Birt þann 23. ágúst, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Photoshop Wars: Stríð í myndvinnslu
Photoshop Wars er vefsíða og Facebook leikur þar sem að notendur breyta myndum í myndvinnsluforriti og keppa um atkvæði á vefnum. Á bak við hugmyndina standa tveir 25 ára piltar frá Reykjanesbæ, þeir Arnar Stefánsson og Ívar Rafn Þórarinsson. Arnar útskrifaðist úr Margmiðlunarskólanum og stofnaði auglýsingastofu ásamt tveimur öðrum. Þar starfaði hann í tæpt ár og Ívar er með 4 ára reynslu í vefforritun og hönnun.
Hvernig Photoshop Wars virkar
Einn notandi byrjar á því að búa til „stríð“ (keppni) og velur umfangsefni. Umfangsefnið getur verið textalýsing og/eða ein ákveðin mynd sem notendur þurfa svo að vinna í myndvinnsluforriti á borð við Photoshop. Þegar notandinn hefur stofnað stríð getur hann skorað á Facebook-vini sína eða aðra notendur vefsins til þess að taka þátt í stríðinu.
Þegar að báðir þáttakendur stríðsins hafa sent inn sínar myndir er stríðið birt og hefst þá kosning á vefsvæði Photoshop Wars um það hvor myndin sé fyndnari eða flottari.
Til að færa spennu og gildi í leikinn var ákveðið að bæta við stöðugildum (ranking system) notenda Photoshop Wars, þar sem að notendur þurfa að safna reynslustigum til að hækka um stöðu, en þetta kerfi ættu margir að þekkja t.d. úr fyrstu persónu skotleikjum.
Einnig eiga notendur möguleika á að vinna medalíur fyrir ýmis afrek.
Það er ekki þörf á að vera Photoshop snillingur til þess að taka þátt. Með því að kjósa stríð, deila, skoða og bæta við athugasemdum er hægt að taka þátt í Photoshop Wars og um leið öðlast reynslustig.
Stefnt er á að opna fyrir Beta-prufuaðgang á næstu vikum.
Hægt er að styrkja verkefnið í gegnum Indiegogo með því að smella hér.
– AS / BÞJ