Birt þann 17. ágúst, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Menningarnótt: 6 áhugaverðir viðburðir
Menningarnótt 2012 verður haldin laugardaginn 18. ágúst. Við hjá Nörd Norðursins fórum yfir dagskrána og sigtuðum út sex viðburði sem okkur nördunum líst vel á.
1. Sólskoðun á Austurvelli
Milli klukkan 14:00 og 16:00 mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn bjóða gestum og gangandi að kíkja á sólina í gegnum sérútbúna sjónauka. Þess ber að geta að sólskoðun er háð veðri og vonum við því innilega að skýin haldi sig frá Austurvelli þennan dag.
Viðburðurinn á Menningarnott.is
2. Kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki
Í síðustu viku var opnuð sýning í Borgarbókasafni Reykjavíkur (Tryggvagötu 15) um kjarnorkusprengjurnar og afleiðingar þeirra. The Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb Victims stendur að sýningunni og vilja samtökin láta útrýma öllum kjarnorkuvopnum. Á Menningarnótt geta gestir Borgarbókasafnsins kynnt sér þennan ófagra kafla mannkyns sögunnar, sem hefur haft áhrif á hundruði þúsunda mannslífa, milli klukkan 13:00 og 18:00.
Viðburðurinn á Menningarnott.is
3. tapeart tetris
Við vitum ekki alveg við hverju á að búast hér, en allt sem tengist Tetris hlýtur að vera þess virði að skoða betur! Um er að ræða vegglistaverk sem verður til sýnis í Hjartagarðinum (Laugavegur 19B) milli klukkan 14:00 og 20:00. Listaverkinu er lýst sem samspili „tónlistar, videoverks og teip-götulistar mun vekja upp tölvuleiki fortíðar í tölvuspili sem við tengjum flest öll við.“
Viðburðurinn á Menningarnott.is
4. Reykjavík séð með tímavél
Í nýrri sýningu í Iðuhúsi verður hægt að ferðast aftur til fortíðar og sjá hvernig Austurstræti hefur breyst í gegnum tíðina. Á meðan raunverulega tímavélin okkar er ekki fullkláruð, látum við þessa snilld duga.
5. Spilastund með Spilavinum
Spilavinir verða með úrval borð- og smáspila í Ráðhúsi Reykjavíkur (Tjarnargötu 11) milli klukkan 14:00 og 17:00, þar sem starfsmenn verslunarinnar munu vera á staðnum og kenna gestum og gangandi fyrir ýmsum spilareglum.
Viðburðurinn á Menningarnott.is
6. Skáktjald á Lækjartorgi
Milli klukkan 12:00 og 20:00 verður skáktjald á vegum Skákakademíunnar á Lækjatorgi. Gestir geta meðal annars keppt við krakka úr Úrvalsliði Skákakademíunnar og mun Helgi Ólafsson tefla fjöltefli við kvennalandsliðið.
Viðburðurinn á Menningarnott.is
– BÞJ