Leikjanördabloggið

Birt þann 23. maí, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Leikir sem ég hata að elska

LNBanner

Hafið þið einhvern tíman átt leik sem ykkur fannst alveg rosalega skemmtilegur en engum öðrum? Hvað þá leik sem ykkur fannst ótrúlega gaman að spila en gátuð ekkert í? Eða jafnvel leik sem var alveg frábær en var af einhverjum ástæðum svo bilaður/óskiljanlegur/erfiður að þið festust alltaf í honum á sama stað? Ég hef alla vegana átt og spilað þó nokkuð marga þannig leiki í gegnum tíðina. Leikir sem mér fannst vera gjörsamlega æðislegir og ég gat varla fengið nóg af, en af mismunandi ástæðum gat spilun leikjanna á sama tíma verið ömurleg. Ég held að það sé best að skilgreina þannig leiki sem leiki sem ég hata að elska. Því þrátt fyrir að vera góðir leikir (að mínu mati), væri eflaust best ef þeir hefðu aldrei verið til þannig að ég hefði getað eytt meiri tíma í aðra leiki. Skoðum nokkra af þessum leikjum og ég skal reyna að útskýra hvað gerir þá svona frábæra/fáránlega.

.

Werewolf: The Last Warrior er leikur sem ég spilaði mikið sem krakki. Leikurinn var gefinn út árið 1990 af fyrirtækinu Data East sem gáfu meðal annars út RoboCop fyrir NES.  Söguþráður leiksins er ekki merkilegur, en hann er nokkurn vegin á þá leið að vondur vísindamaður er búinn að búa til fullt af stökkbreyttum skrímslum og ætlar sér að taka yfir plánetuna. Maður að nafni Ken, sem hefur þann hæfileika að geta breytt sér í varúlf, ætlar ekki að láta það gerast, og hefst því handa við að sigrast á stökkbreyttu skrímslunum og stöðva illa vísindamanninn. Þó sagan sé ekkert spes þá er rosalega margt við þennan leik sem gerir hann alveg frábæran. Spilarinn byrjar sem Ken sem hefur mjög takmarkaða bardagahæfileika miðað við varúlfinn. Ken getur kýlt óvini og skotið öskrum sem segja „NOO!!“. En aðalfúttið byrjar þegar maður breytist í varúlfinn, en þá kemur stutt myndskeið sem sýnir breytinguna úr manni í úlf sem er rosalega flott miðað við takmarkanir 8-bita grafíkarinnar. Varúlfurinn hoppar töluvert hærra en Ken, getur klifrað á yfirborðum, skriðið í gegnum þröng göng og svo buffar hann óvinina með sverðaklónum sínum. Náðuð þið þessu? Varúlfurinn er með SVERÐ fyrir hendur! Hversu töff er það?

Tónlistin í leiknum er frábær og jafnast fyllilega á við lög úr Megaman og Ducktales. Grafíkin í leiknum er líka mjög flott fyrir sinn tíma. Umhverfið í leiknum er mjög litríkt og vel hannað, og spilarinn og óvinirnir eru með flott teiknaðar hreyfingar sem passa vel við leikinn.

Hvað er þá að leiknum?

Öll stjórnun varúlfsins er gersamlega fáránleg. Eins og ég var búinn að segja bætast við fullt af nýjum hæfileikum þegar Ken breytist í varúlfinn, en það er eins og forritarar leiksins hafi ekki gefið sér nægilegan tíma til að fínpússa hvernig þessir hæfileikar áttu að virka, og manni finnst hálfpartinn eins og A og B takkarnir á NES tölvunni séu bara ekki nóg. Stundum þegar maður þarf að gera há hopp neitar úlfurinn að gera þau, og ég er að tala um hopp sem maður fær ekki annan séns á að taka án þess að byrja borðið upp á nýtt. Sömuleiðis eru klifurhæfileikar varúlfsins mjög handahófskenndir, oftast hoppar maður á vegg og heldur sér á honum eins og ekkert sé, en stundum skallar úlfurinn bara vegginn og dettur niður í holu og deyr. En það eru fleiri hlutir sem eru fáránlegir í þessum leik. Einn þeirra er staður í öðru borði þar sem handahófskenndum eldingum lýsist niður hvað úr hverju, en það er engin leið til þess að forðast þær og þar fyrir utan drepa þær úlfinn í einu skoti! Í annað hvert skipti sem ég spila þennan leik missi ég öll aukalífin mín á nákvæmlega þessum stað. Annar hluturinn er sá að með því að safna silfurkúlum í gegnum leikinn getur varúlfurinn breyst í silfurlitaðan ofurvarúlf með fáránlegan stökkkraft og hraða. En það eru svo fáar svona silfurkúlur í leiknum að maður verður að teljast heppinn ef maður nær að breytast í þennan ofurvarúlf einu sinni í gegnum allan leikinn! Maður myndi halda að með því að setja inn slíkan fídus í leikinn myndi maður alla vegana sjá hann gerast í öðru hverju borði eða svo, en kannski fannst hönnuðum leiksins kjánalegt að maður þyrfti að breyta sér fyrst úr manni í varúlf og svo úr varúlfi í ofurvarúlf.

Þrátt fyrir þetta ástar-haturs-samband sem ég á við þennan leik þá spila ég hann samt endrum og sinnum. Ekki misskilja mig, þetta er góður leikur! En maður verður samt svo fljótt pirraður á stýrigöllunum og þeim óþarfa dauðdögum sem þeir leiða af sér að maður vill helst bara fara í Tetris.

.

Shaq-Fu er slagsmálaleikur sem var gefinn út árið 1994. Flestir ættu að vita að Shaquille O’neal, sem er stjarna leiksins, er einn frægast NBA körfuboltamaður allra tíma. Því verður það að teljast dálítið skrítið að á meðan aðrar NBA stjörnur eins Michael Jordan komu fyrir í, tja, körfuboltaleikjum, þá ákvað Shaq að birtast í slagsmálaleik. Saga leiksins er á þá leið að Shaq álpast innan í einhverja búð þar sem gamall maður sendir hann inn í aðra vídd til að bjarga barnabarni sínu frá hinni illu múmíu Sett-Ra. Shaq, sem er meistari í hinni fornu bardagalist Shaqido (af hverju ekki Shaq-Fu?), þarf því að berjast við fjöldan allan af óvinum til að bjarga drengnum. Á meðal þeirra illu afla sem hann hittir fyrir í hinni víddinni er arabískur prins, olíuborpallsverkamaður, kattarkona, voodoo-norn og grænn draugur.

Ok ok, þetta er þegar farið að hljóma kjánalega, en ég ætla samt að segja ykkur hvað það er sem gerði Shaq-Fu svona frábæran fyrir mig. Ég verð að byrja á því að segja að þessi leikur lítur mjög vel út grafíklega séð, tónlist og hljóð í honum er alveg þokkalegt, og hann er með heilar 12 spilanlegar persónur, sem verður að teljast nokkuð gott. Allar hreyfingar á persónunum eru mjög flottar, og hver og ein persóna hafði þó nokkuð mörg brögð sem voru algerlega einstök fyrir þá persónu, sem gerir leikinn frekar taktískan. Sumar persónurnar rústa í návígi á meðan aðrar eru betri í því að forðast óvininn og beita langdrægum brögðum til að sigra. Persónurnar eru líka mismunandi snöggar og sterkar, og þó þetta kunni að hljóma eins og hver annar slagsmálaleikur, finnst mér hafa verið mun meiri munur á persónum í Shaq-Fu miðað við hvernig aðrir slagsmálaleikir voru á sama tíma. Í Mortal Kombat gerðu til dæmis allir jafn mikinn skaða með sínum höggum og spörkum, og allar persónurnar hreyfðust á mjög keimlíkan máta. Ég átti samt aldrei Mortal Kombat eða Street Fighter 2 á Mega Drive, og Shaq-Fu var í rauninni fyrsti slagsmálaleikurinn sem ég eignaðist fyrir þá tölvu. Ég kláraði söguspilunina með öllum 12 persónunum margoft og kunni öll brögð sem hægt var að kunna í leiknum. Þar af leiðandi þegar ég bauð vinum mínum að spila Shaq-Fu með mér gjörsamlega rústaði ég öllum sem spiluðu á móti mér!

Hvað er þá að leiknum?

Ást mín á Shaq-Fu er að miklu leyti byggð á nostalgíu. Ég var langbestur í þessum leik á sínum tíma og þurfti meira að segja að leyfa vinum mínum að vinna mig stundum til að þeir nenntu að spila hann við mig (sorry Hilmar og Arnþór). En Shaq-Fu er því miður án efa einn af hötuðustu leikjum fyrr og síðar. Gametrailers setti Shaq-Fu í fjórða sæti yfir verstu tölvuleiki allra tíma, Gameinformer setti hann í annað sæti yfir slagsmálaleiki sem þeir vildu helst gleyma, og Screwattack setti leikinn í fyrsta sæti a lista sínum yfir verstu slagsmálaleiki allra tíma. Það er meira að segja vefsíða á netinu sem býðst til að kaupa gamla Shaq-Fu leiki svo þeir geti eytt þeim, til að komandi kynslóðir þurfi ekki að spila hann. En af hverju er Shaq-Fu svona hataður? Fyrst og fremst verður hugmyndin á bak við leikin að teljast frekar skrítin. Hverjum datt í hug að setja eina frægustu NBA stjörnu síns tíma í slagsmálaleik sem gerist í fantasíuheimi með skrímslum og uppvakningum? Þar fyrir utan er stjórnin í leiknum frekar stirð. Persónur hoppa alltaf visst langa vegalengd og auðvelt er að gera keðjuverkandi brögð sem er ekki hægt að bregðast við. Það má heldur ekki gleyma því að Shaquille O’neal er í leiknum, sparkandi sínum eldspörkum og kastandi sínum galdra-frisbee diskum. Ég held samt að mikið af þeirri gagnrýni sem leikurinn fær sé hálfgerður múgæsingur. Ef maður lítur aðeins á Shaq-Fu sem slagsmálaleik, en ekki slagsmálaleik með frægri NBA stjörnu, þá er þetta alls ekki slæmur leikur miðað við margt annað sem var gefið út á þessum tíma.

 

Árið 1990 kom út bíómynd um gulklædda einkaspæjarann Dick Tracy, og eins og með margar aðrar bíómyndir kom út NES leikur byggður á myndinni á sama tíma. Ég átti þennan leik á gamla famiklóninum mínum og ég spilaði hann frekar mikið, enda má segja að enginn af famicom leikjunum mínum hafi verið eins fjölþættur og Dick Tracy. Leikurinn gengur út á að spilarinn, sem einkaspæjarinn Dick Tracy, tekur að sér ýmis sakamál og reynir að leysa þau. Til þess að leysa málin þarf Tracy að ferðast um stóra borg á lögreglubílnum sínum og fara inn í fjölmargar byggingar til þess að safna vísbendingum. Þegar spilarinn er búinn að safna nægilega mörgum vísbendingum getur hann yfirheyrt og sakfellt þá bófa sem eru grunaðir um glæpinn. Dick Tracy var mjög metnaðarfullur leikur. Spilarinn gat ferðast um á stóru korti í bílnum sínum og farið inn í fullt af borðum sem hvert og eitt hafði mismunandi uppsetningu. Hugmyndin um safna sönnunargögnum og fara svo á staðinn og handtaka bófann, var frekar frumleg þegar kom að leikjum sem höfðu verið gefnir út á leikjatölvum fram að þessu. Mér fannst líka Dick Tracy vera frekar svalur náungi, og fannst það skemmtileg tilbreyting að sjá hann sjálfan leysa málin, en á þessum árum var RÚV að sýna eldgamlar Dick Tracy teiknimyndir þar sem Tracy lætur undirsáta sína leysa öll málin fyrir sig.

Hvað er þá að leiknum?

Þó svo að ég hafi haft gaman af leiknum sem krakki þá komst ég aldrei langt í honum því þetta er einn erfiðasti leikur allra tíma. Þá á ég ekki við að hann sé „verðug áskorun“ erfiður, heldur „næstum ósigrandi“ erfiður (James Rolfe gerir göllum leiksins góð skil í þessu mynbandi). Til að finna vísbendingar þarf maður að komast á milli borða og til að komast á milli borða þarf maður að nota löggubílinn. En ökupartur leiksins er fáránlega erfiður! Bæði er stjórnin á bílnum frekar þunglamaleg, og svo eru leyniskyttur á öllum þökum umhverfis göturnar sem skjóta á mann linnulaust þannig að maður kemst ekki hjá því að taka skaða! Þegar maður kemst loksins inn í byggingar og fer í hopp og skopp ham leiksins er spilarinn yfirleitt með örfá líf eftir allar leyniskytturnar, og þá bætir ekki úr skák að maður verður að passa sig hvern maður má skjóta. Það eru tveir mismunandi óvinir inní húsunum: Bófar með byssur og bófar án byssna. Það er í lagi að skjóta bófa með byssur, en maður verður að lemja þá óvopnuðu því annars missir maður líf! Borðin eru líka mjög löng, og maður þarf að ferðast á milli fjölmargra staða til að safna vísbendingum áður en maður getur handtekið aðalbófann og komist í næsta borð. Þetta allt saman verður maður að gera á EINU LÍFI. Jebb, ef spilarinn deyr þarf maður að byrja upp á nýtt og keyra á milli borða, klára þau eitt af einu og safna vísbendingum. Ef maður nær að klára svona borð fær maður reyndar lykilorð til þess að halda áfram frá þeim punkti, en mér hefur aldrei tekist að klára fyrsta borð! Leikurinn er það erfiður! Eins gaman og ég hafði af þessum leik á sínum tíma þá hef ég forðast að setja þennan leik í famiklóninn minn á síðari árum. Dick Tracy er flottur og metnaðarfullur leikur, en erfiðleikastig hans er alltof hátt til þess að maður geti haft gaman af honum til lengdar.

Munið þið eftir einhverjum leikjum sem þið hötuðuð að elska?

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑