spila sem gyðingur!

 

Höfundur er Elmar Víðir Másson.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑