Birt þann 12. ágúst, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Helgi Freyr: Leikjatölvu ferill minn
Hér er listi yfir allar þær leikjavélar sem þessi leikjatölvu spilari hefur spilað í gegnum ævina.
1. Amstrad CPC6128
Þetta var fyrsta leikjavélin sem ég spilaði á ævinni, stóri bróðir minn átti hana og forvitnin var ekki lengi að kvikna um þetta furðulega fyrirbæri. Fyrsti leikurinn sem var spilaður var enginn annar en ping pong. Minningarnar eru góðar af þessari vélþví það var alltaf svo gaman að leika sér í henni, hugsaði oft til þess að þetta væri framtíðin og það væri ekkert sem gæti orðið flottara en þetta. Aldrei hefði mig grunað að áhugi minn á leikjavélum myndi fylgja mér til dagsins í dag.
2. Family Computer
Þessa vél fengum við systkinin saman í jólagjöf, tímarnir sem við lékum okkur öll saman í henni voru óendanlegar margir. Í vélinni var hægt að spila leiki á við Mario Bros. og Space Invaders. Það var þarna sem áhuginn á tölvuleikjum varð að svo miklu meiru. Það sem stóð samt hvað mest upp úr var að fylgjast með mömmu leika sér í tölvunni,. Æsingurinn í henni var alltaf svo mikill að þegar hún vildi að kallinn í leiknum færi til vinstri færði hún alltaf fjarstýringuna með. Hef sjaldan séð manneskja lifa sig svona mikið inn í tölvuleik.
3. Nintendo Entertainment System (NES)
Eignaðist þessa vél aldrei en fékk samt reglulega að spila í henni þegar við mamma og pabbi fórum til Reykjavíkur að heimsækja systur mömmu. Fannst alltaf fjarstýringarnar svo flottar og eyddi nánast öllum tímanum sem við vorum í heimsókn í að spila. Miklum tíma var eytt í að spila Duck Hunt, Super Mario 3 og World Cup.
4. Nintendo Game Boy
Það var alveg ótrúlega mikill tími sem fór í að leika sér í þessari vél. Óteljandi tímar í Tetris og það var í þessari vél sem fyrsti Pokémon leikurinn var spilaður.
5. Sega MegaDrive/Sega Genesis
Þessa vél átti einn af vinum mínum í æsku, langaði alltaf að eignast þessa leikjavél. Fannst alltaf gæðin í þessari vél vera svo miklu flottari en í Nintendo, allt var svo raunverulegt!
6. Sega Saturn
Þar sem hrifningin af Sega leikjavélinni var svona mikil þá varð þessi fyrir valinu þegar mamma og pabbi ákváðu að gefa mér nýja leikjavél. Ekki skemmdi að það fylgdi byssa og byssuleikur með. Það var í þessari vél sem FIFA var fyrst spilaður og síðan þá hefur höfundur spilað alla FIFA leiki sem komið hafa út. Mjög stoltur af því afreki!
7. Playstation 1
Besti vinurinn átti þessa leikjavél og við vorum duglegir að skiptast á leika okkur í henni og Sega vélinni minni. Við eyddum miklum tíma í að pæla í því hvor tölvan væri betri. Sem er pínu fyndið því Playstation varð að einni vinsælustu leikjavél sem komið hefur út á meðan Sega hætti að gefa út vélar.
8. Playstation 2/PSP
Gleymi því aldrei hvernig ég eignaðist þessa vél, var búinn að biðja mömmu og pabba svo lengi um hana en alltaf sögðu þau nei. Svo var það ein jólin að ég opnaði pakka frá systur minni, í honum var fjarstýring fyrir vélina. Skildi ekkert af hverju hún var að gefa mér fjarstýringu fyrir vél sem ég ætti ekki. Opnaði síðan pakkann frá mömmu og pabba og þarna var vélin. Nokkrum árum seinna var PSP vélin prufuð, hún náði aldrei að heilla að neinu viti og varð því aldrei úr því að fjárfesta í einni slíkri.
9. Xbox 360
Það liðu nokkur ár á milli þess að ég fékk mér nýja leikjavél, enda hafði áhuginn fyrir leikjavélum dottið smá niður. Bestu vinir mínir höfðu keypt þessa vél og gerðu ekkert annað í langan tíma en að leika sér í henni. Skildi það um leið og ég prufaði vélina, því það var allt fullkomið við hana. Á endanum var vélin svo keypt, án efa uppálds leikjavélin.
10. & 11. Playstation 3/Nintendo Wii
Fannst alltaf gaman að í kíkja í heimsókn til vina minna sem áttu þessar vélar og leika mér í þeim en þær heilluðu samt aldrei nógu mikið. Fannst samt alltaf áhugavert með Nintendo Wii hvernig fjarstýringarnar virkuðu.
12. Xbox 360 Slim
Þegar kom út ný útgáfa af Xbox vélinni var ekki lengi beðið með að uppfæra. Spila hana rosalega mikið í dag. Þessi listi spannar rúm tuttugu ár af spilun tölvuleikja og er enn að.
13. Playstation 4/PS Vista/Nintendo 3DS
Núna þegar næsta kynslóð leikjavéla er að koma þá er nokkuð ljóst að ný vél verður keypt. Þrátt fyrir að vera mikill Xbox aðdáandi þá er kominn tími til að breyta til og byrja að spila á nýja leikjavél. Það verður alveg pottþétt fjárfest í Ps4 en spurningin er hvort PS Vista eða Nintendo 3DS verði fyrir valinu.
Forsíðumynd: Wikimedia Commons (wood)
Höfundur er Helgi Freyr Hafþórsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í fjölmiðlafræði.