Birt þann 18. mars, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Tomb Raider (2013)
Eftir nokkuð langa bið og mikla eftirvæntingu er nýjasti Tomb Raider leikurinn kominn út. Tomb Raider leikjaserían á rætur sínar að rekja til ársins 1996 og náði þá miklum vinsældum á skömmum tíma. Undanfarin ár hafa leikirnir aftur á móti ekki verið að gera mjög góða hluti, en hönnuðir nýjasta Tomb Raider leiksins vona að með nýja leiknum verði blásið nýju lífi í annars frekar þreytta leikjaseríu.
Mennskari Lara
Lara Croft er aðalpersóna Tomb Raider leikjanna og er auk þess ein merkilegast kvenhetja tölvueleikjasögunnar. Hún er einskonar kvenkyns útgáfa af Indiana Jones sem ferðast um heiminn í leit að fornminjum og lendir í alls kyns ævintýrum á leiðinni þar sem hún þarf að verja sig og leysa þrautir. Lara er einnig vel þekkt fyrir kynþokka sinn þar sem stór brjóst, þykkar varir og stórlega ýkt vaxtarlag spilar áberandi hlutverk. Í þessum nýja Tomb Raider leik er Löru gefið náttúrulegra útlit, og í stað þess að undirstrika líkamshluta hennar líkt og vanalega er tilfinningum Löru gefið aukið svigrúm.
Eldra útlit (t.v) og nýja útlit (t.h.) Löru Croft
Þroskasaga Löru Croft
Að þessu sinni er Lara Croft ekki sú eiturharða ævintýrakona sem flestir þekkja úr fyrri Tomb Raider leikjunum. Þar sem að nýi leikurinn gerist á undan öðrum Tomb Raider leikjum fáum við að kynnast Löru þar sem hún er óreynd og frekar viðkvæm. Lara er reyndar óvenju fljót að læra og augljóslega með ævintýra-genið í blóðinu.
Í sögu leiksins er Lara Croft og hennar fylgdarlið í fornminjaleit þegar þau lenda í sjóslysi og reka upp á nálæga eyju. Brátt kemur í ljós að Lara og félagar eru í mikilli hættu þar sem að hópur af skuggulegu fólki býr á eyjunni sem er lítið fyrir óvæntar heimsóknir. Í leiknum þarf Lara að læra að verja sig, veiða sér til matar, leysa þrautir og að hugsa fljótt til að lifa af á eyjunni. Við fáum innsýn í þroskasögu Löru Croft þar sem hún gengur í gegnum erfiða atburði sem munu hafa djúpstæð áhrif á hana í framtíðinni. Sagan hefur sína hápunkta og lágpunkta en heldur þó spilaranum alltaf við efnið, sem er stútfullt af hasar og ber tárblautan vott af dramatík.
Breska leikkonan Camilla Luddington ljær Löru Croft rödd sína og nær henni mjög vel, en Camilla er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt sem Jo Wilson í sjónvarpsþáttunum Grey’s Anatomy, auk þess hefur hún farið með hlutverk í Californication og True Blood. Hún stynur þó alltof mikið í leiknum að mínu mati. Hún stynur þegar hún reynir á sig, meiðir sig og það liggur við að hún stynji líka þegar hún andar. Ef þú myndir heyra félaga þinn spila leikinn í næsta herbergi gæti hann þess vegna verið að horfa á klámmynd, svona miðað við fjölda stuna per mínútu. Talsetningin hjá öðrum leikurum í leiknum er frekar slöpp og B-mynda-leg.
Kvikmyndaleg nálgun
Grafík leiksins er virkilega góð – en framsetningin er enn betri. Staðsetning myndavélarinnar er úthugsuð svo að dýrð leiksins fær að njóta sín í öllu sínu veldi, án þess að spilarinn missi sjón af Löru eða hafi neikvæð áhrif á spilunina. Þessi fallega framsetning, ásamt epískri kvikmyndatónlist, skilar sér vel og nær að skera Tomb Raider úr öðrum hefðbundnum þriðju persónu ævintýraleikjum.
Margt í leiknum er sótt til kvikmyndanna og ber þar helst að nefna myndavélabrellur og frásagnarhátt sögunnar. Eins og áður sagði eru sjónarhornin úthugsuð í leiknum og til fyrirmyndar, en auk þess eru ýmiskonar brellur notaðar. Til dæmis hristist myndavélin þegar mikið er um hasar í þeim tilgangi að gera leikinn líkari kvikmynd. Sagan er sögð með aðstoð stuttra myndskeiða (cut-scenes) sem eru þó alltof mörg að mínu mati. Þó að sagan og framsetningin nái vissulega að fanga mann er hér of mikið af því góða og leið mér á tíma eins og allt stefndi í svipaða banvæna blöndu og Final Fantasy XIII bauð upp á, þar sem ofskammtur af myndskeiðum gerði (nánast) útaf við leikinn. Á milli myndskeiða stjórnar spilarinn Löru Croft en spilunin er á köflum svo ókrefjandi að zombí gæti spilað leikinn. Til allrar hamingju endaði þetta ekki eins og Asura’s Wrath (sem á meira sameiginlegt með sjónvarpsþætti en tölvuleik) og eftir nokkurra klukkutíma spilun byrjar leikurinn að opnast og krefst meira af spilaranum. Tomb Raider nær þó aldrei að verða erfiður og býður ekki einu sinni upp á erfiða kafla, sem verður að teljast sem mínus.
Frábær skemmtun – þó of léttur
Leikurinn er skemmtilegur í spilun og tekur u.þ.b. 10 til 14 klukkutíma að klára hann. Einn helsti galli leiksins er hvað hann er einfaldur og skortir krefjandi kafla. Það kom mér einnig á óvart að sjá hversu línulegur leikurinn er, en það er að finna nokkur opin svæði í seinni hluta leiksins auk þess sem hægt er að ferðast um alla eyjuna eftir að hafa klárað söguþráðinn.
Það er nokkuð augljóst hvað spilarinn þarf að gera hverju sinni og erfitt að villast. Hægt er að ýta á takka til að fá vísbendingar um hvað á að gera og Lara minnir spilarann reglulega á hvað hann á að gera. Þannig að auðveldur leikur verður enn léttari. Erfiðleikastig leiksins hækkar ekkert með tímanum og er hann alveg jafn auðveldur í lokin og í byrjun hans. Vissulega er þetta nokkuð stór galli, en það er frekar auðvelt að gleyma þessum galla þar sem leikurinn skilar flest öllu öðru mjög vel frá sér.
Lara lærir á nokkur vopn í leiknum; boga, ísexi, skammbyssu, haglabyssu og riffil. Í gegnum leikinn er svo hægt að uppfæra vopnin og kenna Löru nýja hæfileika. Það eru nokkuð margar uppfærslur í boði en þær breyta sjaldnast mjög miklu.
Fjölspilunin er prump
Afsakið frönskuna mína, en svona er það bara. Fjölspilunin er ekkert voðalega skemmtileg og bætir litlu við leikinn. Það er eins og fjölspiluninni hafi verið bætt við i lokin og lítil vinna lögð í útfærsluna.
Niðurstaða
Þetta er besti Tomb Raider leikurinn sem hefur verið gefinn út í langan tíma og það má vissulega segja að leikjahönnuðum hafi tekist að endurlífga hálfdauða leikjaseríu. Leikurinn er stútfullur af hasar, flottri myndatöku og er yfir höfuð mjög skemmtilegur í spilun. Tomb Raider mætti vissulega vera meira krefjandi, örlítið lengri í spilun og jafnvel leggja aðeins meiri áherslur á þrautahluta leiksins, en á heildina litið er afraksturinn afskaplega vel heppnaður og gaman að sjá eina merkustu kvenhetju tölvuleikjasögunnar snúa aftur.
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.