Birt þann 17. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Konur í tækni – Opinn morgunverðarfundur í CCP 18. mars
Næstkomandi þriðjudagsmorgun, þann 18. mars, mun félagskapurinn Konur í tækni halda opinn morgunverðarfund í höfuðstöðvum CCP, Grandagarði 8, 4. hæð. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. Boðið verður upp á morgunverð.
Konur í tækni hefur það að markmiði að vekja áhuga á tæknigreinum og nýsköpun og efla stöðu kvenna í íslenskum tækniiðnaði. Skapa stærra og sterkara samfélag kvenna í tækni- og nýsköpunargeiranum, styrkja tengslanet þeirra og hvetja fleiri konur til að sækja sér starfsframa innan geirans. Félagið var stofnað síðasta haust og hefur haldið nokkrar samkomur. Á fundinum nú verður lögð áhersla á að kynna og fræðast um tölvuleikjagerð, heyra reynslusögur þeirra sem vinna í faginu og bjóða upp á almennar umræður.
CCP styður jafnari hlutföll kynjanna í tæknigeiranum. Nú þegar erum við með starfandi sérfræðinga frá öllum heimshornum en myndum vilja fá fleiri konur til að taka þátt í að þróa vörurnar okkar. Við viljum brjóta upp þá steríótýpu sem hefur orðið til af CCP sem nörda fyrirtæki og fá fleiri konur til að sækja um störf hjá okkur.
– segir Lyuba Kharitonova, Markaðsfræðingur hjá CCP
Þar sem CCP styður málefnið og leitast við að auka hlutfall kvenna innanborðs, þótti okkur tilvalin hugmynd að halda næsta viðburð þar. Við fáum þá innsýn inn í hvaða hlutverki konur gegna í tölvuleikjaheiminum, bæði sem starfsmenn en einnig sem notendur og hvernig málefni kvenna í tækni koma tölvuleikjaheiminum við almennt.
– segir Armina Ilea, framkvæmdarstjóri verkefnisins Konur í tækni
Viðburðurinn er fyrir alla sem hafa áhuga, konur sem karla. T.d. konur sem starfa innan tæknigeirans eða hafa áhuga á honum, konur sem vilja vera betur að sér í tækni og kynnast tæknigeiranum, karla sem vilja hitta fleiri kvenkyns samstarfsfélaga í tæknigeiranum eða stjórnendur fyrirtækja sem vilja auka hlutfall kvenna innan síns fyrirtækis.
Dagskrá:
8:30 – 8:35 Welcome
8:40 – 8:50 Kynning á Konur í tækni – Armina Ilea framkvæmdastjóri verkefnisins, frá Greenqloud
8:50 – 9:00 Tölur og staðreyndir, konur hjá CCP – Lyuba Kharitonova, Markaðsfræðingur hjá CCP
9:00 – 9:10 Konur í tækni, persónuleg reynsla – Berglind Rós Guðmundsdóttir, Forritunarstjóri hjá CCP
9:10 – 9:20 Konur í tækni, persónuleg reynsla – Katrín Atladóttir, Forritunarfræðingur hjá CCP
9:20 – 9:30 Tölur og staðreyndir, staða kvenna í tölvuleikjum
9:30 – 9:40 Konur í tölvuleikjum – Simone Schreiber, Framleiðandi hjá CCP
9:40 – 10:00 Umræður