Birt þann 22. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Techno Kitten Adventure
Í tölvuleiknum Techno Kitten Adventure stjórnar spilarinn ofurtöffara kettlingi með þotubagga (jetpack). Markmiðið í leiknum er einfalt; að forðast snertingu við glitrandi stjörnur, en í hverju borði eru láréttar línur uppi og niðri og ýmsar hindranir þar á milli sem samanstanda af slíkum stjörnunum. Leikurinn er fáanlegur í netverslun Xbox 360, Windows Phone 7 og iOS, en við prófuðum leikinn í Xbox 360. Þar notar spilarinn aðeins einn takka (A) til að stýra kettlingnum – þotubagginn kemur kettlingnum upp þegar ýtt er á takkann en fer niður þegar takkanum er sleppt. Reglur leiksins eru afskaplega einfaldar og það er afar auðvelt að læra á stjórnun leiksins, aftur á móti er markmið leiksins heldur erfitt.
Litagleðin í leiknum er svakaleg, jafnvel æla sem samanstendur af öllum væmnustu Disney myndum frá upphafi ættu erfitt með að fanga þessa svakalegu litagleði. Við erum að tala um alla neon-liti veraldar á einum stað. Auk þess eru ýmsir hlutir sem birtast skyndilega á skjánum til að trufla spilarann eins og til dæmis einhyrningur og höfrungar. Stundum fer hluti af skjánum að blikka og stjörnurnar og allir hlutirnir missa sig í einhverskonar ofurgleði. Sjaldan hafa pixlar innihaldið jafn mikið brjálæði og í Techno Kitten Adventure!
Tónlist leiksins samanstendur af brjálæðri teknó og reif tónlist. Skemmtanagildi leiksins rýkur upp ef leikurinn er spilaður í stóru sjónvarpi með góðum græjum svo hægt sé að blasta tónlistinni almennilega.
Leikurinn er einfaldur í spilun og hentar vel þeim sem hafa súrealískan húmor og vilja keppa við vini sína um hver nær að lifa lengst af regnaboga- og teknóæluna í Techno Kitten Adventure! Mæli klárlega með þessum!
Athugið – Leikurinn er EKKI ætlaður flogaveikum!
8,0
– BÞJ