Leikjarýni

Birt þann 17. desember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Dark Souls

Dark Souls (PS3) er einstakur hlutverkaleikur (action RPG) sem gerist í óvinveittum og þrúgandi en fjölbreytilegum ævintýraheimi þar sem hættur leynast við nánast hvert fótspor. Dark Souls og forverinn, Demon’s Souls, eru þekktir fyrir það að vera erfiðir en vandaðir leikir og ólíkir öllu öðru sem er á markaðinum í dag. Þeir eru einnig dæmi um japanska leiki sem hafa farið yfir til vestur heims með góðum árangri.

SPILUN

Að mörgu leyti er þetta eins og hefðbundinn hlutverkaleikur en blandað er saman tæknilegri getu nútímaleikja við erfiðleikastig eldri leikja sem er í andstæðu við þróun sambærilegra leikja í dag sem reyna vera sem aðgengilegastir. Í upphafi velur spilarinn sér hlutverk eins og t.d. riddari (knight) eða galdrakall (sorceror) en alls eru tíu hlutverk sem standa til boða. Greinarhöfundur valdi svokallaðan pyromancer sem sérhæfir sig í að..tja..kveikja í andstæðingum sínum á mismunandi vegu en er einnig liðtækur með hefðbundin vopn. Reyndar skiptir ekki  höfuðmáli hvaða hlutverk þú velur, allir hafa möguleika á að læra alla galdra og geta notað öll vopn sem eru í boði. En það eru kostir við það að ákveða fljótlega spilastíl sem notast skal við.

Leikurinn heldur ekki mikið í höndina á þér í byrjun og því síður þegar lengra er komið. Það eru sumir þættir sem þú þarft hreinlega að komast að sjálfur í gegnum tilraunastarfsemi ef þú stelst ekki til að kíkja á netið. Þú byrjar samt á svæði sem kennir þér helstu stýrimöguleika með aðstoð vísbendingakerfis. Vísbendingarnar liggja á jörðinni sem rauðglóandi reitir sem hægt er að lesa. Fljótlega ertu samt farin/n að berjast við höfuðskrímslið (boss) á svæðinu og ef þú nýtir þér ekki allt sem þú hefur lært hingað til endistu ekki lengi.

Það að komast áfram í leiknum byggist á því að safna sálum (souls) sem fást með því að sigra óvini eða nota ákveðna hluti sem finnast á ýmsum stöðum í leiknum. Sálirnar eru gjaldmiðill fyrir allt, þú styrkir karakterinn þinn með þeim, bætir vopn, kaupir vopn, klæðnað og hluti, lærir og styrkir galdra og meira til. Það sem gerir Dark Souls svo einstakan er að þú getur tapað þessum sálum sem þú hefur safnað upp á augabragði, það er enginn geymslustaður fyrir þær. Þegar þú drepst  missiru allar sálirnar og þær verða eftir á staðnum sem þú drapst á. Þú hefur einn möguleika til að ná þeim aftur og það er oft ekki auðvelt þar sem það var jú ástæða fyrir því að þú drapst á þessum tiltekna stað. Þá komum við að hinu meginatriðinu sem gerir þetta erfitt; það er ekki hægt að byrja aftur og nota vistun (save) því að Dark Souls vistar sjálfkrafa nær stöðugt. Af þessari ástæðu þarf að passa sig sérstaklega á því að ráðast ekki á sölumenn (merchants) því að það verður ekki tekið til baka (nema gegn dýru gjaldi) og þeir eru ekki ánægðir með að láta pota í sig með sverði.

Þegar spilarinn deyr þá byrjar hann á síðasta bálkesti (bonfire) sem hann hefur aðgengi að. Þessir bálkestir eru ekki á hverju strái og oft er mjög spennandi að reyna að finna næsta bálköst áður en þú drepst svo þú þurfir ekki að byrja aftur langt aftur í leiknum.
Allt ofangreint skapar einstaka spilaupplifun sem heldur manni í stöðugri spennu og allt sem þú gerir skiptir máli. Það þarf að sýna stöðuga varkárni og nota sálirnir í eitthvað reglulega, t.d. áður en farið er í stóran bardaga því að þú munt nær örugglega deyja í fyrstu skiptin.

Bardagakerfið er mjög vel gert, hérna skiptir máli hvort maður snýr baki í andstæðinginn eða hvort maður taki rosalega sverðsveiflu sem missir marks. Andstæðingurinn mun nýta sér þessi mistök og oftar en ekki drepa þig samstundis. Það er hægt að rúlla sér frá árásum, hoppa afturábak, skýla sig bakvið skjöld á réttu augnabliki, slá sverði andstæðingsins frá (parry) og þar fram eftir götunum. Mikill fjölbreytileiki er líka í vopnum og skjöldum en byssur finnast ekki í þessum heimi, aðeins bogar og lásabogar (og að sjálfsögðu galdrar). Hver bardagi er lítill leikur innan leiksins, sama taktík dugir ekki í hvert sinn en fljótt kemstu upp á lagið með þetta.

 

HLJÓÐ

Tónlistin er eins klassísk og hugsast getur og passar vel við andrúmsloftið í leiknum. Hún er flutt af stórri sinfóníuhljómsveit og hvert höfuðskrímsli hefur sitt eigið þema. Hljóðin í leiknum eru mjög sannfærandi hvort sem sverð mætir sverði, vængjaþytur dreka eða andadráttur innan úr myrkum göngum. Talsetningin er ekki það góð en ekki það slæm heldur að það trufli. Sagan í Dark Souls er ekki lykilatriði, þú byrjar að spila og smátt og smátt kynnistu heiminum í gegnum hluti og samtöl. Aftur er það ekkert sem truflar en það var meiri saga í Demon’s Souls og hugsanlega hefði Dark Souls getað grætt á því ef leikmaðurinn hefði fundið meiri tilgang með því sem hann var að gera í leiknum.

 

GRAFÍK OG MYNDAVÉL

Grafíkin er mjög vel gerð, það er mikið um fjölbreytileg svæði og birta er vel notuð til að skapa stemmningu. Stærðarhlutföll eru vel notuð til að gefa umhverfinu epískan brag hvort sem það eru stórfenglegar borgir eða stærðarinnar skrímsli. Myndavélin (camera) og sjónarmið hennar virka almennt vel en einstaka sinnum fer hún á eitthvað flakk þegar spilarinn er í þröngu eða lokuðu svæði. Einn galli er sá að sami takki er notaður til að merkja (target) andstæðing og að snúa sér við. Ef maður er nógu nálægt andstæðingnum er hann merktur annars snýr maður sér við, þetta getur verið hrikalega óþægilegt þegar þú ert rétt ókominn að andstæðingi, snýrð þér við því að þú ert ekki alveg nógu nálægt, og á meðan leggur hann til atlögu. Þetta er hinsvegar ekki það slæmt vandamál því maður hefur tíma til að endurstilla sig.

 

NETTENGING

Dark Souls er að hluta til hægt að spila yfir netið (online) en það er líka hægt að sleppa því alveg. Ef valið er að spila yfir netiðer hægt að fá aðstoð annarra spilara til að sigrast á erfiðum hlutum leiksins en spilararnir geta líka ráðist inn í þinn heim og drepið þig (player-versus-player). Í einstaka tilfellum er líka hægt að fá tölvustýrðar persónur (NPC) til að hjálpa þér með erfiða bardaga.

 

NIÐURSTAÐA

Það er óhætt að mæla með Dark Souls fyrir leikjaunnendur og þetta er besti leikur sem ég hef spilað á árinu. Flestir leikir nú til dags eru ekki erfiðir og maður lendir nánast í því að safna bara hlutum og ýta söguþræðinum áfram eins og um kvikmynd væri að ræða. Dark Souls er afturhvarf til fortíðar þegar leikir lögðu áherslu á jafnvægið milli áhættu og verðlauna (risk vs. reward). En það eitt dugir ekki til að gera hann eins góðan og raun ber vitni. Dark Souls er vel úthugsaður og djúpur leikur, hvort sem litið er á bardagakerfið, uppbyggingu svæða eða það að efla karakterinn sinn.

Margir leikir í dag eru flottir en það vantar oft eitthvað sem gerir þá eftirminnilega en ef ég þyrfti að velja eitt orð til að lýsa Dark Souls þá væri það að hann er eftirminnilegur. Verið bara viðbúin því að deyja oft eða „prepare to die“ eins og stendur utan á leikjaboxinu.

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
9,0
9,5
8,5
9,5
10

SAMTALS

9,3

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑