Leikjarýni

Birt þann 18. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Killzone: Shadow Fall

Killzone sem er framleiddur af Guerilla Games og gefinn út af Sony er eins og brjálæðislega stóri og fallegi pakkinn undir jólatrénu. Sem inniheldur ógurlega ómerkilega gjöf. Killzone Shadow Fall er ótúlega fallegur leikur sem sýnir vel hversu öflug PS4 vélin er, en því miður er hann ekki besti skotleikurinn á markaðnum.

Killzone Shadow Fall heldur áfram með sögu Vekta-búa og baráttu þeirra við Helghast. Maður leikur mann að nafni Lucas Kellan, hermann í Shadow Marshal fylkingu Vekta. Markmið leiksins er að komast að því hvað er að gerast hinum megin við vegginn sem sker Vekta-borg þvert. Leikurinn gerist að mestu leiti í Vekta-borg en að einhverju leiti á Helghan, nú eyðilögðu plánetu Helghast.

Sagan er í rauninni tvöföld, yfirborðssagan er um Lucas og baráttu hans við Helghast og samband hans við Echo. Dýpri sagan er um þjóðarmorð, pólitíska spillingu, valdabaráttu þar sem aðeins þeir hæfustu komast af. Lucas er ógurlega einföld söguhetja, svona svipað og söguhetjur í leikjum á borð við Battlefield og CoD. Þannig að mér fannst saga hans og Echo ekkert voðalega spennandi. Hinsvegar fannst mér dýpri sagan og pælingarnar í kringum hana mjög áhugaverð og ég er nokkuð svekktur yfir því að meira var ekki um hana.

Killzone SF

Nokkuð fjölbreyttari litir en í fyrri Killzone leikjum.

Spilun

Spilun Killzone er voða svipuð flestum fyrstu persónu skotleikjum. Eina sem er öðruvísi er að Lucas notast við sérstakt „radar sense“ sem gerir honum kleift að sjá hvar óvinir eru. Annars er þetta voða svipað CoD og ef þú vilt fá góðann skotleik þá mæli ég frekar með CoD eða Blacklight Retribution.

Það var reyndar eitt sem brá frá hinni týpísku fyrstu-persónu skotleikja formúlu, en það var OWL, litla fljúgandi vélmennið sem fylgir manni útum allt. OWL er nokkuð hjálpsamt og oft þarf maður það til þess að komast áfram í leiknum. Maður stjórnar OWL með snertiskjánum á PS fjarstýringunni. Maður strýkur upp, niður, eða til hliðar sem segir OWL hvaða verkfæri það á að nota. Það er hægt að láta það gera árás á óvini, setja upp skjöld, skjóta EMP og skjóta frá sér línu sem maður getur rennt sér niður.

Fjölspilun í Killzone er fín en hún stendur ekkert endilega úr meðal óendanlega margra fjölspilunarleikja. Killzone yrði ekki endilega leikurinn sem ég myndi spila hefði ég val. Fjölspilunin minnir mikið á aðra leiki, sem er svosem ekkert slæmt. Fyrst um sinn er hægt að spila sem Scout, Assault eða Support en síðar getur maður fiktað með stillingarnar sjálfur.

Kostir

Ókei. Bara til að hafa þetta á hreinu. Killzone er einn fallegasti leikur sem ég hef séð á ævi minni. Tíminn sem hefur farið í að gera þennan leik svo flottann hlýtur að hafa verið fáránlegur. Mikið hefur verið um smámunasemi hjá teiknurum því maður sér allt. Það sem lítur einna best út er brynja Helghast manna. Hún er svo flott að ég get ekki lýst því. Gæðin er samt því miður eitt af því fáa góða sem ég get sagt um þennan leik.

Killzone SF

Nokkuð fallegt.

Kvillar

Það er margt sem plágar Killzone, gervigreindin er hræðileg, sagan er leiðinleg og nokkrum sinnum á meðan spilun stóð yfir datt ég útúr heiminum. Þetta eru óásættanlegir gallar í stórleik á borð við Killzone. Ég velti því fyrir mér hvort að leikurinn hafi ekki verið annað en dæmi um hversu vel PS4 leikir gætu litið út. Frekar en að eyða meiri tíma í að gera leikinn skemmtilegri í spilun eyddu framleiðendur tíma og fjármunum í að gera hann fallegann, sem er bara ekki nóg.

Það sem pirraði mig mest var gervigreindin í leiknum, það var ekki í lagi með hana. Maður býst við að árið 2013 séu menn búnir að fatta hvernig gervigreind í tölvuleikjum virkar. Þannig að það er rosalega sorglegt að sjá óvin horfa upp úr skjóli á meðan maður er að skjóta fyrir ofan hann og þ.a.l. deyja.

Killzone gerir líka svolítið mikið af því að henda mikið af óvinum í mann af engri ástæðu. Stundum leið mér eins og ég væri bara í „hoard mode“ þar sem ég þurfti að drepa fleiri og fleiri óvini til að komast áfram. Það yndislega við svona borð er að ef maður deyr þarf maður að spila það allt upp á nýtt. Það verður þreytt mjög fljótt.

Killzone SF

Ha?

Samantekt

Það er sorglegt að sjá hversu auðvelt þessi leikur hefði átt með að verða góður. Hefðu framleiðendur eytt aðeins meiri tíma í betri sögu og betri spilun en ekki eytt svona miklum fjármunum í útlit hefði Killzone Shadow Fall orðið mun betri leikur.

 

Höfundur er Skúli Þór Árnason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑