Birt þann 30. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
Spilarýni: Battleship
Battleship (Sjóorrusta) spilið á sér langa sögu, en það var fyrst gefið út árið 1931 af bandaríska spila risanum Milton Bradley Company. Spilið er tveggja manna og það tekur stuttan tíma að undirbúa og einungis um hálftíma að klára. Spilararnir skiptast á að gera og þurfa þeir að giska á hvar herskip andstæðingsins eru staðsett. Sá spilari sem nær að eyða öllum herskipum andstæðingsins fyrst sigrar.
Spilið er fáanlegt í mismunandi útfærslum sem hafa þó flest öll sömu eða svipaðar leikreglur. Battleship tölvuleikir hafa verið gerðir fyrir fjölda leikjatölva (þar á meðal NES, Game Boy og farsíma) og til gamans má geta að í maí næstkomandi er væntanleg Hollywood stórmynd sem er byggð á þessu sama spili.
Uppsetning
Í flestum útgáfum eru báðir spilarar með tvær grindur sem skiptast í 10×10 reiti. Hver reitur er með litlu gati þar sem spilarinn getur raðað upp herskipum sínum og merkt reitina með hvítum og rauðum pinnum.
Hvor spilarinn um sig fær fimm herskip sem þeir staðsetja á fyrri grindinni án þess þó að andstæðingurinn sjái. Alls eru fimm skip; móðurskip sem tekur fimm reiti, stórt herskip sem tekur fjóra reiti, kafbátur sem tekur þrjá reiti, minna herskip sem tekur þrjá reiti og varðskip sem tekur tvo reiti. Hægt er að raða skipunum lárétt og lóðrétt og í sumum tilfellum á ská.
Spilun
Þegar báðir spilarar eru búnir að raða herbátum sínum skiptast þeir á að gera, þeir giska á hvar skip andstæðingsins eru staðsett. Reitirnir eru vanalega merktir bókstöfum lárétt og tölustöfum lóðrétt, svo að spilarar giska til dæmis á hnitin; A-6, E-1, G-9 o.s.frv. Þegar spilarinn giskar á reit en hittir ekki skip setur hann hvítan pinna í reitinn í seinni grindinni, en rauðan ef hann hittir. Spilararnir skiptast svo á að giska á hnit og sá sem er fyrstur að finna (eða eyðileggja) öll herskip andstæðingsins stendur uppi sem sigurvegari.
Eins og áður sagði eru til ýmsar útfærslur af þessu spili. Í útfærslunni sem sést á myndinni hér fyrir neðan er búið að bæta við litlum eyjum þar sem ekki má staðsetja skipin. Eftir að öll skipin hafa verið skotin niður þarf spilarinn að fara á milli eyja í leit að fanga sem hann þarf að frelsa.
Líkt og sést á myndunum er aðeins ein grind fyrir hvorn spilara fyrir sig, en grindin skiptist í rauninni í tvo parta. Þó að útlit útgáfunnar sé ekki hefðbundið þá fylgir það sömu megin reglum og önnur Battleship spil. Í þessari útgáfu er auk þess hægt að fjarlægja spjaldið að leik loknum til að sjá hversu litlu eða miklu mátti muna. Helsti ókosturinn við þessa útgáfu er að rauðu og hvítu pinnarnir detta of auðveldlega úr grindinni. Þetta getur verið ansi pirrandi, sérstaklega þegar maður er ekki viss um hvar pinninn var staðsettur áður en hann datt.
Spil sem allir geta spilað
Battleship er fyrir unga sem aldna. Það er ákaflega auðvelt að setja spilið upp og gerast spilareglur varla einfaldari en þetta. Þar sem leikurinn gengur út á að giska á rétta reiti spilar heppni stóran þátt í því, en ákveðin taktík spilast þó þar inn í þegar spilarar raða skipunum upp.
Þó að Battleship henti ekki endilega reyndari spilurum sem sækjast í eitthvað flóknara þá er spilið löngu orðið klassískt og eitthvað sem flestir geta skemmt sér yfir í hálfa til eina klukkustund.