Birt þann 30. ágúst, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Bíó Paradís: Stafrænar sýningar taka við filmusýningum
Nú eru síðustu kvikmyndasýningarnar af filmu í Reykjavík formlega lagðar niður í bili þar sem Bíó Paradís á Hverfisgötu tekur við langþráðum, stafrænum sýningarbúnaði um þessar mundir. Það er mikið um að vera í bíóinu, því auk þess sem skipt verður um sýningarbúnað, verður einnig bylting í hljóðkerfi bíósins með tilkomu nýs hljóðbúnaðar.
35 mm filman hefur verið það sýningarform kvikmynda síðan reglulegar sýningar hófust á kvikmyndum fyrir þarsíðustu aldamót. Árið 2013 hefur filmuframleiðsla í hinum vestræna heimi stöðvast, og áætlað er að Afríka verði síðasta álfan til að stafrænvæðast árið 2017. Þar sem þróunin hefur verið hröð, og stafrænn sýningarbúnaður afar dýr, hefur fjöldinn allur af kvikmyndahúsum neyðst til að leggja upp laupana á síðustu árum. Bíó Paradís horfði fram á það að stafrænvæðast eða hætta rekstri á síðasta ári – og nú ári síðar – með aðstoð MEDIA áætlunar Evrópusambandsins og framlagi kvikmyndagerðarmanna úr kvikmyndasjóði, er sá draumur um að bjóða upp á listrænt bíó í Reykjavík í stafrænum gæðum, orðinn að veruleika.
„Dagskrágerðin í Bíó Paradís heldur áfram að vera fyrsta flokks úrval verðlaunamynda og heimildamynda, eini munurinn er sá að nú geta gestir Bíó Paradísar notið þeirra í bestu mögulegu gæðum hvað varðar hljóð og mynd“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar. Varðandi spurninguna um það hvort landsmenn fái nokkurn tíman aftur að njóta kvikmyndasýninga af filmunni í Bíó Paradís svarar Hrönn „það verður huganlega langt í að við verðum með filmusýningu en við höldum í tvær filmuvélar og stefnum á að geta boðið upp á filmusýningar af meistaraverkum kvikmyndasögunnar í framtíðinni. Það verða sannkallaðar lúxussýningar“