Leikjarýni

Birt þann 21. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: SSX

Í byrjun mars kom nýjasti SSX leikurinn í verslanir á PS3 og Xbox 360, en liðin eru fimm ár frá síðasta SSX snjóbrettaleik og því margir sem hafa beðið eftir þessum með eftirvæntingu.

Í SSX getur spilarinn valið á milli 11 karaktera til að renna niður snævi þakin fjöll, sem eru það há að sjálfur Tony Montana myndi ekki leggja í þau! Spilarinn getur valið á milli fjölmargra gerða af snjóbrettum, aukahlutum og búningum. Þó eru ekki allir möguleikarnir aðgengilegir í upphafi leiks, heldur þarf spilarinn að vinna sig upp í gegnum leikinn og safna reynslu og punktum sem hann svo notar til að kaupa nýja hluti.

 


SSX snjóbrettateymið samanstendur af þeim bestu úr heimi jaðaríþrótta. Griff nokkur Simmons hefur ákveðið að yfirgefa SSX teymið og tekur flesta styrktaraðila með sér. Griff skorar á SSX teymið að fara niður níu háskalega tinda, en á sama tíma þarf teymið að afla sér fjár.

Í söguhluta leiksins vinnur spilarinn sig upp  og kynnist nýjum karakterum og uppgötvar ný fjöll í ýmsum heimshlutum.

Það hefur augljóslega ekki verið lögð mikil vinna í söguna, en það breytir litlu, sagan sjálf skiptir í raun engu máli þar sem leikurinn snýst fyrst og fremst um að skemmta sér á brettinu og rústa andstæðingnum!

 

Í söguhluta leiksins byrjar spilarinn sem Royal Payne (æðislegt nafn!), en vinnur sér inn nýja karaktera með tímanum. Í leiknum eru alls 11 mismunandi karakterar og hefur hver þeirra sína forsögu sem er kynnt með stuttri myndasögu. Forsögurnar, sem eru stuttar og afskaplega þunnar, bæta í rauninni afskaplega litlu við leikinn og hefði alveg mátt sleppa þeim.

Kynjahlutfallið í leiknum er mun jafnara en gengur og gerist, en hópurinn samanstendur af sjö körlum og fjórum konum. Það er ekki verið að kyngera konur eins brjálæðislega og í flest öllum leikjum (eins og til dæmis í bardagaleikjum þar sem þær eru nánast naktar og brjóstin innihalda flóknar formúlur sem hópur af eðlingsfræðingum hefur sett saman til þess að fá þau til að skoppa „rétt“), en þrátt fyrir það er hópurinn sannkallað stjörnulið af steríótýpum úr snjóbrettaheiminum.

Karakterarnir eru skemmtilega ólíkir en hafa þrátt fyrir það afar svipaðan stíl. Flestir karakterarnir eru frá Ameríku og Kanada en einnig frá Japan, Fiji, Frakklandi og víðar. Svo er það hann Ty Thorsen (sjá mynd til hægri), eða Lucky eins og hann er kallaður, sem er nágranni okkar, en hann er frá Tromso í Noregi. Ein persónan (Eddie) er eingöngu fáanleg í völdum útgáfum.

 

 

Spilarinn getur keypt ný bretti og búninga á alla karakterana. Brettin hafa mismunandi styrk- og veikleika. Til dæmis er eitt bretti betra til þess að framkvæma brögð en annað er mun hraðskreiðara.

Það sem er áhugaverðast aftur á móti eru aukahlutirnir sem eru í boði, en hver aukahlutur þjónar sérstökum tilgangi:

  • Vængjagalli til þess að svífa um.
  • Höfuðljós til að lýsa upp leiðina í myrkri.
  • Ísexi til að ná betri stjórn á karakternum á klaka.
  • Súrefniskútur til að aðstoða karakterinn við að anda þegar hann er á mjög háum tindi.
  • Sólskjöld til að verjast miklu frosti.
  • Snjógleraugu til að sjá betur í blindabil.
  • Hlífar sem styrkja karekterinn gegn höggum og öðru hnjaski.

 

Á upphafsskjánum birtist mynd af jörðinni og getur spilarinn valið á milli tíustaðsetninga. Á hverjum stað eru svo nokkur fjöll sem spilarinn getur valið á milli og þarf ýmist að komast fyrstur í mark eða framkvæma brögð til að ná settum stigafjölda til að komast í næsta borð. Hver staður hefur einnig svokallað Deadly Descent þar sem spilarinn hefur aðeins eitt sett takmark; að lifa af! Spilarinn þarf meðal annars að lifa af snjóflóð, brekkur þaktar grjóti, gifurlegan kulda og aðrar hættulegar aðstæður.

Hvert svæði hefur sín sérkenni þar sem aukahlutirnir koma að góðu gagni. Til dæmis bjargar súrefniskúturinn þér alveg þegar þú rennir þér niður brekkur Mount Everests og sólskjöldurinn kemur að góðum notum í kuldanum á Suðurskautinu.

Listi yfir svæði og fjöll í SSX:
  • Afríka – Kilimanjaro, Mawenzi og Mount Meru.
  • Alaska – Denali (Mount McKinley), Mount Foraker og Silverthrone.
  • Alparnir – Grand Golliat, Mount Blanc og Vorassay.
  • Suðurskautið – Mount Craddock, Mount Slaughter og Vinson Massif.
  • Himalajafjöll – Chomo Lonzo, Lhotse, Makalu og Mount Everest.
  • Japan – Mount Fuji (fylgir ekki með öllum útgáfum leiksins).
  • Nýja Sjáland – Aoraki (Mount Cook), Mount Tasman og Mount Wakefield.
  • Patagonía – Cerro Pollone, Cerro Torre og Fitz Roy.
  • Klettafjöll – Extinguisher Tower, Mount Robson og Whitehorn Mountain.
  • Síbería – Boris, Kara-Oiuk and Mount Belukha East.

 

Allir sem hafa spilað SSX leik áður munu eiga auðvelt með að komast inn í leikinn. Það er auðvelt að ná tökum á karakterunum og framkvæma brjáluð brögð í loftinu. Leikurinn hjálpar spilaranum í upphafi með stuttri kynningu (tutorial) og býður auk þess upp á gömlu stillingarnar (Classic Control) fyrir þá sem eru vanir gömlu SSX leikjunum. Ég hef persónulega ekki spilað SSX leik lengi og notaði nýju stillingarnar og var enga stund að ná tökum á karakternum mínum og framkvæma brögð.

Það er dásamlegt hversu auðvelt er að framkvæma brögðin. Eftir örfá skipti líður spilaranum eins og hann sé fæddur SSX meistari – sem er ekki leiðinleg tilfinning! Brögðin sem karakterarnir framkvæma eru stórlega ýkt (á góðan hátt) og frábærlega vel gerð. Að framkvæma aftur á bak 360° heljarstökk með sjöföldum snúning og tífaldri skrúfu á meðan þú þyrlar snjóbrettinu þínu 30 sinnum í hringi í 5000 metra hæð er auðveldara en að drekka te í SSX. Brögðin eru ótrúlega vel gerð, en spilarinn fær auk þess mjög góða tilfinningu fyrir hraða og fjarlægð í leiknum.

Þegar spilarinn byrjar að renna sér niður brekku getur hann framkvæmt hefðbundin brögð, en með góðum árangri kemst hann í T R I C K Y gírinn þar sem hann getur framkvæmt brjáluðustu snjóbrettabrögð sem þú hefur nokkurm tímann séð. Hér sjáum við nokkur góð dæmi um brögðin sem hægt er að framkvæma í leiknum:

Einn helsti galli (ef galla má kalla) leiksins er hversu mjúklega hann tekur á spilaranum í einspilun þar sem hann ögrar spilaranum lítið sem ekkert. Spilarinn fær óendanlega mikið af peningum til að kaupa nánast hvaða hluti sem er. Einnig getur spilarinn spólað aftur í tímann ef eitthvað fer úrskeiðis, ef hann t.d. fellur niður í gjá, og byrjað þar sem frá  var horfið. Þessi möguleiki gefur leiknum aftur á móti mjög gott flæði þar sem spilarinn þarf ekki að byrja frá byrjun í hvert skipti sem hann gerir gróf mistök. Ég tek þó fram að það er ekki hægt að spóla endalaust oft til baka, þannig að þetta er ekki möguleiki sem hægt er að misnota.

Það sem mér þótti óheillandi í fyrstu við leikinn er að eftir nokkur töp í keppnisbraut er spilaranum  boðið að sleppa brautinni og hoppa yfir í þá næstu. Í dag eru leikir oftar en ekki einum of mjúkir við spilarann og það er líkt og það megi aldrei ögra spilaranum að einhverju ráði. Aftur á móti tel ég ekki að þetta bitni á gæðum leiksins þar sem þetta er snjóbrettaleikur og snýst mikið um að leika sér í brekkunum og gera það sem manni sýnist. Helsta ögrunin felst í raun í fjölspiluninni.

Brekkurnar eru opnari en í fyrri SSX leikjum, sem þýðir að spilarinn getur valið fleiri leiðir en áður. Það kom einstaka sinnum fyrir að ég lenti á svæði sem var ekki ætlast til að nota, og fór þá karekterinn að haga sér furðulega (eins og að festast á milli grjóthnullunga og taka endalausa kollhnísa), en þá er auðvelt að spóla til baka og halda sér þannig inná brautinni.

 

Grafík leiksins er mjög góð, en ekki framúrskarandi. Í leik þar sem þú rennur niður brekkur á ógnar hraða er líka algjör óþarfi að bjóða upp á smáatriði í grafíkinni. Umhverfið í leiknum er ansi raunverulegt þó það sé oft stórlega ýkt, en hey, þannig á SSX að vera. Til gamans má geta þá safnaði EA saman ýmsum upplýsingum um fjöllin sem eru í leiknum og náðu þannig að notfæra sér raunverulegar upplýsingar um svæðin – og kryddaði þær svo upp með stórlega ýktu SSX umhverfi. Útkoman er hreint út sagt frábær!


 

Það er eitthvað við það að heyra hljóðin í snjónum; þegar brettið rennur niður brekkuna og þegar karakterinn lendir á brettinu í mjúkum púðursnjónum. Umhverfishljóðin eru vel gerð og ná að auka upplifunina til muna.

Tónlistin í leiknum er mjög áberandi og er í rauninni ein af  gullstjörnum leiksins. Flest lögin í leiknum má flokka sem drum ‘n’ bass eða dubstep, sem hljómar kannski óheillandi fyrir marga, en lögin smellpassa í leikinn. Lög frá Camo & Krooked, The Qemists, Raffertie og DJ Shadow eru þar á meðal. Ef þú ert með góða hátalara er tilvalið að hækka vel í græjunum, þar sem tónlistin er stór hluti af SSX upplifuninni.

 

RiderNet er leiðarvísir þinn inn í nettengda hluta SSX. RiderNet er gjarnan líkt við Autolog úr Need for Speed, en þar getur spilarinn meðal annars „líkað við“ brekkur, fengið ábendingar um nýjar brekkur og þú getur fylgst með því hvað vinir þínir hafa verið að gera í SSX. RiderNet er tær snilld ef þú ert með nokkra á vinalistanum þínum sem spila SSX reglulega þar sem þú getur fylgst með í hvaða sæti þú ert innan hópsins. Listinn hefur sambærileg áhrif og margir þekkja úr mörgum Facebook leikjum, þar sem þú sérð lista yfir alla vini þína sem spila leikinn og í hvaða sæti þeir eru. Í mörgum tilfellum getur það verið ansi ávanabindandi og hvetjandi að spila þar til þú hefur náð betri árangri en aðrir í vinahópnum.

Þegar þú vilt bæta tímann þinn innan RiderNet færðu upp „drauga“ (eða upptöku) af vinum þínum spila sömu brekkuna. Þannig færðu tilfinningu fyrir því hvar þú ert staðsettur þegar brautin er hálfnuð og getur fylgst með því hversu langt á undan eða eftir þú ert.

Í SSX er einnig hægt að taka þátt í Global Events, þar sem hægt er að taka þátt í ýmsum keppnum sem eru í gangi. Stærð og lengd keppnanna er misjöfn. Til dæmis getur ein keppni tekið allt frá einni lotu upp í nokkra daga.

Fjölspilun SSX er einstaklega vel heppnuð – en þó ekki fullkomin. Það sem vantar í leikinn er möguleikinn á að keppa við vin í gegnum sömu leikjatölvuna, en það er alltaf ákveðin stemning í því að taka tveggja manna leik á staðnum. Það er heldur ekki boðið upp á hefðbundna fjölspilun í gegnum netið, heldur fer öll netspilun fram í gegnum RiderNet og Global Events þar sem þú keppir á móti „draugum“ eða rennur einn niður brekkuna og reynir að ná besta tímanum eða flestum stigum.
Þetta er að mínu mati stór mínus.

Stikla úr SSX

 

SSX er nýjasti leikurinn í samnefndri snjóbrettaseríu. Leikurinn er eintóm skemmtun frá A til Ö, sama hvort þú ert snjóbrettafíkill eða ekki. Í einspilun hefur leikurinn nóg upp á að bjóða, en líftími leiksins margfaldast með því að taka þátt í fjölspiluninni, sérstaklega ef þú átt vini sem spila leikinn reglulega.

Leikurinn samanstendur af stórkostlegt umhverfi, ýktum brögðum, hóp af steríótýpum, í bland við eitilharða tónlist, ótrúlega auðvelda og þægilega stjórnun, fjölbreytta spilun og gæða fjölspilun. Helsti ókostur leiksins er að hann býður ekki upp á tveggja manna spilun. Einnig er einspilun leiksins aðeins of auðveld á köflum, þar sem spilarinn getur valið um að sleppa brekkum sem honum finnst erfiðar.

En niðurstaðan er einföld; SSX er besti og fjölbreyttasti snjóbrettaleikurinn á markaðnum í dag og kemst klárlega á topplistann yfir bestu snjóbrettaleiki allra tíma.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
FJÖLSPILUN
ENDING
8,5
9,5
9,0
7,5
9,5

SAMTALS

8,8

Bjarki Þór

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑