Birt þann 12. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Lína Descret – Bókaflokkur um sköpun og tortímingu
Lína Descret er íslensk myndskreytt fantasía eftir Rósu Grímsdóttur sem sækir aðallega innblástur frá japönskum teiknimyndum (anime) og japönskum myndasögum (manga). Bókin er sú fyrsta í fimm binda bókaflokki sem fjallar um byltingu í heimi þar sem tortímendur eru kúgaðir af þeim sem sköpuðu þá, sköpurunum.
Skaparar skapa tortímendur. Tortímendur eru kúgaðir í þessum heimi og lokaðir inni þar sem óttinn við mátt þeirra er afar mikill. Þann ótta má rekja til stríðs sem háð var á milli þessara tveggja tegunda fyrir um 1000 árum síðan. Sá ótti kemur þó ekki í veg fyrir að tortímendur séu notaðir sem þrælar skaparanna. En eingöngu eftir að hafa gengist undir stranga þjálfun í búðum fyrir tortímendur.
Ein af aðalpersónunum, Anna Fíl er þó undantekning þar sem hún er talin vera friðsamur tortímandi og fær því að ganga laus. Tortímendur mega alls ekki skapa og skaparar mega ekki undir neinum kringumstæðum tortíma.
Aðalpersónan er einstök í þessum heimi þar sem hún er hálfur skapari og hálfur tortímandi. Vegna lögmála þessa heims vekur þessi mótsagnakennda tilvist hennar upp andúð.
Með heiminn á móti sér, getur Lína Descret, eini skaparatortímandinn komið á friði á milli þessara tveggja tegunda og stöðvað þeirra eilifa stríð?
Bókin fæst í verslunum Eymundsson, Nexus, Bóksölu Stúdenta eða hjá höfundinum sjálfum. Bókin er einnig til sem rafbók á www.emma.is.
Sýnishorn
– RG/BÞJ