Bækur og blöð

Birt þann 28. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ævintýri Tinna – Annar hluti

Eftir langa bið hef ég loksins komist í aðklára seinni greinina um Tinnabækurnar og kynnumst við tveim liðsfélögum Tinna sem allir kannast við; Kaftein Kolbein og Prófessor Vandráð. Meðal annars verður farið í gegnum Tinnabækurnar þrjár sem kvikmynd Spielbergs er byggð á en ég mun ekki spilla þeirri mynd fyrir þeim sem ekki hafa séð hana.

 

Skurðgoðið með skarð í eyra

Sjötta og skemmtilegasta Tinnabókin hingað til að mínu mati. Þegar skurðgoði er rænt af safni og skilað aftur, ákveður Tinni að komast til botns í málinu. Í ljós kemur að skurðgoðið, sem skilað var til safnsins, er eftirlíking og að tveir ræningjar sækjast eftir skurðgoðinu sem er nú horfið á ný. Leiðin liggur til Suður-Ameríku þar sem Tinni flækist í borgarstyrjöld sem geisar þar.

 

Skurðgoðið er fyrsta sagan af Tinna þar sem hann er á höttunum eftir einhvers konar fjársjóði, en þær sögur eru þær bestu að mínu mati því þær eru öruggari með sig og halda sig við formúlu sem einfaldlega virkar best fyrir tón Tinnabókanna. Svaðilförin um Suður-Ameríku er breytileg og hinar mörgu staðsetningar bjóða upp á margskonar áhugaverðar uppákomur. Langbest fannst mér þegar Tinni fékk sér í glas og það sem gerist í kjölfarið – alveg þrælfyndin atburðarás. Það sem kom hvað mest á óvart var ímynd Hergés á helvíti í heimi Tinna, það kom mér að óvöru. Við fáum einnig að sjá Tinna sýna sig sem rannsóknarblaðamann í byrjun bókarinnar, gott stuff.

 

Svaðilför í Surtsey

 

Tinni sér flugvél nauðlenda og í ljós kemur að það eru skúrkar um borð sem reyna að verða honum að bana. Þeim tekst það ekki og hann kemst að því að þeir voru hluti af hópi peningafalsara og að bækistöðvar verkefnisins eru staðsettar á lítilli eyju við Skotland, en sagt er að dularfull ókind sé á eyjunni.

Skaftarnir eru loksins komnir í stærra hlutverk og er það skemmtileg tilbreyting. Ófarir þeirra eru kostulegar og skáka vel við alvarlegri tón ævintýrisins. Tobbi er kostulegur þegar hann sækist í viskídropa og ókind eyjunnar er … öhm, spes. Þetta ævintýri er fljótlesnara en Skurðgoð og Blái Lótusinn, og mun einfaldara þar sem það er minna um félagslega atburði sem þær bækur tengdust og þar með mun minni texti til lestrar. Skemmtileg en fljótt gleymd Tinnabók.

 

Veldissproti Ottókars konungs

Öhm….

 

Krabbinn með gylltu klærnar

 

Þá er komið að einni af þrem Tinnabókunum sem kvikmynd Spielbergs er byggð á. Níunda bókin um Tinna, Krabbinn með gylltu klærnar, er bókin sem kynnir síblótandi sjóarann Kaftein Kolbein fyrir okkur. Ætli kauðinn hafi verið fyrirmynd íslenskra ungmenna um hvernig skal drekka almennilega?

Tinni eltist við smyglara sem nýta sér varning merktan kröbbum. Tinna er rænt af smyglurunum og færður um borð skipsins þeirra, en þar er skipstjórinn Kafteinn Kolbeinn haldin í prísund sinnar eigin drykkju og nýta smyglararnir ástand hans til að sölsa undir sig skipið. Tinni deyr þó ekki ráðalaus og út á sjó hittast þessar tvær sögulegu persónur loks.

 

Þó svo að bókin bendi ekki til þess að Kafteinn Kolbeinn verði mikilvæg persóna í næstkomandi ævintýrum Tinna, má þetta teljast sem fjári góð kynning á kauða. Hann sýnir drykkjusemi sína (og aftur er drykkja fyndin á köflum en er hér að mestu leyti nýtt til að sýna slæmt ástand Kolbeins), sjóarakjaftinn og blindu reiðina er áfengið er skotið úr höndum hans.

 

Dularfulla Stjarnan

 

Halastjarna stefnir til jarðar og mun enda allt líf, eða hvað? Svo virðist sem útreikningar nokkurra vísindamanna eru  rangar og að halastjarnan hafi ekki valdið endalokum allra. Þess í stað er hún staðsett nálægt Grænlandi. Áætlað er að halastjarnan hafi nýjan málm að geyma sem væri mikils virði í heimi vísindalegra uppgötvanna. Tinni fer ásamt Kolbeini og herskara vísindamanna sem uppgvötuðu tilvist málmsins til að eigna sér réttinn á uppgvötuninni. Þó stefna keppinautar þeirra í sömu átt og munu þeir harðjaxlar ekki deyja ráðalausir.

Þessi Tinnabók sker sig frá öllum hinum sem komu á undan henni með því að vera fyrsta sagan sem byggist á vísindaskáldskap. Andrúmsloftið í upphafi bókarinnar er einnig mjög afstætt í Tinnabók þar sem notkun á skuggum og frekar ógnvekjandi ummerkjum um endalokin vekja upp mikinn drunga. Það besta er að þessi sérstæða saga er mjög skemmtileg tilbreyting eins og flestar aðrar Tinnasögur sem meðhöndla vísindaskáldskap.Þar sem ég hef ekki lesið bókina í mörg ár kom það mér skemmtilega á óvart að Ísland var einn af stöðum bókarinnar sem persónurnar staldra við um tíma; nánar tiltekið, á Akureyri.

 

Sagan er ekki sérstaklega eftirminnileg fyrir utan vísindaskáldskapinn en er þó helvíti fyndin á köflum (enn og aftur sannar alkahólið sig sem það fyndnasta í Tinnabókunum). Bókinni tekst einnig að meðhöndla fínu línu alvarleikans og skrípalegra atvika vel og mun þessi vel sannaði tónn vera staðall bókanna héðan í frá (fyrir utan nokkrar).

 

Leyndarmál Einhyrningsins

 

Tinni kemur sér í krappann þegar hann kaupir líkan af skipinu Einhyrningnum á flóamarkaði vegna þess að hættulegir menn sækjast eftir því og leyndarmáli líkansins. Eftir að Tinni finnur bréfsnifsi í skipslíkaninu er honum rænt og þarf hann að beita snerpu sinni til að komast til botns í málinu.

 

Ég verð að viðurkenna að þetta er með slakari Tinnabókunum, þá aðallega vegna þess hversu óeftirminnileg hún er. Besti kaflinn er án efa þegar Kolbeinn lýsir dagbókarfærslum forföður síns á skipinu og er eini raunverulegi ævintýralegi kaflinn í bókinni, restin er skopleg ráðgáta. Leyndarmál Einhyrningsins er þó án efa ein fyndnasta Tinnabókin.

 

 

Bókin er í raun ein stór uppbygging fyrir það sem koma skal í næstu bók, Fjársjóður Rögnvalds Rauða, og er auðvellt að sjá að Spielberg og félagar ákváðu að blanda þessari bók saman við aðrar til að færa okkur heilsteyptari sögu (og til að kynna Kaftein Kolbein fyrir okkur). Ráðgátan í kringum líkön Einhyrningsins er áhugaverð en ofur-einföld.

 

 

En þar liggur vandinn; bókin er alls ekki sjálfstæð líkt fyrrum ævintýrum Tinna og þjáist söguþráðurinn og hluti skemmtanagildisins fyrir það. Bókinni lýkur jafnvel á Tinna að segja þér að hinkra þar til þú færð næstu bók í hendurnar, sem er ansi súrealískt þar sem hann horfir beint til lesandans og slíkt hefur ekki gerst áður í Tinnabók.

 

Fjársjóður Rögnvalds Rauða

 

Bókin hefst þar sem frá var horfið: Tinni og Kafteinn Kolbeinn hafa fundið staðsetningu Einhyrningsins. Þeir hefjast handa við að undirbúa ferð sína og kynnast þá hinum heyrnaskerta Prófessor Vandráð. Prófessorinn slæst með þeim í för í leit að fjársjóði Rögnvalds Rauða en leitin reynist erfiðari en þá grunaði.

 

 

Já, eins og þið lásuð er þetta bókin sem kynnir Prófessor Vandráð til sögunnar, frábærri viðbót í hópinn þar sem heyrnaleysi hans fer skemmtilega í taugarnar á okkar mönnum. Samskiptin milli Kolbeins og Vandráðs eru oftast bráðfyndin þó þetta sé í raun sami brandarinn endurtekin oft.

 

 

Annað er voða lítið hægt að segja um bókina þar sem bókin einfaldlega gengur út á fjársjóðsleitina og er ekkert illmenni að þessu sinni til að kljást við. Samanlagt eru sögurnar tvær eftirminnilegri og skilja meira eftir sig, einfaldlega mjög fljótur og góður lestur en langt frá því að vera bestu Tinnabækurnar.

 

 

Næst verður hins vegar farið í (að mínu mati) einhverjar bestu Tinnabækurnar og verður biðin ekki jafn mikil þá milli greina.

Smelltu hér til að lesa fyrsta hluta um ævintýri Tinna!

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑