Birt þann 16. október, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
1Famiklónar og af hverju ég safna Famicom leikjum
Í færslu seinasta mánudags kom ég örstutt inn á munin á Family Computer (Famicom) og Nintendo Entertainment System (NES). Það var samt aðeins toppurinn á ísjakanum eins og er sagt, því fjölmargir fleiri hlutir greina þessar tölvur að. Í rauninni mætti segja að Famicom og NES tölvurnar séu eins og tvíburar sem voru skildir að við fæðingu. Einn tvíburinn var alinn upp í fátækrahverfi þar sem hann var daglega misnotaður og rændur, en lærði þó heilmikið af reynslu sinni og varð við það að betri manneskju. Hinn tvíburinn aldist upp hjá ríkum foreldrum sem ofvernduðu hann. Hann fékk allt flottasta dótið en mátti ekki fara út að leika sér með hinum krökkunum því þeir gætu haft vond áhrif á hann. Fyrri tvíburinn er Famicom, sá seinni er NES.
Ekki ósvipað söguþræðinum í It Takes Two með Olsen tvíburunum
Þó svo að báðar vélarnar notist við sömu tæknina þá er einn stór munur á þeim. NES tölvan var með lítið tæki sem kallast NES Lockout Chip. Í hvert skipti sem leikur er settur inn í NES tölvuna kannar tækið hvort leikurinn sé gefin út af Nintendo, ef svo var ekki virkaði leikurinn ekki á tölvunni. Famicom tölvan var ekki með svona Lockout Chip, sem gerði fullt af öðrum fyrirtækjum kleift að búa til sína eigin leiki og gefa þá út í óþökk Nintendo. Þó var algengara að þessi ólöglegu fyrirtæki stálu áður útgefnum leikjum, breyttu þeim örlítið og gáfu þá út sem nýja leiki. Slík fyrirtæki eru almennt kölluð „Pirates„, sem þýðir á Íslensku sjóræningjar, en þar sem það orð er of gildishlaðið til að nota í þessu samhengi held ég mig við enska orðið.
"Fulla ferð áfram! Famicom leikir framundan! Arrr!"
Pirate fyrirtækin stoppuðu þó ekki við einfaldan hugbúnaðarþjófnað. Fyrirtæki í Tævan, Kína, Póllandi, Rússlandi, S-Ameríku og víðar hófu framleiðslu á sínum eigin Famicom tölvum sem eru jafnan kallaðar famiclones, eða famiklónar. Famiklónar líkt og pirate leikirnir, voru seldir fyrir brot af verðinu sem alvöru Nintendo vottuð vara kostaði. Mismunurinn á framleiðslukostnaði og sú staðreynd að verið var að endurbyggja stolna tækni, kom að sjálfsögðu niður á gæðum vörunnar sem pirate fyrirtækin framleiddu. Pirate leikir eru oft illa forritaðir og rafeindaborðin inni í leikjahylkjunum eru jafnan búin til úr síðri efnum en alvöru Nintendo leikirnir. Þetta leiðir oft til þess að pirate leikir endast ekki eins lengi og Nintendo vottaðir Famicom leikir, og þeir eru líklegri til að hafa forritunargalla sem geta gert þá óspilanlega. Famiklónarnir höfðu líka ýmsa galla. Tölvuíhlutirnir inni í famiklónunum voru oft byggðir á svokallaðri NOAC tækni, sem stendur fyrir NES On A Chip. Án þess að ég fari út í of tæknilega hluti þá get ég sagt að NOAC famiklónar hafa mun síðri getu til að spila leiki vegna þess að öll tölvan er samansoðin á einn tölvukubb, í stað þess að hafa einn kubb fyrir hljóð, einn fyrir minni o.s.frv. Þeir spila suma leiki fínt, aðrir spilast aðeins hægar eða með lélegri hljóm- og myndgæðum, en suma leiki eru þeir einfaldlega ófærir um að spila. Þetta á að sjálfsögðu ekki við allt sem pirates hafa framleitt. Sumir pirate leikir eru pottþéttir og í ekkert síðri gæðum en venjulegir Famicom leikir. Þetta á ekki eins vel við famiklónana. Flestir famiklónar eru mun síðri en alvöru Famicom tölvur, og ég held ég geti jafnvel fullyrt að engin famiklón sé betri eða jafn góður og alvöru tækið.
Á sama hátt og klónahermenn eru ömurlegir miðað við Jango Fett
Tökum umræðuna aðeins hingað heim á klakann. Í kringum 1990 voru NES tölvur farnar að ryðja sér til rúms á mörgum íslenskum heimilum. Allir krakkar á þessum tíma áttu annað hvort svona tölvu eða þekktu einhvern sem átti svona tölvu. Ég var í seinni hópnum, ég þekkti fullt af krökkum sem áttu NES tölvur en átti ekki slíka sjálfur. Ég var samt ekki tölvulaus, því ég var einn af þessum fáu krökkum sem áttu famiklón tölvu. Famiklón tölvan sem virðist hafa verið einráð á markaðnum hér á Íslandi var Family Game tölvan, en hún var framleidd af NTDEC, argentínsku pirate fyrirtæki. Þar sem Ísland var inn á skandinavíska NES markaðnum voru aldrei fluttir inn alvöru Nintendo Famicom leikir hingað. Allir Famicom leikir sem voru seldir hérna heima voru þar af leiðandi pirate leikir, og voru sennilega flestir framleiddir af NTDEC líka.
Gamall kassi utan af NTDEC Family Game tölvu
NTDEC klónarnir voru fluttir inn af Alefli og voru meðal annars seldir í Radionaust og Miklagarði. Í auglýsingu sem birtist í daglblaðinu Dagur árið 1991, má sjá að ný NTDEC tölva var seld á 8.990kr, en NES tölvur kostuðu þá í kringum 14.000kr, en árið á undan kostuðu þær 24.000kr. Í stuttum pistli sem var birtur í Pressunni 4. janúar 1991, kemur fram að hátt í 3000 NES tölvur hafi selst fyrir jólin, en þar láta líka umboðsaðilar Nintendo á Íslandi óánægju sína í ljós með innflutning og sölu á famiklónum:
„Hljómco mun ekki vilja una því að fyrirtækið Alefli kaupi inn og selji á markaði hér það sem þeir telja vera eftirlíkingar af leikjatölvunni [NES] … Hljómco-menn segja að eftirlíkingin svari engan veginn þeim kröfum sem gera verði til tækjanna, kerfið sé ekki nógu öflugt fyrir Nintendo leikina. Það var Mikligarður sem sá um söluna á þessum tækjum fyrir jólin, og bauð mun lægra verð en Hljómco og aðrir sem seldu „orginalinn“ …“
Hljómco höfðu ekki alveg rétt fyrir sér, Family Game tölvan var ekki eftirlíking af NES heldur Famicom. Varðandi það að „tækið“ sé ekki nógu öflugt fyrir Nintendo leikina, þá hefði sú yfirlýsing í flestum tilvikum átt við rök að styðjast, enda er ég búinn að útskýra það að famiklónar eru almennt séð mun verri en alvöru Nintendo framleiðsla. En það vill svo til að NTDEC Family Game er einn albesti famiklón sem framleiddur hefur verið! NTDEC klóninn er nefnilega ekki NOAC klón, heldur svokallaður Full Hardware klón, sem þýðir í raun að hann hefur mjög svipaða tölvunargetu og alvöru Nintendo tölvur. Það er talið að hann geti spilað alla alvöru Nintendo Famicom leiki sem hafa komið út og hann getur meira að segja tengst við aukahluti sem Nintendo gaf út fyrir Famicom tölvuna, eins og t.d. Famicom Disk System viðbótina (meira um hana síðar). Þó eru hljómgæði Family Game tölvunnar ekki eins góð og í alvöru Famicom tölvu og hún var ekki með innbyggðan hljóðnema í seinni stýripinnanum.
Til vinstri; Nintendo Family Computer. Til hægri; NTDEC Family Game
Þó svo að Family Game tölvan hafi ekki verið nálægt eins vinsæl og NES tölvan hér á Íslandi, voru ýmsir kostir við að eiga slíka tölvu fram yfir það að eiga NES. Fyrir lítinn pening var hægt að kaupa millistykki sem tengdi NES leiki við Family Game tölvuna, þannig að hún gat bæði spilað Famicom leiki og NES leiki. Family Game tölvurnar höfðu líka alræmda „Turbo-takka“, sem leyfðu leikmönnum að halda inni tökkunum í staðinn fyrir að hamast á þeim þegar þess var þarfnast í leikjum. Svo ekki sé minnst á verðmuninn á Famicom leikjunum og NES leikjunum. Ef ég man rétt kostuðu nýjir Famicom leikir á milli 1000-2000kr, á meðan NES leikirnir fóru á í kringum 5000kr.
Auglýsing fyrir NTDEC Family Game í dagblaðinu Dagur 12. mars 1991.
Þetta er í raun ástæðan fyrir því að ég safna fyrst og fremst Famicom leikjum. Aðal ástæðan er náttúrulega sú að ég átti nokkra svona NTDEC leiki og famiklóninn fyrir, og því er viss nostalgía tengd Famicom kerfinu. En þar fyrir utan er töluvert meira úrval ef maður safnar Famicom leikjum á móti því að safna NES leikjum, því allir þessir óendanlega mörgu pirate leikir bætast við. Pirate leikirnir eru líka ekki bundnir við það að vera klónar af japönskum Famicom leikjum, þvert á móti eru þeir margir klónar af NES leikjum og eru þar af leiðandi oft á ensku í stað japönsku. Þar fyrir utan er enn í dag verið að framleiða nýja pirate leiki fyrir Famicom, en það er þó mest megnis fyrir kínverskan markað.
Jæja, þetta er búinn að vera frekar þung og heldur mikið tæknileg bloggfærsla. Lofa að skrifa um eitthvað léttara næst.
Takk fyrir lesturinn!
(Þessi færsla birtis upphaflega á gamla Leikjanördablogginu 24. september 2011)
One Response to Famiklónar og af hverju ég safna Famicom leikjum
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.
Pingback: Leikir sem ég hata að elska | Nörd Norðursins