Leikjarýni

Birt þann 26. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Batman: Arkham City

Leikurinn er framleiddur af Rocksteady Studios og byggir á magnþrungnu og dimmu umhverfi forverans, Batman: Arkham Asylum, sem setur spilarann í hörkuna sem er í Arkham City, „heimili“ fanga sem ættu að vera í hámarks öryggisfangelsi. Þar eru hýstir helstu hrottar, mafíósar og illmenni Gotham City.

Batman: Arkham City skilar upplifuninni að vera Batman með góðum og djúpum söguþræði, stórum götubardögum, spennandi laumuspili, marghliða kerfi til að safna og kanna sönnunargögn, epískum ofur-illmennum og óvæntri innsýn inn í hugarheim Batman.

 

Spilaðu sem Catwoman

Catwoman er spilanleg persóna í Batman: Arkham City og hefur hún sinn eiginn söguþráð sem er samofinn aðalsöguþræði leiksins. Bardagahreyfingar, klifur og búnaður hennar hefur verið hannaður sérstaklega með það í huga að það sé verið að spila aðalpersónu, ekki aukapersónu. (Hún er fáanleg sem niðurhals-viðbót).

 

Háþróað bardagakerfi

Batman mun lenda í sameinuðum og skipulögðum árásum frá öllum hliðum þegar gengi Arkham City komast í færi við hann. Óvinir nýta sér hvert tækifærið á fætur öðru til að reyna að vera með yfirhöndina gegn Myrka Riddaranum og notast þeir við barefli, eggvopn sem og skotvopn. Vopnaðir nýrri gervigreind munu þeir ráðast á Batman í hópum og skipuleggja flestar árásirnar.

 

Ný tæki

Batman hefur aðgang að nýjum tækjum í bardögum sínum gegn illmennunum, en þau eru til dæmis; reyksprengjur, afkóðari (cryptographic sequencer) og auðvitað hefur hann aðgang að þeim vopnum sem voru í forveranum, Batman: Arkham Asylum.

Ný saga

Fimmfaldi Emmy sigurvegarinn Paul Dini skrifar söguna og því er ekki við öðru að búast en magnaðri sögu með mikilli spennu og óvæntum útúrsnúningum.

 

Arkham hefur verið fært

Eftir að Arkham Asylum og Blackgate fangelsinu var lokað skipaði nýi borgarstjóri Gotham, Quincy Sharp, að allir „gestir“ stofnananna yrðu færðir yfir í Arkham City – nýtt fangelsissvæði sem er fimm sinnum stærra en Arkham Island sem spannar margslungið umhverfi svo sem iðnaðarhverfi, táknrænar staðsetningar og kennileiti.

Arkham City var áður nokkur hverfi sem voru í algjörri niðurníðslu en þau voru keypt og sterkbyggður og öflugur veggur reistur utan um hverfin og svæðið nýtt sem geymslupláss fyrir lagabrjóta. Veggurinn og svæðið er vaktað af Tyger öryggisfyrirtækinu en sýnileiki þeirra er ekki mikill á svæðinu sjálfu þar sem föngunum er að flestu leyti leyft að stunda sinn hrottaskap óhindrað. Matar- og læknabirgðir eru sendar inn á svæðið, en þær eru af skornum skammti og hart barist um hvern vatnssopa og matarbita.

Risahópur af persónum

Íbúar Arkham City eru ekki með öllu óþekktir en þar búa helstu illmennin sem hafa verið fræg fyrir glæpi sína, svo sem Catwoman, Two-Face, Harley Quinn, Penguin, Hugo Strange, Victor Zsasz, Calendar Man, The Joker, The Riddler, Mr. Freeze, Talia al Ghul, Solomon Grundy og margir margir aðrir.

 

Öflug talsetning

Mark Hamill (Luke Skywalker) og Kevin Conroy endurtaka hlutverk sín með því að tala inn á fyrir Joker og Batman. Stana Katic úr vinsælu sjónvarpsseríunni Castle, talar inn á fyrir persónuna Talia al Ghul.

 

GAGNRÝNI

Þegar þú velur að byrja nýjan leik sést að möguleiki er að hafa fjóra leiki vistaða á sama tíma fyrir hvern aðgang leikjavélarinnar. Það er sniðugt því gott er að hafa valmöguleikann á að vera með leikinn í spilun á nokkrum erfiðleikastigum í einu, ef það er þinn spilastíll.

Í byrjun er þér boðið að ná í Catwoman persónuna ef þú hefur kóða fyrir henni, og ef ekki er kóði til staðar er þér boðið að kaupa hana (á ca. $10). Mælt er með að sækja hana sem fyrst því að suma hluti í leiknum er bara hægt að nálgast sem Catwoman sem og að hún inniheldur sína eigin sögu sem tengist inn í sögu Batman. Fyrir utan að ef viðbótin er ekki sótt minnir leikurinn þig á það í hvert skipti sem þú byrjar í leiknum. Um leið og leikurinn byrjar fer ekki á milli mála að hér er kominn leikur sem mun ganga skrefinu lengra en forverinn, Batman: Arkham Asylum. Dimmt andrúmsloft, alvarlegar persónur og þéttur söguþráður.

Sagan

Sagan er frábær á nær allan máta. Aðalsagan tengist öllum stærstu persónunum sem við höfum komið til með að þekkja og elska, á okkar eigin máta, í gegnum Batman söguna. Þær persónur eru auðvitað Jókerinn, Penguin, Two-Face og Riddler, svo nokkrir séu nefndir. Sögunni tekst velað útskýra tengsl milli Batmans og illvirkjanna. Ásamt aðalsögunni eru margar hliðarsögur sem spilast vel með en eru ekki kjarni leiksins. Hliðarsögurnar eru samt skemmtileg viðbót og maður fór oft úr vegi sínum til að finna þær.

 

Grafík

Grafíkin í leiknum er dimm, drunga- og skuggaleg. Í Arkham City er alltaf nótt en lýsingar af götuljósum, vasaljósum og neon-skiltum eru meira en nóg. Í svona dimmum leik þarf varla að segja að skuggar og ljós skipta sköpum í grafíkvélinni, en Rocksteady Studios náðu því frábærlega því leikurinn lítur skuggalega vel út.

Módelin í leiknum eru svakalega vel gerð og sést greinilega að hvert einasta smáatriði var gaumgæfilega gert. Umhverfið er líka frábært og sést vel þegar ferðast er á milli hverfa. Kirkjur og blokkir í íbúðarhverfum en verksmiðjur og stórir reykháfar í iðnaðarhverfum. Fullt af þakskeggjum til að skjóta gripkróknum (Grappling Hook) til að hífa sig upp á hærri staði til að fá betri yfirsýn og ferðast hraðar um gríðarstóra svæðið.

 

Hljóð

Hljóðið í leiknum gefur grafíkinni ekkert eftir. Hvert högg sem dynur á óvininum (eða manni sjálfum) heyrist skýrt og greinilega og liggur við að maður finni til með þeim sem tók við högginu. Hljóðin í tækjunum, skikkjunni hans Batmans og óp óvina þegar þeir reka augun í Myrka Riddarann passa fullkomlega og hjálpar það við innlifun manns í leikinn.
Talsetningin er svakaleg. Þvílíkar stórstjörnur í talsetningarbransanum sem koma að leiknum og má þá helst nefna eitt stærsta nafnið, Mark Hamill (Luke Skywalker) sem talar fyrir The Joker. Hann hefur látið hafa eftir sér að þetta sé í síðasta skipti sem hann talar fyrir snarbilaða aðilann en maður getur vonað að honum snúist hugur.

Spilun

Spilun leiksins er nánast fullkomin. Það tekur nokkurn tíma að venjast stjórntækjum leiksins og maður var nokkuð duglegur að hlaupa á veggi og detta fram af húsþökum til að byrja með. En eftir nokkra spilun tekst manni að stýra Batman fullkomnlega þannig ekki örvænta þó að erfitt sé í byrjun. Bardagakerfið er bæði einfalt og flókið, en flæðið í bardögum er nánast áður óséð og sýnir hvað er hægt að gera. Hérna myndi ég segja að leikurinn hefur sett staðalinn umhvernig bardagar eiga að vera útfærðir og þrátt fyrir gríðarlegan fjölda bardaga sem maður lendir í þá er ekki oft sem maður getur séð nákvæmlega sömu hreyfinguna.

Það að ferðast um borgina er unun og er hægt að ferðast nokkuð hratt með því að nota samspil gripkróksins og skikkjunnar, en með henni er hægt að svífa yfir þónokkra vegalengd. Endurspilun leiksins er mikil og þegar aðalsagan er kláruð opnast nýr valmöguleiki þar sem byrjað er á nýjum leik en allir óvinir eru margfalt erfiðari. Í heiminum eru mörg hundruð stykki sem tengjast Riddler og þótt að nokkuð auðvelt sé að finna þau, þarf oft að leysa þrautir til að nálgast stykkin. Sumar þrautirnar reyna vel á gráu heilasellurnar og því kærkomin viðbót í hasarleik sem þessum.

 

Í stuttu máli

Allt í allt er þetta leikur sem enginn má láta framhjá sér fara. Frábært umhverfi og frábærspilun sem inniheldur alvöru Batman fíling. Þetta er leikur sem hægt er að hoppa í bæði í fimmtán mínútur eða marga klukkutíma í einu. Hægt er að spila leikinn á þinn veg, þ.e.a.s. þú getur verið að læðupúkast og tekið einn og einn óvin út í einu eða fengið útrás og ráðist á alla í einu. Þú getur verið að sækjast eftir bardögum eða verið að leysa þrautir. Það skiptir ekki miklu máli í hvernig stuði þú ert því þessi leikur hefur það breitt svið að hann ætti að geta fyllt upp í skemmtanaþörfina.

Þessi leikur verður kærkominn gestur í tölvunni minni um ókomna framtíð og ég mun alltaf geta ímyndað mér að hoppa í dimma heiminn sem Batman: Arkham City býður uppá.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
9,5
9,5
9,0
9,0
9,0

SAMTALS

9,2

Daníel Páll Jóhannsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑