Birt þann 20. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
1Icelandic Gaming Industry (IGI)
Icelandic Gaming Industry (IGI) var stofnað árið 2009 af helstu tölvuleikjafyrirtækum landsins. Tilgangur hópsins er að miðla þekkingu og reynslu sín á milli og um leið efla viðskiptatengsl meðal íslenskra leikjafyrirtækja.
Tölvuleikjaiðnaðurinn á Íslandi fer stöðugt stækkandi og eflist ár frá ári. CCP stendur fremst í flokki tölvuleikjafyrirtækja hér á landi, en fleiri slík fyrirtæki starfa einnig hér á landi og má þar nefna Betware, CADIA, Dexoris, Digital White Knight, Fancy Pants Global, Gogogic, MindGames og Ymir. Auk þess eru síður á borð við Games4J og Leikjanet.is sem bjóða upp á fjölda netleikja. Aðrir miðlar sem einnig eru starfandi á Íslandi eru t.d. tölvuleikjaþátturinn Game Tíví og heimasíða Nörd Norðursins sem miðla upplýsingum úr leikjaiðnaðinum til áhorfenda/lesenda.
IGI stendur fyrir ýmiskonar viðburðum og ber þar helst að nefna reglulega hittinga (IGI Meetup), fyrirlestra, vinnustofur og samkeppnir í tölvuleikjagerð. Í fyrra stóðu þeir fyrir Icelandic Gaming Industry Awards 2010 (IGIA10) þar sem góðar tölvuleikjahugmyndir voru verðlaunaðar. Í tengslum við IGIA10 voru fyrirlestrar og vinnustofur haldnar og geta áhugasamir nálgast upptökur af þeim hér á YouTube.
Þetta árið stendur IGI fyrir sambærilegri tölvuleikjakeppni sem ber heitið Game Creator. Svipað fyrirkomulag er í Game Creator og IGIA10 þar sem keppt er um hugmynd og hönnun besta tölvuleiksins. Keppnin hófst 1. september síðastliðinn og leikjum þarf að skila inn í síðasta lagi laugardaginn 29. október. Við hjá Nörd Norðursins munum að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála og tilkynna sigurvegara þegar þar að kemur.
Sama hvort þú ert eigandi leikjafyrirtækis, leikjasíðu, forritari, hugmyndasmiður, listamaður, starfar við þrívíddarvinnslu eða prófun tölvuleikja, ert atvinnumaður, gúrú eða áhugamaður, getur þú fylgst með og tekið þátt í umræðum á heimasíðu IGI; www.igi.is. Þar er hægt að skrá sig á síðuna og opna persónulegan prófíl þar sem þú getur sett inn mynd af þér og sagt frá eins miklu, eða litlu um þig og þú vilt. Auk þess getur þú gengið til liðs við ýmsa hópa sem hafa verið stofnaðir og fylgst með nýjum fréttum. Smelltu hér til að stofna prófíl á IGI!
Eflum íslenskan tölvuleikjaiðnað!
– Bjarki Þór Jónsson
One Response to Icelandic Gaming Industry (IGI)