Menning

Birt þann 2. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Það er leikur að læra á tölvuöld

Cyanide and Happiness - Netið

Við lifum á tæknivæddum tímum og virðist sem sú hraða og mikla tækniþróun sem orðið hefur síðustu áratugi sé ekkert að hætta. Flestallir Íslendingar eru nettengdir heima hjá sér, í vinnu, skóla eða hvar sem vera ber í gegnum tölvur, snjallsíma eða önnur tól. Þessi stanslausa nettenging hefur verið gagnrýnd af ýmsum aðilum, meðal annars fyrir að einangra einstaklinga og minnka félagsleg samskipti, en það er þó varla hægt að deila um að hún hefur fært umheiminn nær okkur.

Við höfum í dag aukinn aðgang að þekkingu og höfum við alla möguleika á að standa fróðari upp frá tölvunni en við vorum þegar við settumst niður við hana. Alfræðivefsvæði eins og Wikipedia geyma aragrúa af upplýsingum um allt milli himins og jarðar en þar sem upplýsingar á Wikipediu eru framsettar af notendum má þar vissulega finna staðreyndavillur. Í gegnum landsaðgang Landsbókasafns höfum við Íslendingar ókeypis aðgang að fræðigreinum í fjöldanum öllum af ritrýndum tímaritum á hinum ýmsu fræðasviðum, á tímarit.is er hægt að lesa gömul íslensk blöð og tímarit og á bækur.is er hægt að finna útgáfur af gömlum íslenskum bókum. Í öllu þessu og fleiru er svo hægt að leita samtímis á nýju vefsvæði leitir.is. Á archive.org er svo hægt að nálgast fræði- og skemmtibækur sem komnar eru í almenning. Í stuttu máli sagt: netið er smekkfullt af möguleikum til upplyftingar andans.

Á árinu 2012 jókst til muna þekkingarflóran á Internetinu þegar þrjú vefsvæði með netnám á háskólastigi komu fram á sjónarsviðið. Þetta eru vefsvæðin Coursera, Udacity og edX. Þessar síður gefa fólki um allan heim tækifæri til að læra eitthvað nýtt eða dusta rykið af gamalli þekkingu – það eina sem þú þarft er Internettenging.

 

Menntun sem mannréttindi

Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna er menntun skilgreind sem mannréttindi en í 26. grein sáttmálans stendur:

1. Allir eiga rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti á grunnskóla- og undirstöðustigum. Grunnskólamenntun skal vera skylda. Starfsmenntun og sérmenntun skal standa öllum til boða og háskólamenntun vera öllum jafnfrjáls á hæfnisgrundvelli [áhersla mín].

Skólagjöld - 1978-2012Þessar þrjár síður sem nefndar voru hér að ofan spretta upp í bandarísku umhverfi en eins og flestir vita er meira en að segja það að komast í góðan háskóla í Bandaríkjunum, góð æðri menntun er þar síður en svo öllum jafnfrjáls á hæfnisgrundvelli. Nýleg rannsókn sýndi fram á að 75% nemenda í topp 20 háskólum þar í landi sem bjóða upp á lögfræðimenntun koma úr efsta fjórðungi þjóðfélagsstigans. Þrír fjórðu nemenda skólans endurspegla þannig aðeins einn fjórða Bandaríkjamanna. Þegar horft er til topp 10 háskólanna kemur aðeins eitt prósent nemenda úr neðsta fjórðungi þjóðfélagsstigans (Sanders 2011). Með síhækkandi skólagjöldum eru litlar líkur á að þetta ástand fari batnandi en skólagjöld í Bandaríkjunum hafa síðan 1978 hækkað mikið og úr algjörum takti við vísitölu neysluverðs.

Ókeypis netnám á æðri stigum má því auðveldlega túlka sem nokkurs konar andsvar við þessu umhverfi. Engrar túlkunar er raunar þörf þar sem tvær af síðunum segja það beint út að draumurinn sé að gefa öllum íbúum heimsins tækifæri til æðri menntunnar.

Á heimasíðu Coursera stendur:

We envision a future where the top universities are educating not only thousands of students, but millions. […] Through this, we hope to give everyone access to the world-class education that has so far been available only to a select few. We want to empower people with education that will improve their lives, the lives of their families, and the communities they live in.

Sömu sögu er að segja af Udacity:

Our mission is to bring accessible, affordable, engaging, and highly effective higher education to the world. We believe that higher education is a basic human right, and we seek to empower our students to advance their education and careers.

Þessar síður standa enn sem komið er undir markmiðum sínum. Þær bjóða almenningi ókeypis námskeið kennd af fyrsta flokks fræðimönnum við skóla eins og California Institute of Technology, Columbia, Duke, Johns Hopkins, Harvard, Princeton, Stanford, Pennsylvania auk háskóla í Evrópu, Asíu og Eyjaálfu og það besta af öllu; þær gera það ókeypis.

 

Hvað get ég lært?

Þótt við Íslendingar búum við mun betri aðstæður en Bandaríkjamenn að því leyti að við höfum allflest aðgang að merkilega góðum ríkisreknum háskóla miðað við fæð og smæð er ekki þar með sagt að við getum ekki eða ættum ekki að nýta okkur þessar netnámssíður. Námsúrval á Íslandi er til að mynda takmarkað af augljósum ástæðum, fyrir það fyrsta styður íbúafjöldi landsins ekki nema ákveðið margar námslínur en auk þess getur vantað á landið sérfræðinga til kennslu í vissum greinum. Íslenskir háskólanemendur geta því sótt sér aukna þekkingu á þessum síðum eða kynnt sér fræðasvið sem ekki gefst kostur á að kynna sér innan þeirra deilda.

En það er ekki svo að skilja að þessar síður séu takmarkaðar við háskólanema, síður en svo. Hver sem er getur skráð sig til náms, hvort sem það er bráðgáfaður grunn- eða framhaldskólanemi sem vantar aukna námslega örvun, einhver sem lokið hefur háskólanámi en er ekki tilbúinn að hætta að læra, aðili á vinnumarkaðnum sem vill bæta við þekkingu sína eða eldri borgari sem vantar lífsfyllingu. Það eina sem þarf er tölva með Internettengingu!

Síðurnar bjóða upp á ólík námskeið. Coursera er í dag með 215 skráð námskeið í hugvísindum, raunvísindum, félagsvísindum, heilbrigðisvísindum, tónlist og á fleiri sviðum og eru námskeiðin ekki öll fræðileg, sum námskeiðin eru á sviði tómstunda. Næstu daga eru til að mynda að hefjast námskeið í stjórnun þjarka, um gervigreind, GGP (General Game Playing), geimlíffræði og leitina að lífi í geimnum, hvernig hlusta skal á heimstónlist, leikjun (Gamification), fantasíur og vísindaskáldskap, Grikkland til forna, fornleifafræði, netleiki, ritun, gítarspil og margt margt fleira.

Hér má sjá kynningarmyndband fyrir námskeiðið Online Games: Literature, New Media, and Narrative sem verður í boði hjá Coursera í sumar.

Udacity er ekki með jafn breitt úrval námskeiða en einbeitir sér að viðskiptafræði, tölvunarfræði, stærðfræði og eðlisfræði. Þar má meðal annars kynna sér gervigreind, tölfræði og hvernig á að búa til HTML5 leiki. Á edX geturðu svo kynnt þér umræður og lög um höfundarrétt, gervigreind, lögfræði, grískar bókmenntir og fleira.

Einn helsti kostur Internetsins er hinn mikli möguleiki hins almenna borgara að sækja sér þekkingu, kynna sér mál frá öllum hliðum og göfga andann. Með auknu framboði námskeiða á háskólastigi færumst við nær draumnum um jöfn tækifæri allra til náms.

Eftir hverju ertu að bíða? Þekkingin bíður þín rétt handan við hornið, skemmtu þér vel!

 

Heimildir

Archive.org. Sótt 31.01.2013.
Bækur.is. Sótt 31.01.2013.
Coursera. Sótt 31.01.2013.
edX. Sótt 31.01.2013.
Leitir. Sótt 31.01.2013.
Mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna. Sótt 31.01.2013.
Sander, Richard H. 2010. Class in American Legal Education. 88 Denv. U.L. Rev. 631 (2011).
Tímarit.is. Sótt 31.01.2013.
Udacity. Sótt 31.01.2013.

Myndir sóttar á

The Economist. Sótt 31.01.2013.
Cyanide & Happiness (Facebook). Sótt 31.01.2013

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑