Birt þann 25. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0„Þetta er svona mystery hrollvekja og psychological thriller.“ Viðtal við kvikmyndagerðarmanninn Vilius Petrikas
Íslensk kvikmyndaflóra hefur ekki að geyma margar hryllingsmyndir, hvað þá sálfræðitrylla (psychological thrillers). Það verður þó breyting á því ef allt gengur upp hjá ungum og efnilegum kvikmyndagerðarmanni, Vilius Petrikas, sem vinnur þessa dagana að kvikmyndinni Ruins. Ég settist niður með leikstjóranum til að fræðast meira um þetta spennandi verkefni.
Ég mælti mér mót við Vilius á sólríkum degi á huggulegu kaffihúsi í Mosfellsbæ. Umhverfið og veðrið þennan daginn stangaðist á við þann myrka heim sem Ruins fjallar um. „Myndin er um fornleifafræðing sem er á seinustu skrefunum í rannsóknum sínum. Hann er að rannsaka þjóðfélag sem hefur verið útrýmt. Þeirra trú og svo framvegis. Þjóð sem var hér á undan víkingunum og hann er að leita að hlið helvítis á Íslandi. Þetta eru eins og undirheimar sem eru út um allan heim. Sagan snýst því um þennan heim sem hann finnur og hlið helvítis opnast í myndinni. Þetta er svona mystery hrollvekja og psychological thriller,“ segir Vilius og ég hætti að taka eftir sólinni úti enda söguþráðurinn spennandi og myrkur.
Um leið og ég fattaði hvað kvikmyndagerð var þá vildi ég gera kvikmyndir.
Vilius er fæddur í Litháen og fluttist til landsins með foreldrum sínum þegar hann var 11 ára gamall. Hann hefur haft áhuga á kvikmyndum frá því að hann man eftir sér. „Um leið og ég fattaði hvað kvikmyndagerð var þá vildi ég gera kvikmyndir. Ég hitti franskan leikstjóra á karate æfingum hér í Mosó fyrir sem hvatti mig til þess að skrifa handrit. Eftir það tók ég upp fyrstu stuttmyndina mína. 2007 fór ég í listnám en það var ekki fyrir mig og hætti í því. Fór að vinna um tíma og sótti svo um hjá Kvikmyndaskóla Íslands. Haustið 2008 komst ég inn og var í tvö ár þar. Lærði þar að nota hæfileikana og nýja tækni til að búa til kvikmyndir,“ segir Vilius og bendir á að hann hafi alltaf haft áhuga á hryllingsmyndum og hinu dularfulla. Ruins er því undir áhrifum frá slíkum myndum. „Ég get nefnt tvær myndir eftir Roman Polanski. The Ninth Gate og Rosemary´s Baby. Sem fjallar einmitt um þennan sadaníska heim,“ segir Vilius.
Mig lék forvitni á að vita hvernig hugmyndin að Ruins kviknaði. „Fyrsta handritið sem ég skrifaði var þegar ég var 15 ára og úr varð stuttmynd. Ég horfi rosalega mikið á svona myndir eins og Halloween. Ég endurgerði svo stuttmyndina í kvikmyndaskólanum. Eftir að ég útskrifaðist úr kvikmyndaskólanum þá var ekkert að gerast þó svo að fólk hafi haft hæfileikana. Ég sótti því um styrk hjá Evrópu unga fólksins og við fengum hann. Við tókum því upp teaser sem gæti þá dregið athygli að verkefninu. Sem virkaði því margar hafa fengið áhuga á því að vera með í myndinni. Þessi stuttmynd sem ég gerði upphaflega var um þennan myrka heim. Minn stíll er því hrollvekjur og mystery, því ég hef ekki gert neitt annað. Ég vil fá hjörtu fólks til að slá aðeins hraðar,“ segir Vilius og hefur greinilega sama illkvittna markmið eins og svo margir hryllingsmyndaleikstjórar.
Aðstandendur myndarinnar reyndu að safna fjármagni á fjáröflunarsíðunni Indiegogo.com en það gekk ekki nógu vel samkvæmt Vilius. „Það er mikill fjölbreytileiki á þeirri vefsíðu. Fólk er mikið að sækjast eftir fjármagni fyrir uppfinningar en erfitt fyrir kvikmyndagerðarfólk að sækja um styrki þar. Við ætluðum að notast við Kickstarter en það er ekki hægt að nýta sér þá síðu hér á landi. Þetta var líka bara prufa, við vildum sjá hvort við gætum fjármagnað fyrri hluta framleiðslunnar með crowdfunding. En um leið og maður er kominn með gott handrit þá er fjármögnun ekki það mikið mál. Þessi teaser sannar að fólkið sem ætlar að gera þessa mynd getur gert svona mynd. Með þessum teaser og góðu handriti þá getum við gengið inn í framleiðslufyrirtæki og vonandi fengið fjármagn. Ég er einmitt í sambandi við framleiðslufyrirtæki sem hefur sýnt verkefninu áhuga,“ segir Vilius en einnig er rétt að benda á að samkvæmt Vilius hefur hinn þjóðþekkti leikari Magnús Ólafsson, sem mun leika í myndinni, veitt mikla aðstoð og greitt veginn að vissu leyti fyrir myndina.
Það er vel þekkt að erfitt er að komast inn í kvikmyndabransann, hvort sem það er hér á landi eða erlendis en Vilius segir að tvennt sé í stöðunni fyrir unga kvikmyndagerðarmenn hér á landi. „Það er erfitt að ná í styrki því það er lítill peningur til í samfélaginu. Fyrir ungan kvikmyndagerðarmann sem er nýútskrifaður úr kvikmyndaskóla eru mjög fáar stefnur sem hann getur tekið. Hann getur unnið sig upp stigann í kvikmyndabransanum, sem getur tekið 10 til 20 ár eða hann getur gert það sem ég gerði. Henda öllu til hliðar, fórna sjálfum sér og peningum til að gera sína eigin mynd. Annars er mjög erfitt fyrir unga kvikmyndagerðarmenn að komast inn í bransann. Margir sem útskrifast úr kvikmyndaskólanum missa áhuga, fara bara að vinna við eitthvað allt annað en kvikmyndagerð.“
Ég trúi því alveg að Ísland gæti orðið nýja Hollywood eins og Nýja Sjáland er með sinn eigin kvikmyndaheim nú orðið. Við erum með landslagið og ekki vantar kvikmyndagerðarfólkið. Við eigum að stefna út fyrir landsteinana.
Vilius hefur ákveðnar skoðanir á því hvert kvikmyndagerð á Íslandi á að stefna. „Ég trúi því alveg að Ísland gæti orðið nýja Hollywood eins og Nýja Sjáland er með sinn eigin kvikmyndaheim nú orðið. Við erum með landslagið og ekki vantar kvikmyndagerðarfólkið. Við eigum að stefna út fyrir landsteinana. Eins og myndin mín sem verður bæði á íslensku og ensku og við stefnum út fyrir heimamarkaðinn. Stefnan sem Ísland ætti að taka er að gera kvikmyndir fyrir heiminn en ekki bara fyrir heimamarkað,“ segir Vilius.
Það verður spennandi að fylgjast með framleiðslu Ruins en Vilius er á fullu þessa dagana að fínpússa handritið. Hann vonast eftir því að myndin verði komin til sýninga á næsta ári en bendir þó á að erfitt sé að gefa sér eitthvað fyrir fram í þessum bransa.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðunni www.ruinsthemovie.com og á Facebook.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.